Breiðholtið er stórkostlegt og fjölbreytt íbúðahverfi
— viðtal við Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur formann borgarráðs —
“Ég var fimm ára þegar foreldrar mínir fluttu í Breiðholtið. Þau bjuggu fyrstu 10 árin í Bökkunum en byggðu síðar hús í Seljahverfinu. Að þessu leyti er ég heppin. Ég kynnst báðum þessum byggðum í Breiðholti. Byggðum sem er um margt ólíkar þótt þetta sé í sama hverfi. Ég get talið mig til frumbyggja á báðum þessum stöðum, hreinræktaður óþekktarormur úr Breiðholtinu. Ég flutti úr Breiðholtinu yfir Elliðaárnar um þrítugt til að gera verið nær hesthúsum. Í dag bý ég við stífluna og fylgist með og tek þátt í mannlífinu í Elliðarárdalnum.“ Sú sem þetta mælir er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra sem spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.
„Ég er elst fjögurra systkina. Er sjö árum eldri en Hera systir sem margir þekkja úr tónlistarlífinu. Ég er oft spurð hvort ég syngi, svarið við því er að ég er sísyngjandi og það vita allir sem mig þekkja en hef bara ekki gert það að atvinnu. Móðir okkar var poppstjarna á sjöunda áratugnum. Það var sérstakt að eiga þekkta söngkonu fyrir móður. Ég ólst upp sem einskonar rótari fyrir hana. Ég man vel eftir mér í vinnu við að skrifa textana hennar eða vera á segulbandinu við upptökur. Kveikja og slökkva á réttum stöðum. Passa að hafa puttann á réttum tökkum. Svo var mamma alltaf að sauma kjóla og söngukonudress eins og við kölluðum það. Á þessum árum þurfti fólk að gera allt sjálft. Svo þvældist ég stelpukrakkinn með henni. Ég var oft með henni þegar hún var að syngja á Loftleiðum. Ég hljóp inn og út um allt. Ég átti líka til að liggja upp á sviði þegar bandið var að æfa. Ég var afslappaður krakki upp á sviði.“
Samvinna og samkennd í Bökkunum
Þórdís Lóa segir að öðruvísi hafi verið að alast upp við þessar aðstæður. „Mamma var ekki heimavinnandi eins og margar konur á þessum tíma. Þetta var áður en konur fóru almennt á vinnumarkaðinn.“ Þórdís Lóa segir að mikill samgangur hafi verið á milli fólks í Bökkunum. „Oft stóðu allar dyr opnar í stigaganginum. Einhvers staðar var einhver fullorðinn heima. Einhver mamma og krakkarnir gengu bara á milli. Út og inn. Þetta skapaðist held ég af því flestir voru á svipuðum aldri. Fólk á milli 20 og 30 ára og flestir með börn. Mamma og pabbi voru á milli tvítugs og 25 ára. Þarna varð góð samvinna til og samkennd á meðal íbúanna. Hverfið byggðist upp af ungu fólki. Ég man ekki eftir að eldra fólk byggi í námunda við okkur. Þetta var sérstakt í Reykjavík. Þetta hafði ekki gerst áður. Að heilt hverfi byggðist af ungu fólki. Það heyrði til undantekninga ef einhver krakki átti foreldra sem voru eldri en 30 ára. Vera má að félagsleg staða fólks hafi verið mismunandi. Ég hef ekki rannsakað það en það kom ekki í veg fyrir að fólk næði saman.“ En svo fluttuð þið í Seljahverfið. „Já – mamma og pabbi voru líka frumbyggjar þar. Þau byggðu sér hús við Hagasel rétt við tjörnina. Þegar við fórum úr Bökkunum voru þeir aðeins orðnir grónir. En Seljaherfið var allt einn drulluhaugur. Ánægjulegt leiksvæði fyrir krakkana sem vildu helst ekki koma inn. Þetta byggðist svo hratt. Ég tel það ákveðna lífsreynslu fyrir mig að hafa fengið tækifæri til að alast upp sem frumbyggi í báðum þessum hverfahlutum. Horfa á þá verða til og þróast hvorn með sínum hætti.“
