Eigum að geta verið með skóla á heimsmælikvarða
Runólfur Ágústsson hefur starfað að skóla- og fræðslumálum lengstan hluta starfsaldurs síns og fylgst vel með þróun mála á öllum skólastigum árum saman. Hann var rektor Háskólans á Bifröst um sjö ára skeið en starfaði síðan að stofnum og uppbyggingu Keilis í Reykjanesbæ og stýrði honum fyrstu þrjú árin. Á Bifrastarárunum kom hann einnig að stofnun Menntaskóla Borgarfjarðar. Eftir hrun leiddi hann samstarf aðila vinnumarkaðarins og ríkisins í vinnumarkaðsmálum og var m.a. stjórnarformaður Vinnumálastofnunar og Atvinnuleysistryggingasjóðs þegar fjölda ungs fólks var gert kleift að fara af atvinnuleysisbótum í skóla. Runólfur er nú ásamt öðrum verkefnum að vinna að stofnum og uppbyggingu lýðháskóla á Flateyri sem gert er ráð fyrir að taki til starfa með haustinu. Runólfur er Miðborgarmaður í dag. Býr í gömlu Miðborginni nánar tiltekið á Haðarstígnum. Hann spjallar við Vesturbæjarblaðið nú á þeim tíma sem mennta- og skólamál eru mikið til umræðu.
„Já – það má segja að ég hafi tengst skólamálum meira og minna alla starfsævi mína og þá einkum því sem kalla mætti frumkvöðulsstörf. Þegar ég tók við Háskólanum á Bifröst nýstofnuðum vorum um 100 nemendur skráðir til náms en þegar lét lét af störfum sjö árum síðar voru þeir farnir að nálgast þúsundið sem sýnir að mikil þörf var fyrir nýjar leiðir í háskólanámi. Stofnun Keilis var að ýmsu leiti eðlilegt framhald þess sem ég hafði verið að gera á Bifröst. Með stofnun Keilis var opnuð gátt fyrir fólk sem hætt hafði námi til þess að hefja námsferil að nýju. Sama má segja um verkefni mín fyrir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur efir hrun en þar stýrði ég átaksverkefnum sem komu ungu fólki af atvinnuleysisskrá til náms og út í atvinnulífið í framhaldi þess. Á þeim tíma tókst að koma um sex þúsund manns af bótum og inn í skólakerfið. Síðasta verkefnið sem ég hef tekið að mér á skólasviðinu er undirbúningur að stofnun lýðháskóla vestur á Flateyri. Þar er verið að byggja á norrænu lýðháskólahugmyndinni sem lengi hefur verið við lýði á hinum Norðurlöndunum en aldrei náð verulegri fótfestu hér á landi. Við gerum ráð fyrir að auglýsa pláss í skólanum í apríl og taka inn á bilinu 15 til 30 nemendur í fyrstu lotu.“ Runólfur segir áhuga á lýðháskólamáni verulegan hér á landi og fjölda íslenskra ungmenna stunda nám við danska lýðháskóla um þessar mundir. „Þetta er bæði vinsælt hjá nýútskrifuðum stúdentum en líka ákveðin leið inn í nám eftir að hafa hætt eða ekki haldið áfram af einhverjum ástæðum og ákveðin mjúk lending ef við getum orðað það svo einkum vegna þess að þessi tegund skóla byggir ekki á prófum.“
Ólæsi er óviðunandi
En að grunnskólanum. Hann er mikið til umræðu þessa dagana vegna slakrar útkomu í PISA könnunum í samanburði við Norðurlöndin og þeirrar vitneskju að lestrarkunnáttu fari hrakandi hér á landi. Runólfur tekur undir þetta. „Það eru því miður engin ný tíðindi að við komum illa út úr samanburðarkönnunum við Norðurlöndin. Þegar PISA kannanir sýna að okkur hrakar stöðugt meira í samanburðinum og við vitum að allt að þriðjungur drengja getur ekki lesið sér til gagns er það skelfileg staða. Skólakerfið er jöfnunartæki. Það á að jafna tækifæri fólks í lífinu. En þegar staðan er orðin svo að hluti fólks er ólæs er það bein vísbending um að þetta fólk getur ekki nýtt sér þau lífsgæði sem standa til boða eins og átt sömu möguleika og aðrir í lífinu. Þetta er staðreynd sem allir hljóta að sjá og viðurkenna og gengur ekki upp í okkar samfélagi.