Við þurfum að breyta hugarfarinu
– segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir mannréttindalögfræðingur hefur látið til sín taka á Alþingi eftir að hún settist á þig fyrir Pírata 2016. Sunna eins og hún er oft kölluð af vinum og vandamönnum er einarður talsmaður mannréttinda hvernig sem á þau er litið og hefur talað og barist fyrir þeim á þingi sem annars staðar. Hún er einnig fjölmenningarsinni. Telur að við eigum að taka vel á móti fólki sem leitar hingað í von um betri lífskjör og auðveldara líf. Hún kveðst hafa fengið mannréttindaáhugann ung að árum og hann hafi meðal annars orðið til þess að hún leitaði sér náms í lögum í Hollandi en ekki í lögfræðideild Háskóla Íslands. Hún hefur starfað á þessum vettvangi bæði hér heima og erlendis áður en hún gerðist þingmaður. Vesturbæjarblaðið settist niður henni á Café Rósenberg á Vesturgötu 3 á dögunum.
„Ég er alin upp á ýmsum stöðum,“ segir Sunna þegar hún var innt eftir því hvaðan hún kæmi. „Móðir mín er Sigrún Guðmundsdóttir umhverfis og auðlindafræðingur og faðir minn er Ævar Örn Jósepsson fréttamaður og rithöfundur. Foreldrar mínir fluttu til Þýskalands þegar ég var ung að aldri. Við bjuggum í Freiburg þangað til ég var sjö ára að við komum heim. Skólaganga mín hófst því þar. Ég byrjaði í Anne Frank skóla í Þýskalandi. Þetta varð til þess að ég varð talandi á þýsku sem barn. Eftir heimkomuna var ég í nokkrum skólum. Þar á meðal Valdorfsskóla. Leiðin lá síðan í framhaldsskóla en eftir það valdi ég mér aðra leið en flestir fóru.“ Sunna segist hafa verið búin að fá áhuga á mannréttindum og viljað velja sér námsefni sem félli að áhuga hennar. Ég hafði áhuga á mannréttindalögfræði en sú grein er ekki kennd við Háskóla Íslands. Hin hefðbundna lögfræði höfðaði ekki til mín. Mig langaði út í heim og ég vildi líka fá tækifæri til að undirbúa mig til þess að starfa að mannréttindum og efla þau. Ég hélt því til Þýskalands til þess að nema þýska mannréttindalögfræði sem grunn. Námið féll þó ekki allskosta að því sem ég hafði átt von á svo ég ákvað að breyta til. Að leita fyrir mér annars staðar. Ég fór heim til að byrja með. Lenti þá í miðri búsáhaldabyltingunni og upplifði það andrúmsloft sem henni fylgdi.“ Sunna lét þó ekki staðar munið við nám á þessum tíma til þess að snúa sér að stjórnmálum. „Ég var búin að ákveða að ljúka námi svo ég hélt utan á ný. Haustið 2009 fór ég til Hollands þaðan sem ég útskrifaðist með mastersgráðu í mannréttindum og alþjóðlegum refsirétti frá Háskólanum í Utrecht árið 2013. Að því búnu var ég við starfsnám hjá Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum fyrir fyrrum Júgóslavíu.”
Fór að starfa með Pírötum
Svo fórstu að starfa með pírötum. „Ég fór að starfa með Pírötum þegar ég kom heim frá námi og störfum erlendis. Fór í prófkjör 2016 og var í öðru sæti á lista Pírata í suðvesturkjördæmi. Ég var komin á þing og átti þannig einhvern þátt í að sprengja ríkisstjórnina sem sat haustið 2017. Ég gaf aftur kost á mér og var þá oddviti listans í Reykjavík suður. Þessar kosningar báru að með skömmum fyrirvara og við höfðum lítinn tíma til þess að undirbúa okkur. Við fengum aðeins um sex vikur sem er skammur tími fyrir hreyfingu sem ekki var með smurða kosningavél til að ræsa með skömmum fyrirvara eins og gömlu flokkarnir. Píratar á Íslandi voru stofnaðir þann 24. nóvember 2012. Þeir byggja á hugmyndafræði Piratpartiet frá Svíþjóð sem Richard Falkvinge setti á fót í janúar 2006 vegna aðkallandi þarfar á lagaramma utan um höfundarrétt á Internetinu. Nú starfa Píratahreyfingar í meira en sextíu löndum. Áherslur eru mismunandi eftir þjóðum en ákall Pírata um gegnsæi í stjórnsýslu og verndun og eflingu borgaralegra réttinda er undirstaða Pírata um allan heim.”
