Byggingarsaga úr Breiðholtinu

Hrefna og Gissur 1

Hrefna Ásmundsdóttir og Gissur Þorvaldsson. Myndin er tekin í nýju en óopnuðu kaffihúsi í Gerðuberg þar sem viðtalið var tekið. Þau eru því líklega fyrstu gestir þar rétt eins og fyrstu íbúarnir í Seljahverfinu á sínum tíma.

Að þessu sinni fer Breiðholtsblaðið um fjóra áratugi aftur í tímann. Á fyrstu ár áttunda áratugarins. Bakkarnir eru nánast byggðir og Fella- og Hólahverfin eru óðum að taka á sig mynd. Vestan Breiðholtsbrautarinnar eru enn móar og mýrar en búið að ákveða að þar rísi nýr Breiðholtshluti nokkuð öðruvísi en hin hverfin tvö Breiðholt 1 og Breiðholt 3.

Í þessu nýja hverfi sem fékk vinnuheitið Breiðholt 2 en hefur lengst af verið nefnt Seljahverfi er meira um raðhúsabyggð og sérbýli en í hinum byggðunum tveimur og skipulagið einkenndist nokkuð af þéttari bygg en áður hafði sést í sérbýlahverfum í borginni. Fyrsta fólkið til þess að reisa sér hús í Seljahverfi voru hjónin Hrefna Ásmundsdóttir og Gissur Þorvaldsson. Þau tóku fyrstu skóflustunguna að húsi sínu og raunar þessu nýja hverfi á haust-dögum 1973. Þau spjalla við Breiðholtsblaðið að þessu sinni og rifja upp þegar friðsælir móar með fuglasöng á vorin urðu að einni af eftirsóttari byggðum borgarinnar.

„Já – við erum frumbyggjar í Seljahverfinu. Tókum fyrstu skólfustunguna að húsinu okkar í september 1973 og ætlunin var að gera það fokhelt eftir áramótin 1974. En þá kom nokkuð langur frostakafli sem stóð í einar sex vikur og ekkert var hægt að steypa. Því fóru öll verk í bið og neðri hæðin stóð upp úr ferðanum. Við byrjuðum aftur strax og þiðnaði upp úr miðjum mars og efri hæðin kom fljótlega. Vegna tafarinnar urðum við að vinna nokkuð rösklega að þessu en tókst þó að flytja inn í húsið í júlí tæpu ári eftir að fyrsta skóflan fór ofan í moldina. Auðvitað fluttum við inn í allt hrátt. Varla komin eldhúsinnrétting og tæpast bað. En við létum okkur hafa það. Það voru ekki mikla peninga að hafa á þessum tíma og ef maður fór í banka til þess að fá lánað fé varð alltaf að biðja um helmingi hærri upphæð heldur en komast átti af með því bankarnir deildu alltaf í með tveimur. Lánsupphæðir voru jafnan skornar niður um helming. Maður reyndi því að leggja einhverja peninga inn eins víða og maður gat til að sýna viðskipti og fór svo til að biðja um lán.“

Dagamunur á verðlagi

„Á þessum árum var mikil verðbólga sem átti þó eftir að vaxa enn meira. Maður varð að reyna að kaupa allt jafn óðum vegna þess að nánast var dagamunur á verðlagi og gilti það um byggingaefni eins og annað. Þegar ný sending kom í verslanir voru vörurnar alltaf dýrari vegna verðbólgunnar. Það þýddi heldur ekkert að leggja fyrir og eiga peninga í banka. Þeir brunnu jafn hratt upp og vöruverðið hljóp í hina áttina. En verðbólgan hafði tvær hliðar á þessum tíma. Þetta var fyrir daga verðtryggingarinnar og virði lánanna lækkaði stöðugt. Maður greiddi aldrei nema hluta þeirra til baka. Það er til efs að yngra fólk skylji almenni-lega hvernig þetta var. Það þarf að hafa reynt þetta til þess að átta sig á hvernig verðbólgan virkaði.“

