Stolt Breiðholts í áratugi

–  Menningarhúsið Gerðuberg –

Menningarhúsið Gerðuberg.

Margir Breiðhyltingar og aðrir þekkja vel til Menningar-miðstöðvarinnar Gerðubergs. Þegar Gerðuberg var reist og tók til starfa var um nokkra nýjung að ræða bæði hvað starfsemi varðar og einnig að slík stofnun skyldi reist í yngstu byggð borgarinnar fyrir afgangspeninga frá byggingaframkvæmdum. Saga Gerðubergs hófst með því að á árunum 1968 til 1976 lét framkvæmdanefnd um byggingaráætlun reisa um tvö þúsund framkvæmdanefndaríbúðir í Breiðholti. Þegar þeim framkvæmdum var um það bil að ljúka kom í ljós að nokkuð var eftir af framkvæmdafé auk fjármuna vegna afskrifta af tækjum. Ákveðið var að nota þessa fjármuni til að byggja félags- og menningarmiðstöð til hagsbóta fyrir íbúa þessara nýju íbúða. Menningarmiðstöðin Gerðuberg tók til starfa í mars 1983.

Upphaflega var farið af stað með það fé sem eftir stóð af framkvæmdaáætluninni án þess að hugsað hafi verið allt til enda hvort rekstrarlegur grundvöllur væri fyrir starfsemi sem þessari og einnig hver ætti að vera tilgangurinn með svona húsi. Fljótlega eftir að framkvæmdir hófust var óskað eftir því að Reykjavíkurborg kæmi að málinu. Borgaryfirvöld tóku þeirri málaleitan vel og hefur borgin alfarið séð um rekstur og viðhald Gerðubergs allt frá því húsið var tekið í notkun nokkrum árum síðar. Menningarmiðstöðin var nokkuð mörg ár í byggingu. Á meðan velltu menn fyrir sér tilgangi hússins og hvaða starfsemi myndi henta þar. Á þessum tíma voru starfandi íbúasamtök sem kölluð voru Framfarafélag Breiðholts. Framfarafélagið óskaði fljótt eftir því að gert yrði ráð fyrir bókasafni í menningarmiðstöðinni. Vegna hugmynda um bókasafn var húsið stækkað umtalsvert á teikniborðinu áður en nokkuð var farið að steypa. Þetta endaði með því að í staðinn fyrir að verða nokkur hundruð fermetra hús þá reis um þrjú þúsund fermetra bygging við Gerðuberg. Þarna var ákveðin framsýni á ferð því fljótlega kom í ljós að húsið var alls ekki of stórt.

Hús fyrir alla

Gerðuberg er teiknað af Halldóri Guðmundssyni arkitekt. Þegar hann hóf störf við hönnun hússins lá ekki að öllu leyti fyrir hvaða starfsemi yrði í húsinu. Sú forskrift sem byrjað var að vinna eftir þróaðist eftir því hvaða hugmyndir komu fram um starfsemi. Halldór þurfti því að laga sig eftir breytilegum aðstæðum á hönnunartíma og síðar. Elísabet Bjarklind Þórisdóttir fyrsti forstöðumaður Gerðubergs hefur sagt að Halldór hafi verið tilbúinn að koma á móti óskum og kröfum og unnið með stjórnendum hússins við að útfæra þær, jafnvel þótt væri verið að vinna á kostnað arkitektsins sem slíks. Þetta hefur reynst gríðarlega mikilvægt fyrir mótun menningarmiðstöðvarinnar. Hús megi ekki vera svo formfrekt frá hendi hönnuða að litlir eða engir möguleikar verði til að breyta þeim. Þau þurfi að geta þróast með starfseminni sem hlýtur að verða breytileg frá einum tíma til annars. Lifandi starfsemi í lifandi húsi ef svo má að orði komast. Elísabet kvaðst í viðtali við tímaritið Sveitarstjórnarmál hafa hugleitt strax í byrjun þegar hún gekk um rangala þessa stóra húss þar sem smiðir voru að vinna úti um allt að þetta yrði að vera hús sem gæti verið fyrir alla.   

Elísabet Bjarklind Þórisdóttir. Hún tók við tómu húsi. Byggði starfsemina upp og stýrði í áratugi.

