Bara að koma og láta sjá sig

Setið við spil í félagsstarfinu í Gerðubergi.

Félagsstarfið í Gerðubergi er komið í fullan gang og fjölbreytt líkt og verið hefur undanfarin ár. Boðið er upp á fjölda námskeiða auk tómstundastarfa og skemmtilegrar viðveru. Heitur matur er í kaffihúsi Corinu Rodriges á efri hæðinni í hádeginu og er hann niðurgreiddur til eldri borgara. Corina hefur lagt metnað í fjölbreytta matargerð og áherslu á hollustu.

Opin handavinnustofa er alla virka daga frá kl. 08.30 til 16.00. Útskurður með leiðbeinandi er á mánudögum og miðvikudögum. Keramik málun er á þriðjudögum og glervinnustofa á föstudögum. Þá er í boði leikfimi af ýmsum toga, leikfimi Maríu, leikfimi gönguhóps og sundleikfimi í Breiðholtslauginni handan Austurbergsins. Prjónakaffið góða er á sínum stað, bókband og fleira og fleira. Notendaráð starfar í tengslum við félagsstarfið og er tilgangur að rödd notenda heyrist og að starfið beri með sér valddreifingu og unnið sé á lýðræðisgrunni. Notendaráð skipa: Ágústa Hjálmtýsdóttir, Þorbjörg Einarsdóttir, Erla Hallgrímsdóttir, Sigurbjörg Þórðardóttir og Hafsteinn Sigurðsson. Félagsstarfið er öllum opið án tillits til aldurs og sérstök ástæða er til þess að vekja athygli á að það er ekki sérsniðið fyrir eldri borgara. Allir eru velkomnir. Engra skráninga er þörf og það er bara að koma og líta inn – annað hvert til að taka þátt í námskeiðum eða öðru félagsstarfi eða bara til að fá sér kaffisopa, sýna sig og sjá aðra og spjalla saman.

You may also like...