Sérstakt að standa í miðjum mó

„Við komum úr Hlíðunum. Úr Blönduhlíðinni. Bjuggum þar í kjallaraíbúð og komin með fjögur börn. Fjölskyldan var farin að kalla eftir meira plássi. Því var ekkert annað en þrengsli sem ýttu okkur út í að byggja. Lengi hafði verið erfitt að fá lóðir í Reykjavík. Borgin hafði ekki annað eftirspurn eftir byggingalóðum en með tilkomu Breiðholtsins breyttist það verulega. Fjöldi lóða varð til á skömmum tíma og líklega hefur aldrei orðið önnur eins breyting enda var bygging Breiðholtsins hugsuð sem átak til þess að draga úr húsnæðisvanda í borginni. Við komum úr grónu umhverfi í Hlíðunum og því var dálítið sérstakt að standa í miðjum mó með skóflu í hendi og ætla að reisa sér heimili.“

Hitaveitan lak og lak

„Húsið okkar stendur við Akrasel sem er fyrsta einbýlishúsagatan sem byggð var í Seljunum. Þegar við komum var engin byggð þar nema Alaska niður undir Suðurmjóddinni. Borgin var reyndar búin að láta ganga frá götum og búið að leggja rafstrengi. Kalda vatnið var komið þegar við byrjuðum að byggja en það urðu vandræði með hitaveituna. Rörin fyrir heitavatnið voru soðin svo illa saman að vatnið lak út um allt. Það varð að grafa hver samskeitin upp eftir önnur og sjóða upp á nýtt. Þetta var fyrir tíma Orkuveitunnar og hver veita gróf sínar holur og skurði. Þær gátu ekki unnið saman og Síminn kom svo síðast eða vorið eftir.“

Eins og útilegumenn í efra

„Við vorum næstum eins og útilegumenn þarna efra og eina öryggið sem við höfðum var að oft stóð lögreglubíll niður undir Alaska eða að þeir voru að keyra þarna um. Því hefði verið hægt að veifa í þá ef eitthvað hefði komið fyrir og það var ákveðið öryggi að vita af þeim. Annars var minna um þjófnaði en síðar varð en við urðum þó eitt sinn fyrir barðinu á slíku. Keypt hafði verið rafmagnssög af ungum manni eftir auglýsingu í blaði. Ekkert óeðlilegt við það en eftir á að hyggja kom í hugann að maðurinn hefði ef til vill ekki verið nægilega trúverðugur. Hann var ræðinn og spurði hvar við værum að byggja. Við töldum það ekkert leyndarmál og ekkert óeðlilegt við að nefna staðinn sem við hefðum ekki átt að gera vegna þess sem síðan gerðist. Daginn eftir var búið að sprengja bílkúrinn upp og þegar betur var að gáð var sögin góða horfin. Ekkert annað hafði verið tekið. Til dæmis var búið að kaupa allt efnið til pípulagna í húsið. Öll rör, hné, té, fittinga og annað sem því tilheyrir en engu af því var rótað. Maðurinn hafði greinilega farið beint upp eftir og náð í sögina trúlega til þess að selja hana aftur. Kannski hefur hann náð að selja hana nokkrum sinnum en við sáum þennan grip aldrei aftur.“

Negldum fyrir gluggana

„Við fluttum inn í júlí þótt enn væri mikið eftir að vinna í húsinu. Þetta var mjög algengt á þessum tíma. Þetta var svona hellisbúskapur í byrjun en smám saman tókst að ljúka framkvæmdunum. Þegar við vorum að byggja var sú kvöð á að ekki mátti nýta þann hluta neðrihæða þar sem grafa þurfti út. Húsbyggjendum var uppálagt að fylla þann hluta grunnsins aftur. Menn fóru alla vega í kringum þetta. Við föluðumst eftir því að fá að byggja kjallarann en einhver karl hjá byggingafulltrúa sem virtist ráða öllu var ekki til viðræðu um það. Bara að fylla þetta aftur upp. Ekkert annað gat komið til greina. Við vorum með glugga á neðri hæðinni en negldum rækilega fyrir þá sem voru á þeim hluta sem ekki mátti vera til – til þess að fela þá fyrir eftirlitsmanni borgarinnar. Þetta voru fáránleg vinnubrögð af hálfu byggingarfulltrúa. Að grafa fyrst út og fylla rýmið síðan upp aftur. Maður skyldi þetta ekki. Við fylltum aldei neitt upp og fengum tvö herbergi baka til á neðri hæðinni sem kom sér vel fyrir krakkana þegar þau stækkuðu. Eins var með innganginn. Við vildum í upphafi hafa útitröppur og innganginn inn á efri hæðina. En það mátti nú aldeilis ekki. Inngangurinn varð að vera á jarðhæðina og tröppurnar að vera inni.“

