Leikja- ævintýra, survivor og smíðavöllur
Börnum á aldrinum 7 til 12 ára gafst í sumarfríinu kostur á að sækja sumarnámskeið á vegum Seltjarnarnesbæjar, segja má að sól og sæla hafi einkennt námskeiðin í ár.
Veðrið lék við okkur og nutu börnin sín í blíðunni bæði hér á Seltjarnarnesi og á ferð og flugi um höfuðborgarsvæðið. Námskeiðin héldu til í bæði Valhúsa- og Mýrarhúsaskóla en stefna sumarnámskeiðanna er að kynna börn fyrir ýmsum hópleikjum og skemmtun utandyra ásamt því að sýna þeim áhugaverða staði í nærumhverfi sínu. Hópar frá sumarnámskeiðum Seltjarnarnesbæjar heimsóttu m.a. Gufunesbæ, Nauthólsvík, Elliðaárdal, Viðey, Víðistaðatún og Rútstún ásamt því að dýfa sér ofan í hinar ýmsu sundlaugar. Survivor námskeiðin fóru m.a. í tjaldútilegu og börn sem sóttu smíðavöllinn reistu myndarlega kofabyggð á plani Valhúsaskóla.
Sumarskólinn
Hinn árlegi sumarskóli var haldinn 6. – 21. ágúst. Sumarskólinn er óbeint framhald af leikskóla, þar sem börn sem eru að hefja nám í 1. bekk mæta í Frístundaheimilið Skjólið í um það bil þrjár vikur áður en skólinn hefst. Tilgangurinn er meðal annars að kenna nemendum á nærumhverfi skólans til að þau verði öruggari þegar skólinn hefst. Starfsmenn eru starfsmenn Skjóls, Frístundar og leikjanámskeiða.
Í sumarskóla var farið í leiki, fjöruferð, bókasafn, rólóferðir, skoðunarferð um Mýrarhúsaskóla og fleira. Í sumarskólanum sóttu börnin sundnámskeið sem haldið var í sundlaug Seltjarnarness. Í lok sumarskólans var haldið pylsupartý og boðið upp á andlitsmálun.