Kaffikarlar í Seltjarnarneskirkju fóru í Skagafjörð

Í Mjólkursamlaginu fór hver og einn í sérstakan hlífðarslopp, setti hárnet á höfuðið og skóhlífar yfir skó sína. Þar er hreinlætið sett á oddinn.
Frá vinstri séð: Ólafur Egilsson, Sverrir J.  Hannesson, Gunnar H. Pálsson, Guðmundur Einarsson, Viðar Hjartarson, Þráinn E.  Viggósson, Gunnar Þór Alfreðsson, Ægir G. Ólason, Þorbjörn E. Jónsson, Birgir Vigfússon, sr. Bjarni Þór Bjarnason, Jón Rafn Sigurjónsson, Guðmar Marelsson, Halldór Pedersen, Grétar G. Guðmundsson, Ágúst Ragnarsson, Valgeir Gestsson og Jón Þór Jósepsson, framleiðslustjóri Mjólkursamlagsins.

Snemma dags, 25. júní sl. kl. 07.15, lögðu 17 kaffikarlar af stað í Skagarfjarðarferð frá Seltjarnarneskirkju. Var þetta árleg dagsferð kaffiklúbbsins, karla 67 ára og eldri, sem hittist tvisvar sinnum í viku í safnaðarheimili Seltjarnarneskirkju

Hópurinn fór norður á tveimur rútukálfum. Ekið var á Sauðárkrók um Þverárfjall. Sigurjón Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, tók á móti hópnum í höfuðstöðvum Kaupfélagsins að Ártorgi 1 á Sauðárkróki. Sigurjón flutti fræðandi og skemmtilegt erindi í máli og myndum um starfsemi Kaupfélagsins. Kom það mönnum á óvart hversu fjölbreytileg starfsemi Kaupfélagsins er á svo mörgum sviðum. Kaupfélagið er framúrskarandi fyrirtæki sem hefur í kringum eitt þúsund manns í vinnu, bæði á Sauðárkróki og víðar á landinu.

Skagfirskir gæðaostar

Eftir hið frábæra erindi Sigurjóns leiddi hann hópinn yfir í glæsilegt hús Mjólkursamlags KS við Skagfirðingabraut. Þar fór hver og einn í sérstakan hlífðarslopp, setti hárnet á höfuðið og skóhlífar yfir skó sína. Í Mjólkursamlaginu er hreinlætið sett á oddinn. Magnús Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri og Jón Þór Jósepsson, framleiðslustjóri, sögðu frá starfsemi Mjólkusamlagsins og þeirri miklu ostagerð sem fer þar fram. Þeir félagarnir leiddu hópinn um framleiðslusali og gáfu honum að smakka á nýjum ostategundum sem komu á markaðinn nýlega sem heita Goðdalir:  Grettir, Reykir og Feykir. Hópurinn sá einn starfsmanninn bera sérstaka ostamálningu á ostana. En það þarf að bera á ostana átta umferðir af sérstakri ostamálningu sem gerir það að verkum að vatnsinnihald minnkar og bragðið verður sterkara. Einnig fékk hópurinn að smakka Mozzarella ost. Allir eru þessir ostar sannkallaðir skagfirskir gæðaostar. 

Tíu þúsund tonn af sandi verða að steinull

Eftir heimsóknina í Mjólkursamlagið fór hópur­inn í Steinullarverksmiðjuna sem er að Skarðseyri 5. Stefán Logi Haraldsson, framkvæmdastjóri, tók á móti hópnum. Hann greindi frá starfsemi Steinullarverksmiðjunnar og sögu hennar. Erindi hans var áhugavert og fræðandi. Þennan dag var verk­smiðjan ekki í gangi. Stefán Logi sagði að uppistaða hráefnanna við framleiðsluna væri innlend og nánast innan seilingar. Það væri fjörusandurinn sem tekinn væri við vesturós Héraðsvatna. Þar tæki verksmiðjan um 10 þúsund tonn af sandi árlega, og hefði gert frá upphafi. Sjórinn annaðist um sjálfvirka áfyllingu námunnar svo að þess sjáist engin ummerki frá degi til dags. 

Sauðárkrókskirkja vinakirkja Seltjarnarneskirkju

Eftir heimsóknina í Steinullar­verksmiðjuna hélt hópurinn í súpu og brauð á Kaffi Króki. Þangað kom sr. Sigríður Gunnarsdóttir, sóknarprestur á Sauðárkróki, og heilsaði upp á hópinn. Sr. Sigríður gekk með hópnum til Sauðárkrókskirkju. Þar spjallaði hún við viðstadda og sagði frá starfi kirkjunnar á sinn ljúfa og elskulega hátt. Þess má geta, að Sauðárkrókskirkja er vinakirkja Seltjarnarneskirkju. Hefur svo verið frá árinu 2013. 

Afmælissöngur og veisla á Löngumýri

Eftir heimsóknina í Sauðárkrókskirkju var ekið fram á Löngumýri. Gunnar Rögnvaldsson, forstöðumaður á Löngumýri, tók á móti hópnum. Gengu menn til stofu og sungu fyrir Guðmund Einarsson, afmælissönginn, og lyftu glösum í tilefni dagsins. Guðmundur er maður á besta aldri og jafnframt formaður sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju. Gunnar lék á alls oddi eins og honum er einum lagið. Hann söng lag og texta sem hann gerði ásamt Sigvalda Helga syni sínum. Gunnar hefur unnið stórkostlegt starf á Löngumýri og er afar kraftmikill og fjölhæfur maður. Hópurinn snæddi lambalæri á Löngumýri ásamt öllu tilheyrandi sem Lísa á Varmalæk hafði matbúið ásamt samstarfskonum sínum þeim Dagnýju Erlu Gunnarsdóttur og Sigurlaugu Guðmundsdóttur. Maturinn smakkaðist einstaklega vel og þær stöllur höfðu einnig útbúið gómsætan eftirrétt sem menn skoluðu niður með rjúkandi heitu kaffi eða tei. 

Ferðin góða í Skagafjörð stóð yfir í tæplega sextán tíma, veðrið var alveg ljómandi, sól og blíða norðan heiða. Hópurinn kom glaður og ánægður á Nesið eftir frábæran dag í Skagafirði.

You may also like...