Karlinn var ískaldur upp á þaki

„Eitt og annað gerðist þarna eftirminnilegt. Eitt af því var þegar hjálparmaður byggingameistarans var að vinna upp þaki og vindhviða fleykti stiganum sem hann hafði notað til þess að komast upp um koll. Karlinn var einn að vinna efra og engin leið fyrir hann að komast niður. Hann stóð einn á plötunni hálf ósjálfbjarga og greip til þess ráðs að veifa vegfarendum. Þeir tóku honum vel. Veifuðu á móti og hafa eflaust hugsað um hversu glaðlegur maður væri að vinna þarna á þakinu við Akraselið. En engum kom til hugar að kanna hvort hann ætti eitthvert erindi við vegfarendurna og allra síst að hann væri strandaglópur á þakinu. Hann var að drepast úr kulda og hefur eflaust verið farinn að berja sér til hita en engum fannst neitt athugavert við háttalag hans.“

Kennarinn tók barnið upp í

„Þegar við fluttum inn átti næstelsta barnið að byrja í skóla. Og þá kom vandamál. Enginn skóli var í Seljahverfi og heldur ekkert annað barn í hverfinu. Breiðholtsskóli og Fellaskóli voru komnir og rætt var um í hvorn skólann barni gæti farið. Að endingu varð Fellaskóli fyrir valinu. En þá kom annar vandi upp. Breiðholtsbrautin sem liggur upp í gegnum Breiðholtið og skilur Seljahverfið frá öðrum hlutum þess var komin og talsverð umferð var um hana. Ekkert vit var því í að senda sex ára gamalt barn gangandi úr Akraselinu upp í Fellaskóla. Við voru aðeins með einn bíl og því ekki til umræðu að keyra barnið. Málið leystist þó óvænt en farsællega. Bekkjarkennarinn átti heima niður í Safamýri og ók uppeftir á morgnana. Því var hægt að hlaupa út fyrir húshornið með barnið og hún tók barnið með sér í bílinn. Vinkona okkar sem bjó í stóru blokkinni efra átti barn í sama bekk og tók hann með sér heim og við sóttum hann svo uppeftir eftir vinnu. Veturinn eftir voru skúrarnir við Ölduselið svo komnir sem áttu eftir að verða að Ölduselsskóla og þá var þetta vandamál leyst.“

Hefðum átt að setja upp byggingavörubúð

„En svo fór að fjölga í kringum okkur. Akraselið byggðist nokkuð fljótt. Fyrst um sinn voru þó ekkert nema grunnar. Flestir voru að berjast sjálfir í að byggja. Fólk vann jafnvel dag og nótt en strax á næst ári var farið að flytja inn. Fjórum til fimm árum síðar var flutt í flest húsin við götuna. Við höfum stundum rætt svona að gamni að það hefði geta verið sniðugt að setja upp smá byggingavöruverslun á meðan þetta gekk yfir. Þá sem voru að vinna vanhagaði oft um eitt og annað ekki síst smávöruna. Oft voru líka menn að vinna þarna sem voru keyrðir upp eftir á morgnana og áttu bara að vinna yfir daginn. Höfðu ekki tök á að skreppa niður í bæ eftir smáhlutum.“

