Uppfæra byggð til nýrra tíma
– Nýtt hverfaskipulag fyrir Breiðholt –
Sterkari hverfiskjarnar, borgarbúskapur og vetrargarður eru meðal áhersluatriða í nýju hverfisskipulagi sem er í vinnslu fyrir Breiðholt. Hverfisskipulag tekur mið af stefnu aðalskipulags um vistvæn hverfi ásamt ábendingum og óskum sem fram koma í samráði og algengustu umsóknum húseigenda um breytingar. Uppbygging og efling hverfiskjarna í Breiðholti sem margir mega muna fífil sinn fegurri og borgarbúskapur í gróðurhúsum og matjurtagörðum er á meðal áhugamála fólks. Einnig efling skíðasvæðisins í Seljahverfi eða vetrargarður til að efla útivist og hreyfingu. Þá eru kynntar tillögur fyrir húseigendur til að gera breytingar á húsum sínum. Ævar Harðarson arkitekt og deildarstjóri hverfisskipulag hjá Reykjavíkurborg segir að ætlunin sé að fá viðbrögð fólks við nýjum hugmyndum áður en gengið verður endanlega fá skipulagstillögunum. Hann leggur áherslu á að þetta séru vinnutillögur til að fá fram viðbrögð íbúa. Þegar kynningu á vinnutillögum líkur verða tillögur settar í lögformlegt kynningar- og samþykktarferli. Ævar spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.
Íbúum í Breiðholti hefur fækkað í um 20 þúsund manns en voru um 25 þúsund þegar mest var. Með tillögum að nýju hverfisskipulagi er stefnt að því að þeim fjölgi aftur. Allir innviðir í Breiðholti nýtast betur og allt umhverfi verður vænna fyrir íbúa þess. Ævar segir að í hverfisskipulaginu sé gert ráð fyrir framboði á litlum og meðalstórum íbúðum í grónum hverfum, sérstaklega í hverfum með mörgum einbýlis- og raðhúsum. “Þær vinnutillögur sem liggja fyrir gera ráð fyrir því að íbúðum geti fjölgað um hátt á þriðja þúsund í hverfunum. Þessi fjölgun getur orðið með þéttingu byggðar á þróunarsvæðum, hækkun lyftulausra fjölbýlishúsa og heimildum eigenda sérbýlishúsa til að innrétta aukaíbúðir þar sem aðstæður leyfa. Þá eru líkur til þess að íbúðafjölgunin í Breiðholtinu geti orðið meiri þar sem möguleg fjölgun íbúða á stærri þróunarsvæðum er ekki talin með hér, til dæmis í Norður Mjódd. Það er þó rétt að undirstrika það að þetta eru fyrst og fremst skipulagsheimildir sem lóðarhafar og húseigendur ráðstafa og alls ekki eitthvað sem Reykjavíkurborg ætlar að fara að framkvæma” segir Ævar.
Einfaldara að breyta fasteignum
Ævar segir að með tilkomu hverfisskipulags verði mun einfaldara fyrir húseigendur að gera breytingar á fasteignum sínum, til dæmis að byggja kvisti, svalir eða viðbyggingar. Tillögur að nýju hverfisskipulagi fyrir Breiðholt eru á lokametrunum og eru þær afrakstur umfangsmikils samráðs við íbúa. Hverfisskipulag Reykjavíkur á að gera hverfin sjálfbærari, vistvænni og undirbúa þau fyrir áskoranir í framtíðinni. Stefnt er að því að lokið verði vinnu við hverfisskipulag fyrir Neðra Breiðholt, Efra Breiðholt og Seljahverfi í haust.
Vefsvæði og kynningarfundir
Vinnutillögurnar eru kynntar á sérstöku vefsvæði þar sem upplýsingar eru settar fram með myndrænum hætti auk þess sem hægt er að velja fjölmörg tungumál. Ævar bendir á að umtalsverðar nýjungar séu að finna í hinum nýju tillögum. Markmið borgarinnar er fyrst og fremst að kynna þær vandlega fyrir íbúum. Kynningar fara meðal annars fram með kynningarfundi í Gerðubergi auk þess sem ákveðið er að efna til gönguferða um viðkomandi svæði þar sem starfsmenn skipulagssviðs Reykjavíkur fara um með fólki og segja frá hugmyndum um uppbyggingu í hverfunum og hvernig heimildir og áherslur hverfisskipulags geta haft áhrif á þróun hverfanna. Sérstök áhersla er lögð á að einungis er um tillögur að ræða en ekki fullbúið skipulag.
