Mikilvægt og víðtækt hlutverk

Stærri strætisvagnar hafa verið settir inn á fjölmennari leiðir.

Rekstur almenningssamganga í Reykjavík og síðar á höfuðborgar­svæðinu á sér nær aldar langa sögu. Allan þann tíma hefur rekstur þeirra barist í bökkum og svo er enn. Deilt er um hlutverk almenningssamganga. Hversu mikilvægt það sé og hversu víðtækt það eigi að vera. Samkeppnin við einkabílinn er hörð í borgarskipulagi sem í meira en hálfa öld hefur tekið mið af honum sem megin samgöngu­tæki. Íbúum höfuðborgarinnar og höfuðborgarsvæðisins alls hefur fjölgað mikið að undanförnu. Af þeim sökum þarf að skoða hugmyndafærði samgangnanna út frá nýjum forsendum. Eiga almennings­samgöngur að vera olnbogabarn til framtíðar og hvað kann að vera þjóðhagsleg hagkvæmt í því máli.  

Tap af rekstri Strætó bs. á síðasta ári nam um 834 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu af rekstri um 242 milljónir króna. Tap var því um 592 milljónum umfram áætlun ársins. Um er að ræða tæplega tvöfalda upphæð miðað við síðasta rekstrarár þegar það nam um 439 milljónum króna. Í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra kemur fram að lakari afkoma skýrist af því að sú tekjuaukning sem fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir hafi ekki skilað sér sem rekja megi til vaxandi verðbólgu, olíuverðhækkana, kjarasamningsbundinna launahækkana og styttingu vinnuvikunnar. Í samantekt sem Alþýðusamband Íslands hefur birt námu fargjöld 21% af tekjum Strætó á síðasta ári en það eru um 1,8 milljarðar króna.

Efla með tillögur

Í skýrslu Verkfræðistofunnar Eflu kemur fram að um 20% íbúa höfuðborgarsvæðisins nota Strætó einu sinni eða oftar í mánuði. Þar kemur einnig fram hvernig bæta megi kerfi almenningssamganga á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að aukin tíðni ferða, styttri ferðatími, ódýrara fargjald og auðveldari skiptingar skipti máli. Í samantekt könnunarinnar kemur fram að mögulegar aðgerðir til að bæta gæði almenningssamgangna og auka notkun þeirra séu að veita þeim meiri forgang í umferðinni. Færa til biðstöðvar og huga vel að staðarvali þeirra við mótun skipulags. Endurskoða leiðakerfi Strætó og stuðla að aukinni upptöku strætókorta og endurskoða gjaldskrá. Einnig þurfi að hvetja vinnustaði til að taka upp samgöngustefnu. Reglulegar samanburðarmælingar á ferðatíma Strætó og einkabílsins eftir völdum leiðum innan Reykjavíkur í dag sýnir að oft taki um 10 mínútur eða lengri tíma að ferðast með Strætó en með einkabíl. Með því að stytta ferðatíma með Strætó megi gera ráð fyrir að fleiri líti á almenningssamgöngur sem raunhæfan valkost.

Strætisvagn frá liðinni öld. Trúlega frá áttunda áratugnum.

Fargjöld lengi umdeild 

Gamall strætómiði. Líklega frá upphafi sjötta áratug liðinnar aldar. Þá kostaði farið 77 aura.

Fargjöld strætisvagna hafa verið umdeild. Í grein í Morgunblaðinu 19. september 1995, sem rituð var af Friðrik H. Guðmundssyni þáverandi formanni Íbúasamtaka Grafarvogs segir að nú sé svo komið ekki sé hægt að sitja lengur aðgerðarlaus. Ekki sé hægt að líða það að opinberir aðilar eins og Reykjavíkurborg leyfi sér að hækka fargjöld strætisvagnanna langt umfram almennar kaupgjaldshækkanir. Endanlega gengur fram af okkur þegar fargjöld unglinga og aldraðra eru hækkuð langmest og ekki látið muna um það, hækkunin er 100%. Hér höggva þeir sem hlífa skyldu.“ Svo mörg voru þau orð en hver er staðan tæpum þremur áratugum síðar. Hefur eitthvað breyst. Hvað hefur staðið í veginum fyrir því að notkun almenningsvagna hefur ekki aukist í takt við það sem vonir stóðu til. Fargjöld og hægfara umferð.

Ekki rými á umferðargötum

Líklegt má telja að gjaldfríar almenningssamgöngur myndu fjölga farþegum sem velja þær fram yfir einkabíl. Eftir stendur þó spurning um þau þægindi sem margir telja sig hafa af notkun einkabíls. En önnur spurning er einnig áleitin. Hversu lengi er rúm fyrir fjölgun einkabíla í hlutfallið við íbúafjölgun Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins alls. Þessu vilja sveitarstjórnir mæta með flýtiakstursleiðum um búsvæðið. Fólksflutningavögnum sem aka um á sérleiðum sem önnur farartæki hafi ekki aðgang að. Þessi leið hefur ekki verið óumdeild einkum vegna kostnaðar við að byggja sérleiðir inn í umferðarkerfi höfuðborgarsvæðisins. En þá er ótalinn hugsanlegur kostnaður af miklum umferðarþunga og töfum sem myndast á álagstíma. Og stærstu spurningunni er ósvarað. Hvað myndi kosta hinn almenna borgara að nota hinar nýju umferðaræðar. Í ljósi þess að fargjöld með strætisvögnum eru ekki óumdeild og hafa að einhverju leyti staðið gegn notkun þessarar þjónustu má spyrja hvar kostnaður og sparnaður kunni að mætast. Sé gengið út frá fyrirliggjandi spám og álitum verður að gera ráð fyrir að notkun almenningssamganga aukist verulega á komandi tímum. En til að svo megi verða er ekki nóg að flýta umferðartíma. Heldur verður að halda kostnaði fyrir hvern farþega innan takmarka. 

You may also like...