“ En hvað er þá til ráða. „Það virðist skorta hugmyndir um hvernig eigi að ganga til móts við þennan vanda. Ég held að skólakerfið búi við of mikla miðstýringu. Hér í Reykjavík og eflaust víðar þarf að auka sjálfstæði einstakra skóla og það þarf líka að auka samstarf skóla og foreldra. Það þarf bæði ytra og innra aðhald í skólastarfinu. Nú er ég að horfa á þetta frá mínum eigin sjónarhóli sem foreldri. Ég vil vita hvort barnið mitt er í góðum skóla eða lökum og geta lagt mitt af mörkum til að bæta námsumhverfi minna barna og annarra.“
Hægt að bregðast við
Runólfur vitnar til þess árangurs sem orðið hefur í skólastarfi á Seltjarnarnesi. „PISA tölurnar eru ekki birtar fyrir einstaka skóla heldur fyrir hvert sveitarfélag fyrir sig. Því er ekki hægt að sjá mun á milli skóla. Hvort hann er einhver og þá hver hann er. Á Seltjarnarnesi er bara einn skóli í bæjarfélaginu og því kemur þetta skýrt fram. En dæmið af Seltjarnarnesi sýnir okkur að það er hægt að bregðast við þessu og skólayfirvöld og kennarar á Seltjarnarnesi hafa gert það með þeim árangri sem hefur komið fram.“
Sinnuleysið gagnvart börnum innflytjenda
„Svo er annað sem við verðum að hyggja að og það nú þegar,“ heldur Runólfur áfram. „Sinnuleysið gagnvart börnum innflytjenda er að vera að tifandi tímasprengju. Hlutfall barna í leikskólum sem eru af erlendi bergi brotnu hækkar stöðugt og því spyr ég hvað ætlum við að gera til að bregðast við því. Menntakerfið gegnir lykilhlutverki í aðlögum innflytjenda og barna þeirra. Það hefur lítið verið gert í að útbúa námsefni fyrir þetta fólk og kennsla og þjónusta sem það býr við dugar ekki. Og þetta á ekki aðeins við um grunnskólann. Framhaldsskólinn og jafnvel háskólarnir eru á sama stað. Fólki af erlendum uppruna er alltaf að fjölga og nú lætur nærri að um 10% íbúa höfuðborgarinnar eiga sér erlendan uppruna eða rætur. Á Suðurnesjum er þetta hlutfall komið hátt í 20%.“ Runólfur segir ekki hægt að skilja sveitarfélögin eftir með þennan vanda. Ekki sé hægt að láta þau sitja í súpunni. „Þarna verður ríkið að koma til meðal annars með því að láta útbúa námsefni. Framtíð tungumálsins snýst líka um læsið og raunar menntakerfið í heild sinni.“
Lærðaskólahugsunarhátturinn en við lýði
Runólfur segir að ef horft sé á háskólastigið, þróun þess á undanförnum árum og þá miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað komi í ljós að þar hafi skólarnir sjálfir fengið að ráða ferðinni en á meðan skorti á greiningu á því á hvaða menntun við þurfum að halda til framtíðar „Háskólarnir leggja of mikla áherslu á hefðbundið akademískt nám en okkur vantar að byggja upp starfstengt nám á háskólastigi. Okkur vantar stutt en hagnýtt háskólanám og sá akur er alveg óplægður. Það eru ákveðnir brestir í menntakerfinu að þessu leyti. Enn er verið að horfa á allt háskólanám með einhverskonar Lærðaskólanálgun. Það er nú meira en öld síðan Lærðiskólinn var og hét en hugsunarhátturinn hefur ekki breyst nægilega eða lagast að aðstæðum nútímans. Við sjáum þetta vel á framhaldsskólastiginu. Brottfallið er mikið. Flestir fara enn í bóknám en verknámið er illa sett og samkeppnisstaða þess hefur versnað enn frekar með styttingu stúdentsprófs af bóknámsbrautum í þrjú ár á meðan leiðir til verknáms eru langar og flóknar. Það þarf að endurskapa verknámskerfið og byggja brú frá verknáminu yfir á háskólastigið. Við höfum ekki áttað okkur á að verknám getur verið góð undirstaða fyrir nám á háskólastigi einkum á raungreinasviðinu. Þarna höfum við verk að vinna. Það ætti auðvitað að vera sjálfsagt og eðlilegt að smiður eigi greiða leið til þess að verða byggingartæknifræðingur en svo er ekki.“