Félagsstarf fyrir heldri borgara

Heldri borgarar fengu fljótt afnot af Gerðubergi ef ekki hlutverk í starfsemi hússins. Á þessum tíma var hugtakið „eldri borgari” betur orðað “heldri borgari nánast nýtt en þó farið að ryðja eldra orðfæri á borð við „gamalmenni” með mun neikvæðari blæ á brott úr daglegri málnotkun. Efasemdir voru um það í fyrstu hvort nokkuð hefði upp á sig að bjóða upp á félagslegt menningarlíf fyrir þennan aldurshóp. Á þeim tíma var félagsstarf eldri borgara nánast óþekkt fyrir utan það starf sem fór fram á dvalarstofnunum eða elliheimilum fyrir eldra fólk sem þar bjó. Félagsstarfið hefur þróast og dafnað í gegnum tíðina en Gerðuberg var fyrsta húsið sem bauð upp á slíka starfsemi án þess að vera tengt íbúðum eða bústað fyrir heldra fólk. Í fyrstu var félagsstarfið opið tvisvar í viku fjóra tíma í senn yfir veturinn. Fljótlega fór starfsemin að vaxa og þá var ráðinn fastur starfsmaður. Fyrst í stað var félagsstarfið á vegum ÍTR en var flutt til Félagsmálastofnunar 1987. Áratug síðar var starfsemin flutt undir menningargeirarann en er nú komin undir Velferðarsvið eins og önnur starfsemi af svipuðum toga á vegum borgarinnar.

Tvær Guðrúnar eða jafnvel fleiri

Guðrún Jónsdóttir kom fyrst til starfa við félagsstarfið haustdögum 1986. Þá var hún fengin til að taka að sér leiðsögn í handavinnu. Hún féllst á það í einn mánuð en starfaði í Gerðubergi til dauðadags. Það sem átti að vera einn mánuður varð meira en aldarfjórðungur. Hún var búin að starfa þar í fjögur ár þegar þáverandi forstöðumaður fór í leyfi. Þegar ljóst var að sú manneskja myndi ekki snúa til baka í starfið var hún hvött til þess að sækja um. Guðrún vann gjarnan á persónulegum nótum með fólkinu sem fór að sækja félagsstarfið. Í samtali við Breiðholtsblaðið á sínum tíma sagði hún að uppruni sinn úr Húnaþingi hafi hjálpað sér við þetta verkefni. Hún kvaðst hafa fengið tækifæri til að stinga fæti niður í heim tveggja ólíkra tímaskeiða. Upplifað aldahvörf þegar nútíminn leysi alda gamlar hefðir af hólmi. Guðrún hafði þann sig að skjóta upp kolli þegar einhver eða einhverjir koma. Engu líkar en að hún væri alls staðar. Tvær Guðrúnar eða jafnvel þrjá. Hún gekk í allt. Hún lýsti því hvernig væri að koma í vinnuna á morgnana. Líkti því við  jólaboð og það er ekki amalegt að mæta í jólaboð á herjum degi. Hún kvaðst leggja mikið upp úr starfsumhverfinu. Gott starfsumhverfi hafi allt að segja. “Þegar ég raða þessu niður þá set ég vinnufélagana í fyrsta sæti, vinnuumhverfið í annað og launin koma í það þriðja.” Félagsstarfið er í fullum gangi og ljóst að þótt nýtt fólk hafi komið til starfa svífur sá andi sem Guðrún Jónsdóttir skapaði enn yfir vötnum. Fundarherbergi á neðri hæð Gerðubergs er nefnt eftir henni og heitir Guðrúnarstofa. Forstöðumaður fjölskyldumiðstöðvar og félagsstarfs í Breiðholti er Elísabet Karlsdóttir og umsjónarmaður félagsstarfsemi í Gerðubergi er Helga Ben.

Guðrún Jónsdóttir byggði félagsstarfið í Gerðubergi upp. Tók við forstöðunni í ársbyrjun 1990 og starfaði þar til í október 2013 að hún féll frá með litlum fyrirvara og löngu fyrir aldur fram.

Þjónustuíbúðirnar

En Guðrún Jónsdóttir var ekki einhöm. Hún barðist fyrir því að byggðar yrðu þjónustuíbúðir fyrr eldra fólk á milli Gerðubergs og Fella- og Hólakirkju. “Þetta er frábær hugmynd sem Vilhjálmur  Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri vék að í viðtali í síðasta tölublaði Breiðholtsblaðsins um að byggðar yrðu þjónustuíbúðir fyrir aldraða á auða svæðinu á milli Gerðubergs og Fella og Hólakirkju,” sagði Guðrún Jónsdóttir, forstöðumaður félagsstarfsins í Gerðubergi í samtali við Breiðholtsblaðið í mars 2007. “Þetta auða svæði er hvorki grænt né vel fallið til hefðbundinnar útivistar og getur því vel hentað fyrir lágreista þjónustuíbúðabyggð eins og borgarstjóri hugsar sér hana. Nú er búið að rífa skátaheimilið sem stóð á næstu lóð austan Gerðubergs og skemmdist mikið í eldi á dögunum þannig að nú er að minnsta kosti um að ræða tvær lóðir sem mætti hugsa sér að byggja yfir eldri borgara sem þurfa á þjónustu að halda.”

