Skatttekjur hækkuðu um 11% frá síðasta ári

Skatttekjur A hluta bæjarsjóðs Seltjarnarnesbæjar námu 4.020 m.kr. og hækkuðu um 11,2% frá síðasta ári. Laun og launatengd gjöld námu um 3.027 m.kr. og hækkuðu um 10,9% á milli ára. Annar rekstrarkostnaður var talsvert hærri en áætlun gerði ráð fyrir, eða 2.014 m.kr. og hækkaði um 12%. 

Ástæður hærri rekstrarkostnaðar eru einkum hækkun aðfangaverðs vegna verðbólgu auk stóraukins launakostnaðar á fyrsta fjórðungi ársins vegna Covid19. Betri rekstrar­niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir skýrist meðal annars af hærri tekjum, einkum útsvarstekjum. Þær voru 146 m.kr. yfir áætlun. Niðurstaða ársreiknings 2022 er í takti við verðbólgu og erfitt rekstrarumhverfi sveitarfélaga. Rekstrarhalli A og B hluta nam um 345 m.kr. á síðasta ári en áætlun gerði ráð fyrir 194 m.kr. halla. Til samanburðar nam halli samstæðunnar 566 m.kr árið 2021.

Skuldaviðmið er 80%

Langtímaskuldir A sjóðs nema 3.058 m.kr. og jukust um 124 m.kr. á árinu 2022. Langtímaskuldir samstæðunnar nema 3.662 m.kr. Á móti lang­tímaskuldum A sjóðs kemur núvirt krafa á ríkið vegna Hjúkrunarheimilisins Seltjarnar að upphæð 1.151 m.kr. sem lækkar skuldaviðmið bæjarins. Skuldaviðmið Seltjarnarnesbæjar var 80% í lok árs 2022 en var 76% í lok árs 2021. Þegar tekið hefur verið tillit til inneignar í leigusamningum ríkis og borgar nemur skuldaviðmiðið um 65%. Lögbundið hámark er 150%. Engin lán voru tekin árið 2022 og er skuldaviðmið bæjarfélagsins með því besta sem gerist meðal sveitarfélaga. Veltufé frá rekstri samstæðunnar jókst um rúmlega 100 m.kr á milli ára og nemur um 478 m.kr. samanber 352 m.kr. árið 2021. Veltufé frá rekstri segir til um fjárhagslega getu bæjarfélagsins til að greiða af lánum og til fjárfestinga.

Lántaka vegna leikskóla

Á liðnu ári voru töluverðar framkvæmdir hjá bænum svo sem bygging búsetukjarna fyrir fatlað fólk auk malbikunarverkefna svo eitthvað sé nefnt. Á síðustu fimm árum hefur verið framkvæmt fyrir tæpa 4,5 ma.kr. Á yfirstandandi ári verður stærsta verkefnið að byggja nýjan leikskóla. Gert er ráð fyrir lántöku vegna leikskólabyggingar á yfirstandandi ári en þar er um að ræða síðustu stóru innviðauppbyggingu bæjarfélagsins að sinni. Af öðrum verkefnum má nefna nýjan búsetukjarna fyrir fatlað fólk við Kirkjubraut 20 sem þegar hefur verið afhentur. Fyrsti áfangi skólalóðar Mýrarhúsaskóla er enn fremur á dagskrá. Áformað er að hefja framkvæmdir við endurbyggingu Félagsheimilis á þessu ári og ljúka þeim fyrir 50 ára afmæli bæjarins á því næsta.

You may also like...