Verjum hærri upphæðum en Skandinavar
En víkjum aðeins að steinsteypunni. Hefur verið lögð of mikil áhersla á skólabyggingar en minna hugað að innihaldinu. „Það kann vel að vera og er áhugaverð umræða. Ég heyrði Skúla Helgason formann skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar ræða í útvarpsviðtali fyrir skömmu um að sveitarfélög hafi ef til vill lagt of mikla áherslu á dýr skólahús en hugað of lítið að innihaldinu. Ég hef ekki kynnt mér nægilega vel hvernig kostnaður við grunnskóla er reiknaður í nágrannalöndunum – hvort húsnæðiskostnaður er reiknaður sem sér hluti af skólakostnaðinum en ef að tölur frá OECD eru hafðar til hliðsjónar kemur i ljós að við erum að verja mun hærri upphæðum á hvern nemanda en t.d. bæði Finnar og Svíar á meðan kjör kennara eru mun lakari. Þegar svona kemur upp eins og gert hefur í menntakerfinu hér á landi fara menn í vörn og taka að skoða fortíðina og nú er verið að velta fyrir sér hvort yfirfærsla grunnskólans frá ríkinu til sveitarfélaganna hafi mistekist. Málið snýst bara ekki um það. Við verðum hér að horfa fram á veginn og tryggja gæði skólanna.“
Eigum að geta verið með skóla á heimsmælikvarða
Runólfur víkur að skóla án aðgreiningar og veltir því fyrir sér hvor sú hugmyndafræði og skólastefna hafi skilað okkur því sem til var ætlast. „Þetta er fögur hugsjón en spurningin er engu að síður sú hvort þessi stefna gagnast þeim nemendum sem þurfa á sérstakri þjónustu að halda. Þetta hefur væntanlega bæði jákvæð og neikvæð áhrif en það þarf að meta árangurinn. Við þurfum að fara yfir málin og finna út bestu leiðirnar. Þær sem skila árangri í menntun og þroska.“ Runólfur veltir kennaranáminu einnig fyrir sér. „Kennaranámið var lengt úr þremur árum í fimm og þá dróst aðsóknin að því verulega saman. Fimm ára námið hefur skilað mun færi réttindakennurum en þriggja ára námið gerði. Spurning er um af hverju það gerðist. Ef við horfum til Finnlands sem er um margt framarlega í skólamálum þá er kennaranámið þar finn ár eins og hér. En þeir bjóða tvennskonar kennaranám. Annars vegar fimm ára námið sem gefur full réttindi en einnig þriggja ára nám sem veitir takmörkuð kennsluréttindi. Það er einnig rætt um að kennara skorti þjálfun og starfsreynslu þrátt fyrir fimm ára háskólanám. Hversu vel eru kennarar að sér í þeim fögum sem þeim er ætlað að kenna og hversu vel þeir eru að sér í kenningum um uppeldis- og kennslufræði. Getur verið að lélega útkomu í stærðfræði megi rekja til þess að kennarar hafi ekki fengið nægilega kennslu og þjálfun í þeirri grein. Við það vakna spurningar um hvort of mikil áhersla sé lögð á uppeldis- og kennslufræðigreinar í náminu en minni áhersla á praktísku hliðina. Hvort fremur sé þannig í raun verið að mennta kennslufræðinga en kennara. Þarna er einn eitt málið sem huga verður að athuga.“ Runólfur segir að menn verði að setjast niður og spyrja sig gagnrýnna spurninga. „Við verðum að spyrja okkar af hverju við erum komin á þennan stað í skólakerfinu og finna út hvað og hvernig við getum gert betur. Við verðum að horfa fram á veginn og takast á við vandann. Við erum lítið en efnað samfélag og eigum að geta verið með skóla á heimsmælikvarða.“