Bragi og Guðbergur

Ritþing og sjónþing hófust í Gerðubergi árið 1999 og urðu fljótt vinsæl enda um nýjung að ræða. Þeim er ætlað að veita persónulega innsýn í feril íslenskra listamanna og rithöfunda. Skipulagi þinganna er þannig háttað að höfundur situr fyrir svörum um líf sitt og verk. Sjónþing Gerðubergs hófust árið 1996. Þeim er ætlað að gefa innsýn í íslenska samtímalist og gefa fólki kost á að kynnast viðhorfum, áhrifavöldum og lífshlaupi einstakra listamanna í máli og myndum. Fyrsti listamaðurinn sem sat fyrir á sjónþingi Gerðubergs var Bragi Ásgeirsson þann 11. febrúar árið 1996. Umsjónarmaður var Hannes Sigurðsson listfræðingur. Guðbergur Bergsson var fyrsti rithöfundur ritþinganna þann 27. mars árið 1999. Umsjónarmaður þess ritþings var Jón Yngvi Jóhannsson. Margvísleg menningartengd starfsemi hefur farið þar fram sem og langt yrði að telja. Tónleikar af ýmsum gerðum þar sem listafólk hefur komið fram og flutt tónverk. Einkum í klassískari kantinum. 

Guðrún Dís Jónatansdóttir veitti Gerðubergi forstöðu um tíma og starfar nú hjá Borgarbókasafni og Sólveig Arngrímsdóttir sem veitti bókasafninu í Gerðubergi forstöðu um lengri tíma.

Kaffihúsið í Gerðubergi

Fljótlega var ákveðið að opna kaffihús í Gerðuberg. Rekstur þess gekk þó lengi erfiðlega. Eins og fólk áttaði sig ekki á hversu gott gat verið að koma þangað í kaffi. Lánþegar Borgarbókasafnsins skutust oftast út og inn án viðkomu á kaffihúsinu. Umhverfi kaffihússins var breytt umtalsvert fyrir nokkrum árum. Rými þess var stækkað verulega og tengt við bókasafnið og einnig fundaðastöðu á efri hæð Gerðubergs. Kaffihúsið hefur verið rekið af ýmsum aðilum í gegnum árin. Í dag heitir það Cocina Rodríguez en einnig þekkt undir nafninu Kaffi 111. Þar er boðið upp á notalega stemningu með kaffi, kökum, smáréttum og öðrum léttum veitingum. Einnig er í boði kjarngóður hádegismatur milli kl. 11:30 og 13:00 alla daga nema sunnudaga. Cocina Rodríguez býður viðskiptavinum upp á veitingar fyrir öll tilefni. Cocina sem þýðir kaffihús er rekið af Evelyn Rodríguez. Bókasafnið og menningarhúsið eru nú ein sameiginleg heild með kaffihúsið í miðjunni þar sem hægt er að setjast niður og kíkja í tímarit og blöðin yfir rjúkandi kaffi.

Sameinast Borgarbókasafni 

Borgarbókasafn Reykjavíkur hóf starfsemi í Gerðubergi fljótt eftir opnun hússins. Í byrjun árs 2015 voru Menningarmiðstöðin Gerðuberg og Borgarbókasafn Reykjavíkur sameinuð undir einn hatt. Þar með breyttist heiti stofnunarinnar í Borgarbókasafnið Menningarhús Gerðubergi og heiti starfsstaða Borgarbókasafnsins í hverfum borgarinnar tók sambærilegum breytingum. Margvíslegir viðburðir hafa verið í Gerðubergi í gegnum tíðna auk þess sem þar hefur verið góð aðstaða til fundahalda og margvíslegrar samverustarfsemi. Með sameiningu menningarmiðstöðvarinnar við Borgarbókasafn hefur verið bætt í margvíslega starfsemi í Gerðubergi auk þess sem húsið er opið allt árið en löngum var starfsemi þess einkum að hausti, vetri og að vori. Allt frá því að menningarhúsið Gerðuberg var stofnað hefur það verið stolt Breiðholtsins og mikilvægur hlekkur í þeirri miðborgarmenningu sem þróast hefur og þrifist við Austurberg í Efra Breiðholti.

Konur í félagsstarfinu í Gerðubergi taka þátt í kvennahlaupi ÍSÍ.
Margir gestir hafa heimsótt félagsstarfið í Gerðubergi. Hér eru Ólafur Ragnar Grímsson fyrrum forseti Íslands og Dorrit Moussaief í heimsókn í forsetatíð Ólafs.

You may also like...