Skipulagsslys yfirvofandi í Vesturbænum

Kjartan Magnússon 1

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi.

„Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, VG og Pírata sést ekki fyrir í þéttingartrúboði sínu og neitar að horfast í augu við það að allt að fjórðungsfjölgun íbúa í Vesturbænum veldur stórauknu álagi á innviði hverfisins, skóla, umferðaræðar og íþróttamannvirki.

KR-svæðið dugar ekki til að sinna núverandi þörf fyrir íþróttastarf barna og unglinga í Vesturbænum, hvað þá þeirri fjölgun sem fyrirsjáanleg er vegna mikillar þéttingar á næstu árum. Það er því mikil skammsýni hjá núverandi borgarstjórnarmeirihluta að úthluta síðustu lóðinni í Vesturbænum, sem gæti hentað fyrir stækkun KR-svæðisins, undir fjölbýlishús.“ Þetta segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem tók málið upp á fundi borgarstjórnar í desember og varaði við yfirvofandi slysi á skipulagi hverfisins. Á borgarstjórnarfundinum vísaði Kjartan til þess að á fundi íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur var samþykkt bókun um að taka þyrfti tillit til hagsmuna KR þegar umræddri lóð yrði ráðstafað. ,,Mikilvægt er að ekki verði þrengt svo að félaginu að það geti ekki annað eftirspurn á komandi árum og áratugum,“ segir m.a. í bókuninni sem fulltrúar allra flokka samþykktu.

Þéttingartrúboð eða þjónusta við íbúa

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að Keilugrandi 1 (SÍF-reiturinn) verði skilgreind sem íþrótta- og útivistarsvæði og að hún verði öll nýtt í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í Vesturbænum í samvinnu við KR. Jafnframt að viðræður hefjist sem fyrst um samstarf KR og borgarinnar um skipulag og betrumbætur á núverandi svæði félagsins við Frostaskjól í samræmi við óskir KR. Kjartan segir að ýmsir kostir fylgi þéttingu byggðar en telur jafnframt mikilvægt að ekki sé þétt af svo miklu kappi að menn tryggi ekki aðstöðu fyrir skólastarf, íþróttastarf og aðra innviði sem séu nauðsynlegir til að tryggja þjónustu í viðkomandi hverfi. ,,Víða er unnið að þéttingarverkefnum í Vesturbænum, t.d. á Lýsislóðinni, Héðinsreit, Háskólasvæðinu, Vesturbugt, við Hringbraut, Ægisíðu og víðar. KR hefur um árabil óskað eftir auknu athafnasvæði vegna mikillar fjölgunar í barna- og unglingastarfi félagsins auk þess sem búist er við enn meiri fjölgun á næstu árum vegna þessarar þéttingar. SÍF-reiturinn hefur skiljanlega verið efst á blaði hjá KR enda ákjósanlegasti kosturinn fyrir félagið af þeim örfáu lóðum sem eftir eru óbyggðar í hverfinu og borgin hefur eignarhald á, bæði vegna stærðar og nálægðar við KR-svæðið,“ segir Kjartan.

Óskir íbúa hundsaðar

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt til að orðið verði við þessum óskum KR með því að það fái umrædda lóð til afnota og þegar Kjartan var formaður íþrótta- og tómstundaráðs á þar síðasta kjörtímabili, samþykkti ráðið viljayfirlýsingu þar að lútandi. ,,Meirihluti Samfylkingar og Bjartrar framtíðar hundsaði því miður þessa yfirlýsingu og lætur annarlega hagsmuni ráða þegar kemur að úthlutun þessarar lóðar frekar en að efla íþrótta- og æskulýðsstarf í Vesturbænum. Þá er rétt að minna á að íbúar í Grandahverfi hafa ítrekað mótmælt því að byggt verði upp með þeim hætti á lóðinni sem meirihluti borgarstjórnar hefur áform um. Eftir að KR fékk neitunina hafa forráðamenn félagsins auðvitað gert sitt besta til að vinna úr þeirri stöðu og vinna nú að mótun nýrra tillagna gagnvart borginni varðandi aðstöðumál þess. Á fundi borgarstjórnar skoruðum við sjálfstæðismenn á borgarstjórnarmeirihlutann að endurskoða afstöðu sína í málinu og bentum á að enn er tími til að ráðstafa lóðinni í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Vesturbænum,“ segir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.

KR-sveadid

You may also like...