Umferðabreytingar við Ánanaust

Á myndin sjást umferðalínur vestur Eiðsgranda og út í Örfirisey.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykja­víkur­borgar hefur sam­þykkt að veita heimild fyrir áfram­­haldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðs­gagna, í samvinnu við Vegagerðina við Ánanaust og Eiðsgranda. Með þessu er ætlunin að bæta umferðar­öryggi meðal annars með nýjum gönguljósum og endur­­bótum á gönguþverun. 

Ný gönguljós eiga að koma á Eiðsgranda, vestan við innkeyrslu að Hringbraut 121 eða JL Húsið. Fækka á akreinum vestur Eiðs­granda og fjarlægja núverandi vinstribeygjuvasa en í staðinn verður núverandi vinstri akrein gerð að beygjuakrein. Tillagan gerir einnig ráð fyrir að ekki verði hægt að taka vinstri beygju frá Hringbraut 121 inn á Eiðsgranda. Þá á að setja upp miðeyjur á milli akreina í og úr hringtorginu. Þeim er ætlað að veita gangandi veg­farendum á leið yfir götuna skjól en tvær akreinar eru í hvora átt á Ánanaustum svo erfitt getur verið að átta sig á eða hafa yfirsýn yfir að­vífandi umferð. Með þessu er einnig verið að bæta aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda en við sjóinn er vinsæl göngu- og hjólaleið.

Eiðisgrandinn er önnur af tveimur aðalumferðaæðum til og frá Seltjarnarnesi. Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri segir að ekki hafi verið rætt við bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar í tengslum við framkvæmdirnar enn sem komið er. Hann telur nauðsynlegt að vera með í ráðum í svona veigamiklum breytingum og kveðst muni koma athugasemdum á framfæri varðandi þetta.

You may also like...