Hótel og allt að 330 íbúðir á Héðinsreitum
Líkur eru til að byggingaframkvæmdir muni hefjast á stærsta óbyggða svæðinu í Vesturbænum innan tíðar. Er þar um að ræða svonefnda Héðinsreiti vestan stórhýsis sem jafnan er kennt við Vélsmiðjuna Héðinn. Um tvo samliggjandi reiti er að ræða. Annar er við Seljaveg 2 þar sem Héðinshúsið sendur en hinn við Vesturgötu 64 og er óbyggður. Efri reiturinn við Seljaveg 2 er í eigu Seljavegar ehf. en Vesturgötureiturinn er í eigu Hróðurs ehf. Um tvo sjálfstæða eignarhluta er að ræða og engin tengsl eru milli félaganna Seljavegar ehf. og Hróðurs ehf. önnur en þau að lóðirnar á reitnum liggja saman.
Nú er unnið aðalskipulagningu þessa byggingasvæðis og er gert ráð fyrir að skipulagið fari til kynningar innan nokkurra vikna. Gert er ráð fyrir byggingu allt að 230 íbúða á öðrum reinum en um 100 íbúða á hinum auk þess sem hótelbyggingar eru fyrirhugaðar. Þegar hefur verið hafist handa við eina hótelbyggingu en Héðinshúsið verður hluti hennar. Gert er ráð fyrir að umtalsverður hluti íbúða á svæðinu verði á bilinu 80 til 90 fermetrar en endanlegar íbúðastærðir munu ekki liggja fyrir. Bílakjallari er fyrirhugaður undir byggingunum en þó munu bílastæði ekki fylgja öllum íbúðum.
Héðinsreitirnir eða svæðið vestan Héðinshússins hafa lengi verið til umræðu sem byggingarland og ýmsar hugmyndir komið fram um húsagerðir þar og útlit þeirra. Fyrir 15 árum leit fyrsta tillagan að byggingum dagsins ljós en þá var gert ráð fyrir þremur íbúðaturnum ásamt bílageymslu. Í turnunum var gert ráð fyrir um 160 íbúðum frá 60 fermetrum í 110 fermetra. Þessi tillaga hlaut ekki náð fyrir skipulagsyfirvöldum í Reykjavík einkum vegna hæðar þeirra en hámarks hæð bygginga átti ekki að fara yfir sjö hæðir. Eftir það var farið að huga að öðrum kostum og næsta hugmynd var að byggja 120 íbúðir fyrir eldri borgara ásamt 64 hjúkrunarrýmum og þjónusturými. Þessar hugmyndir voru samþykkar af skipulagsyfirvöldum í Reykjavík með nokkrum breytingum. Í byrjun ágúst 2008 var gefið leyfi fyrir jarðvinnu á byggingarreitnum. Ekkert varð þó af einu eða neinu því tveimur mánuðum síðar brast bankahrunið á og var verkefnið þá stöðvað og síðar hætt við það. Eftir það tóku við deilur um eignarhald á lóðum vestan Héðinshússins sem enduðu fyrir dómstólum. Framkvæmdir eru þegar hafnar við hótel á austari hluta reitsins en áform munu vera að hefja einnig byggingu á þeim hluta reitsins sem snýr að Ánanaustum.