Lærdómsríkur tími
Sunna segir þetta hafa verið lærdómsríkan tíma. „Útkoman varð sú að það er ekki hægt að afneita okkur lengur eða halda því fram að ekki sé takandi mark á Pírötum eða því sem við erum að segja og gera eins og tilhneiging hefur verið hjá hinum stjórnmálaöflunum. Við höfum verið gagnrýnin og vorum stundum sökuð um að stunda óvönduð vinnubrögð. Við erum tekin alvarlega innan þingsins og út á við erum við töluvert stærri hópur en var í upphafi. Stefnumál okkar hafa ekki breyst mikið. Við erum með sömu áherslur og lagt var upp með og erum komin með breiðan og þéttan hóp í framlínuna þar sem allir fá að tjá sig og njóta sinna hæfileika. Þessi nálgun okkar dregur fram fjölbreytta mannkosti Pírata. Við erum ekki alin upp í rótgrónum stofnunum til að verða hluti af ákveðnu kerfi eins og hefur verið áberandi í stjórnmálum hér á landi.“
Feldu neysluskammtafrumvarpið en eru þó sammála því
Talið berst að mannréttindamálum. Sunna segir að hér á landi vanti virðingu fyrir réttarríkinu og almennum mannréttindum borgaranna. „Það er ríkt í okkur að ganga að því gefnu að hlutirnir séu í lagi en við ræktum ekki garðinn okkar nægilega vel. Margir hópar búa ekki við mannréttindi. Þar get ég nefnt fólk sem stríðir við geðræna sjúkdóma. Það vantar fjármuni til að sinna þeim málaflokki betur en gert er. Þá vil ég nefna fólk sem ánetjast hefur notkun fíkniefna. Afstaða stjórnarflokkanna kom best fram í því að fella frumvarp okkar Pírata um að afglæpavæða neysluskammta fíkniefna þrátt fyrir að hafa lýst annarri afstöðu yfir. Stjórnarmeirihlutinn hefur dregið fram ýmsar afsakanir fyrir því að ekki hafi verið hægt að samþykkja frumvarpið í núverandi mynd. þetta á sérstaklega við um þingmenn og ráðherra VG og Sjálfstæðisflokksins, sem báðir hafa afglæpavæðingu á stefnuskrá sinni. Nefna þau helst málinu til foráttu að vantað hafi skilgreiningu á neysluskömmtum, að refsiréttarnefnd hafi ekki gefið umsögn um málið, að málið hafi ekki verið unnið í nægjanlega ríku samráði nú eða að ekki væri gert ráð fyrir eftirfylgni með afleiðingum þess að samþykkja frumvarpið. Allt er þetta ýmist rangur eða mjög villandi málflutningur hjá stjórnarmeirihluta í afneitun. Síðast en ekki síst vil ég nefna fólk sem flutt hefur til landsins. Einkum fólk sem komið hefur hingað til að taka þátt í atvinnulífinu um tíma. Þessir hópar njóta ekki mannréttinda á borð við aðra í þjóðfélaginu. Þeim er mismunað vegna þeirrar stöðu sem þeir eru í. Það er beinlínis komið illa fram við verkafólk af erlendum uppruna. Við erum nýbúin að horfa upp á brunann á Bræðraborgarstíg. Hann hefur vonandi opnað augu okkar fyrir þeirri stöðu sem margir útlendingar eru í. Við þurfum að breyta hugarfarinu. Það er mín skoðun að aftengja verði dómsmálaráðuneytið frá Sjálfsstæðisflokknum. Sá flokkur hefur stýrt því ráðuneyti með litlum undantekningum í gegnum tíðina og hefur sýnt viljaleysi í verki til þess að bæta stöðu innflytjenda að ég tali ekki um stöðu flóttafólks sem oft á tíðum nýtur ekki neinna mannréttinda. Í frumvarpi að útlendingalögum er fremur stigið skref til baka en fram á við þegar um mannréttindi er að ræða.“
Pólitískir fangar í Rússlandi
Nú hefur Evrópuráðsþingið falið Sunnu að vinna skýrslu og þingsályktun um málefni pólitískra fanga í Rússlandi. Mannréttindasamtök telja að þar í landi séu um þrjú hundruð manns í haldi vegna skoðana sinna. Sunna segir að Pólitískur fangi teljist sá sem sé fangelsaður fyrir að hafa nýtt sér þau réttindi sem mannréttindasáttmáli Evrópu kveður á um, samkvæmt skilgreiningu Evrópuráðsins. Þau geti til dæmis tengst tjáningarfrelsi eða frelsi til að safnast saman. „Þegar yfirvöld brjóta á réttindum fólks fyrir það að, til dæmis segja hluti sem að valdhöfum mislíkar, að refsa fólki fyrir að tjá sig á hátt sem að valdhöfum mislíkar, að þá er strax komin upp grunsemd um hvort um pólitískan fanga sé að ræða, það er að segja ef viðkomandi er settur í fangelsi fyrir skoðanir sínar.” Sunna hyggst ræða við ýmsa sérfræðinga í málaflokknum þegar hún fer að vinna skýrsluna. Hún hyggst fara til Rússlands í vettvangsferð í haust. Það ráðist þó af því hvernig staðan verði með tilliti til COVID19 faraldursins sem enn er skæður í Rússlandi. Hún segir að skýrslur sem þessar á vegum Evrópuráðsþingsins séu unnar í miklu samstarfi við þau lönd sem eru til umfjöllunar. Ferðin sé því háð samvinnu við rússnesk stjórnvöld