Var ung þegar ég byrjaði að stjórna
Hvernig hefur Breiðholtið breyst frá þeim tíma að þú varst barn og unglingur. Fyrst í Bökkunum svo síðar við tjörnina í Seljahverfinu. Þórdís Lóa segir Breiðholt hafa verið einsleitara þegar hún var krakki og unglingur. „Þá var Breiðholt byggt ungu fólki að miklu leyti. Fólki sem var að koma undir sig fótnum og ala börn upp. Í dag er stendur Breiðholtið saman af fjórum hverfum eða byggðum sem hafa þróast nokkuð í mismunandi áttir. Ég hef alltaf haldið tryggð við Breiðholtið. Ég kenndi um tíma í Fellaskóla, var unglingaráðgjafi í Fellahelli og starfaði hjá félagsþjónustunni í Breiðholti. Ég er ÍR-ingur, spilaði handbolta og keppti á skíðum með félaginu og starfaði mikið með skátunum. Það var fjölmennt skátafélag, Urðarkettir, sem var með aðstöðu í kjallaranum í Breiðholtsskóla. Þetta var eitt stærsta skátafélag á landinu um tíma. Ég var fljótt leiðtogi í krakkahópnum. Ég man þegar ég var að bera póstinn út fyrir jólin þá fannst mér leiðinlegt að vera ein með vasadiskóið svo ég fékk hóp af krökkum með mér og við gerðum úr þessu jólaævintýri. Svo stóð ég með póstpokana. Tíndi upp úr þeim og setti krökkunum fyrir. Þetta á að fara þarna og þarna og þarna. Þessir krakkar voru flest yngri en ég. Sum á aldur við Heru systir eða yngri bræður mína. Já, ætli stjórnsemin hafi ekki byrjað snemma.“
Hæstu tréin í borgarlandinu í Seljahverfi
„Ég held að ég gæti labbað blindandi í gegnum Seljahverfið ef ekki væri allur gróðurinn. Hann var ekki vaxinn þegar ég var að alast upp og ég man vel eftir umræðunni að aldrei myndi vaxa tré í Breiðholti. Nú um aldarfjórðungi síðar eru einhver hæstu tré í borgarlandinu þar og þótt víðar væri leitað. Þetta hefur vaxið með ótrúlegum hraða. Breiðholtshverfin eru öll blönduð. Flestar húsagerðir er að finna innan þeirra. En sérstaða Seljahverfisins er hversu þétt byggðin er. Hún er miklu þéttari en í Bökkunum og í efri hverfunum. Svo eru þökin líka sérstök og stundum var talað um að hverfið litu út eins og túlipanagarður séð úr lofti. Þarna var verið að þreifa sig inn á nýjan stíl og að þétta byggð. Bakkarnir eru í stíl við Árblæinn en Seljahverfið er mikið þéttara. Mér þykir afar vænt um Seljahverfið þar sem ég ólst upp.“
Miklar breytingar með tilkomu stórmarkaða
Þórdís Lóa segir að Breiðholtið hafi verið byggt með þeim hætti að inn í hverjum hverfihluta væri ákveðinn þjónustukjarni. „Þar áttu hverfabúðir að starfa. Búðir á borð við matvöruverslanir, fiskbúðir, apótek og bakarí svo nokkurs sé getið. Síðan urðu miklar breytingar á verslunarháttum með tilkomu stórmarkaða. Minni verslanir áttu erfitt með að keppa við þá og margar minni búðirnar hættu starfsemi. Verslunarstarfsemin hefur lifað lengst í Efra Breiðholtinu einkum í Hólagarði þar sem meðalstór verslanamiðstöð var byggð af mikilli framsýni á sínum tíma. Ég ólst upp á þeim tíma sem hver fjölskylda átti einn bíl og svo var labbað út í búð. Í Bökkunum man ég að við löbbuðum oft út í Breiðholtskjör og bárum innkaupin heim. Í dag viljum við vinna að því að endurbyggja þessa kjarna, efla þá með mannslífi og þjónustu. Í því sambandi hefur borgin fest kaup á húsnæði í Arnarbakkanum og Völvufellinu. Við erum að kanna hverju