Og svo kom gróðurinn upp

„Fyrst í stað voru bara móar að frátöldum moldarhaugunum sem spruttu upp úr húsgrunnunum. Það var líka mikið um hagamýs. Þær voru spakar enda óvanar ófriði af manna völdum. Maður vaknaði við fuglasöng á morgnana. Að því leytinu var þetta eins og að vera út í sveit. Svo fóru menn að huga að umhverfinu – lóðunum í kringum húsin því ekki gátu moldarhaugarnir staðið um aldur og æfi. Ekki hafði verið spáð vel fyrir gróðursæld á þessum slóðum. Byggðin var talin liggja of hátt yfir sjávarmáli til þess að trjágróður myndi vaxa og dafna. Menn lögðu nú misjafnan trúnað á þessar hrakspár og fóru og jafna lóðirnar og planta. Við tókum höndum saman við nágranna okkar og létum skipuleggja lóðirnar í sameiningu. Aldrei voru reist nein grindverk eða girðingar á lóðamörkum þannig að þær urðu eins og samstæð heild. Þetta kom sér ágætlega fyrir krakkana sem voru flest á líkum aldri og léku sér meira og minna saman. Við urðum fljótt vör við mikinn hug í fólki að ganga vel frá umhverfinu og sumir létu ýmis verk innan dyra bíða á meðan verið var að breyta moldarhaugunum í grösuga garða. Menn vildu kollvarpa þeim ranghugmyndum sem haldið var að fólki um gróðursældina. Hverfið tók því fljótt á sig grænan gróðurlit og tréin að teygja sig upp úr moldinni öfugt við það sem úrtöluraddirnar höfðu spáð. Akraselið fékk meira að segja eitt sinn verðlaun fyrir fallega og vel gjörða garða.“

Engin verslun til að byrja með

„Auðvita var enginn verslun í Seljahverfi til að byrja með og því þurfti að sækja allar nauðsynjar um lengri veg. Engin verslun kom fyrir en Þín verslun opnaði við Seljabrautina og í raun er hún enn þann dag í dag eina alla vega stóra matvöruverslunin í hverfinu. Það var kominn verslanakjarni í Bökkunum og Straumnes kom síðan í Efra Breiðholtið. Fyrsti vísirinn að Mjóddinni kom að okkur minnir 1976 en sá verslanakjarni átti sér langa þróunarsögu. Við sóttum ásamt kunningjafóllki um lóð í Mjóddinni þegar hún var að byggjast og fengum. Eftir það hafði Baldvin Tryggvason sem var sparisjóðsstjóiri SPRON samband við okkur því til stóð að SPRON opnaði útibú eða starfstöð fyrir Breiðhyltinga enda í samkeppni við bankana sem voru að koma sér þar fyrir. Hann hafði áhuga á þessari lóð og samningar urðu um að SPRON tæki að sér að byggja húsið. Við fengum þarna tvær fokheldar hæðir sem við seldum síðan – eflaust fyrir of lágt verð.“

Örskammt frá Seljahverfinu

„Árið 1996 ákváðum við að selja húsið við Akraselið. Þá voru börnin komin upp og farin að stofna sín eigin heimili. Húsið var byggt til þess að losa stóra fjölskyldu úr þrengslum og auðvitað var það of stórt þegar við vorum tvö eftir. Við vorum ekki búin að finna okkur annað húsnæði þegar við seldum og vildum hafa nokkurn tíma til þess. Við bjuggum í um eitt ár í íbúð við Ugluhóla sem sonur okkar sem er byggingameistari hafi tekið upp í aðra sölu og á meðan vorum við að litast um. Endirinn var sá að við fórum aftur byggingastigið ef svo má segja því við keyptum fokhelt hús við Kópalindina. Það má segja að við höfum byrjað aftur á sama reit þótt það væri ekki alveg ofan í grunninum. Við fluttum þangað 1997 en getum ekki sagt að við höfum verið frumbyggjar. Þarna voru fleiri hús að rísa á sama tíma en við horfðum engu að síður á þá byggð vaxa upp. Hvað réð því við fórum yfir í Kópavoginn er góð spurning. Húsið hentaði okkur ágætlega en svo er þetta örskammt frá Seljahverfinu. Varla hægt að segja að um tvær byggðir sé að ræða þótt þær séu ekki í sama bæjarfélaginu. Það er stutt yfir. Við getum hitt kunningjafólk okkar og notað sömu gönguleiðirnar og við vorum vön að fara,“ segja þau Hrefna og Gissur að lokum.

 

Vidtal

Gissur ásamt tveimur dætrum þeirra Hrefnu með spaðann að taka fyrstu skóflustunguna við Akraselið í september 1973.

 

You may also like...