Tillögur um uppbyggingu KR svæðisins liggja fyrir
Starfshópur um skipulags- og uppbyggingarmál KR hefur starfað síðustu mánuði að tillögum að uppbyggingu á KR svæðinu og skilaði tillögum til borgarinnar á liðnu hausti. Hugmyndir starfshópsins hafa þegar verið kynntar fyrir hverfisráði Vesturbæjar, íþrótta- og tómstundaráði og á félagsfundi hjá KR. Í framhaldi samþykkti borgarráð viljayfirlýsingu milli KR og Reykjavíkurborgar um gerð deiliskipulags vegna mögulegrar uppbyggingar á KR-svæðinu á grundvelli hugmynda starfshópsins.
Í tillögunum felast miklar breytingar á KR svæðinu. Í aðalatriðum að gert er ráð fyrir rúmlega 30.000 fermetra auknu byggingarmagn á svæðinu. Stærsta breytingin er að gert er ráð fyrir að aðalvellinum verði snúið í austur-vestur og tvær stúkur byggðar við suður- og norðurhliðar vallar. Þá er gert ráð fyrir að byggðar verði íbúðir meðfram Kaplaskjólsvegi og Flyðrugranda. Í tillögum starfshópsins kemur fram að markmiðið með uppbyggingunni sé að bæta aðstöðu KR og auka þjónustu við alla íbúa hverfisins. Þar segir að gerðar séu auknar kröfur til íþróttafélaga um félagsstarfemi allan daginn og eru börn úr grunnskólum hverfisins þátttakendur í fjölbreyttu félags- og íþróttastarfi alla daga. KR-ingar hafa að auki áhuga á að auka aðra félagslega þjónustu við alla íbúa hverfisins. Það eru arkitektarnir Bjarni Snæbjörnsson og Páll Gunnlaugsson sem hafa starfað með starfshópnum og munu vinna deiliskipulagið í framhaldi viljayfirlýsingarinnar.
Uppbygging KR og Vesturbæjarins geta farið saman
Hugmyndir að íbúðabyggingum í sambandi við endurbyggingu KR svæðisins voru unnar af Borgarbrag sem annaðist ýmiskonar grunnvinnu og útfærslu á hugmyndum um framtíð KR svæðisins og Vesturbæjarblaðið greindi frá á sínum tíma. Það er skortur á fjölbreyttari íbúðaúrræðum – einkum minni íbúðum sem varð til þess að skoðað var hvort hægt væri að koma til móts við þær þarfir í leiðinni. Fyrir liggur að íbúðaverð í Vesturbænum hefur rokið upp að undanförnu og ljóst að umbætur á KR svæðinu bæði hvað íþróttastarf og þjónustu varðar mun auka vinsældir þess og einnig kalla eftir ódýrari húsæðiskostum og fleiri leiguíbúðum. Því verði að huga að fleiri úrræðum í húsnæðismálum meðal annars vegna hættu á að Vesturbærinn þróist meira í þá átt að verða einsleitt hverfi eldri íbúa þar sem yngra fólk á erfitt með að koma undir sig fótunum. Í þeirri vinnu var lögð áhersla á að reyna ný vinnubrögð nýja nálgun við stórt viðfangsefni. Hvernig áframhaldandi uppbygging Vesturbæjarins og KR geta farið saman inn í framtíðina.