verði hægt að koma upp í kjörnunum. Hluti af þessu húsnæði er í tímabundinni útleigu. Þegar ég var að vinna í Fellaskóla og í Fellahelli var ég að vinna með hverfislögreglunni sem hafði aðsetur þar sem Gamla kaffihúsið er nú. Það var margvísleg starfsemi þarna. Völvufellið hefur staðið breytingarnar betur af sér en Arnarbakkinn. Hann er staðsettur innst í aflokuðum botnlanga. Það kann að hafa haft áhrif. Seljakjör hefur staðið og er enn á sínum stað þótt eigendaskipti hafi orði á versluninni. Hún stendur við stofnbraut og nýtur umferðarflæðis þaðan.“
Nýtt og gamalt blandist saman
Þórdís Lóa segir að allar breytingar taki tíma. „Fyrir síðustu kosningar vorum við að ræða um úthverfin, inn með úthverfin sögðum við. Setja þau á dagskrá á ný. Þétta þau og leitast við að fá nýtt súrefni inn og efla mannlífið. Þetta á við um Arnarbakka og Völvufell en einnig aðra staði í Breiðholtinu. Hvaða endi sem málefni Heklu hf. fá verður áfram stefnt að uppbyggingu í Suður Mjódd. Það er mikilvægt fyrir gömul og gróin hverfi að fá súrefni sem síðan eflir mannlífið. Að nýtt og gamalt geti blandast saman.“ Þórdís Lóa minnist umræðunnar sem varð þegar ákveðið var að byggja öldrunarheimilið Skógabæ og íbúðir fyrir eldri borgara við Árskóga. “Ég var yfirmaður öldrunarþjónustunnar um tíma áður en ég fór að starfa í einkageiranum. Ég man að fólki leist ekkert á að byggja hjúkrunarheimili og blokk fyrir eldra fólk á gatnamótum eins og sagt var. En viti menn – þetta varð vinsæll staður. Fólki finnst gott að búa í grennd við umferðina og mannlífið. Ég man líka eftir umræðum sem urðu þegar verið var byggja íbúðir fyrir eldra fólk í Mörkinni. Fólk talaði um að byggja fyrir eldri borgara á umferðareyju. Á milli Suðurlandsbrautar og Miklubrautar. Þetta var talið galið. En hvað hefur gerst. Þarna reis falleg byggð þar sem fólki finnst gott að vera.“
Grænt svæði austan Stekkjarbakka
Íbúðabyggð í Norður Mjóddinni berst í tal. Þórdís Lóa segir íbúðabyggð inn á skipulaginu þar. Ekkert hafi þó enn verið ákveðið en ljóst að þarna mun verða uppbygging. Slík byggð mun tengjast uppbyggingu borgarlínunnar. Hún segir umræðu dagsins snúast um skipulagið við Stekkjarbakka. Þar verði gert ráð fyrir grænu svæði í heildina. Í skipulaginu sé m.a. gert ráð fyrir aðstöðu fyrir Garðyrkjufélagið og einnig gróðurhvelfingu Bio Dam. „Sú afstaða er alveg skýr að við viljum halda þessu svæði grænu og tengdu náttúrunni. Búið er að falla frá ýmsum hugmyndum sem komið hafa fram um þetta svæði. Ein var að byggja slökkvistöð og önnur að leggja hraðbraut ofan Elliðaárdalsins. Þetta hefur verið tekið út af borðinu og ekki talið samrýmast hugmyndum um grænt og náttúruvænt svæði. Í stað þess hafa komið fram hugmyndir um starfsemi sem tengjast grænni hugsun. „Það skiptir miklu máli að allir geti notað þetta svæði og þaðan verði bæði göngustígar og hjólareiðabrautir niður í dalinn. Að frá Stekkjarbakkanum verði inngangur í Elliðaárdalinn Breiðholtsmegin. Og þá er ég að tala um aðgang fyrir allan almenning en ekki aðeins hraust útivistarfólk. Þetta vantar því miður og úr þessu verður að bæta. En aðalmálið er að Reykjavík er mun skemmtilegri borg en þegar ég var að alast upp og Breiðholtið er stórkostlegur og fjölbreyttur borgarhluti sem mikilvægt er að hlúa að og efla.“