Leituðu meðal annars til barna
Ævar segir bakgrunn hverfisskipulagsins vera aðalskipulag Reykjavíkur sem samþykkt var 2013. Upphaflegt skipulag Breiðholts nálgist nú sjötugsaldurinn. Farið var að undirbúa byggingu Breiðholtsins eftir kjarasamningana 1965 eða fyrir 55 árum. Ýmsar samfélagslegar breytingar hafi orðið á þessu tímabili sem kalli eftir nýrri hugsun þegar kemur að viðhaldi byggðra svæða. Breiðholtið hafi verið nýtt íbúðahverfi á sínum tíma. Nokkuð utan þáverandi eldri byggðar í Reykjavík og því gefið ýmis tækifæri í skipulagi og hönnun. Íbúasamsetningin sé allt önnur, ekki síst fyrir hátt hlutfall aðflutts fólks. Í Breiðholtinu sé eitt fjölþjóðlegasta samfélag borgarinnar og því margvíslega menningarstrauma að finna. “Við höfum beitt ýmsum aðferðum í hverfisskipulaginu, m.a. leitað í meira mæli til íbúa um hvernig þeir vilja sjá hverfin sín þróast heldur en gert hefur verið áður í skipulagsvinnu í Reykjavík,” segir Ævar. ”Eitt af því sem við gerðum var að leita til barna í Breiðholtinu. Það fór fram samtal við börnin þar sem við vorum meðal annars að byggja módel með þeim þar sem þau fengu að túlka hugmyndir sínar í sýnilegum veruleika.”
Hverfiskjarnarnir gegna mikilvægu hlutverki
Ævar segir að hverfiskjarnarnir gegni mikilvægu hlutverki í hverfunum. “Þeir voru í upphafi hugsaðir sem þjónustustöðvar fyrir hverfin en hlutverk þeirra minnkaði í áranna rás. Bílaeign margfaldaðist og fólk hætti að telja eftir sér að skreppa úr hverfinu jafnvel um lengri leið til þess að versla á öðrum stöðum og þá einkum í stórmörkuðum sem voru að koma til sögunnar á þessum tíma.” Ævar segir mikilvægan þátt í hverfisskipulaginu vera að styrkja núverandi hverfiskjarna til að skapa aukin tækifæri fyrir blómlega verslun og fjölbreytta þjónustu í göngufæri fyrir íbúa. “Í Neðra Breiðholti verða gerðar miklar breytingar á kjarnanum við Arnarbakka en í hverfisskipulagi er uppbygging hans sett í forgang. Hverfiskjarninn verður styrktur með því að fjarlægja gömlu húsin og reisa nýjar byggingar en hugmyndir eru um að vera þar með verslanir og þjónustu á jarðhæð í nýjum byggingum og stúdentaíbúðir á efri hæðum.”
Umfangsmikil endurnýjun í Efra Breiðholti
“Kjarnarnir í Efra Breiðholti verða einnig efldir verulega. Þar á meðal verður farið í umfangsmikla endurnýjun við Eddufell og Völvufell. Eldri byggingar verða fjarlægðar að hluta og nýtt húsnæði reist sem hýsa mun bæði stórann leikskóla, stúdentagarða og sérbýli í raðhúsum.. Áfram verður verslun og þjónusta í Fellagörðum og heimildir verða fyrir íbúðum á efri hæðum verslana. Þarna eru möguleikar að bæta við nýjum íbúðum.
Austurberg borgargata
Þá eru hugmyndir um ýmsar endurbætur við Austurberg. Austurberg er einskonar aðalgata í Efra Breiðholti sem skilgreind er sem borgargata í hverfisskipulagi. Þar eru margar stofnanir sem þjóna hverfinu og borgarhlutanum öllum. Þrír skólar, Breiðholtslaugin, íþróttahús, líkamsræktarstöð og starfssvæði Leiknis að ógleymdri heilsugæslustöð og Menningarhúsinu Gerðubergi. Hugmyndin er einnig að efla almenningssamgöngur í borgarhlutanum en um 1960 var hætt að skipuleggja íbúasvæði út frá almenningssamgöngum. Þá tók bílaöldin við og bíllinn var allsstaðar í fyrirrúmi en nú eru uppi aðrar hugmyndir í samgöngumálum. Að fólk verði haft í fyrirrúmi en bíllinn settur í bakgrunninn. Því er ekki gert ráð fyrir sambærilegri fjölgun bílastæða og íbúða þar sem markmið hverfisskipulagsins er að dempa ásýnd bílastæða í hverfunum þremur, meðal annars með fækkun stórbílastæða. Stórbílastæðin eru arfur þess tíma að rekstur atvinnubíla var að miklu leyti á forræði einstaklinga. Nú hefur sá rekstur að miklu leyti færst til fyrirtækja sem hafa sín athafnasvæði og stórir atvinnubílar jafnan geymdir þar.”
Rangársel, Maríukirkjan og aukaíbúðir
Ævar segir einnig að hugmyndir séu um að styrkja hverfiskjarnann við Rangársel í Seljahverfi. “Mjög litla þjónustu er að finna í Seljahverfinu. Matvöruverslanir eru í jaðri hverfisins við Seljabraut og Jafnasel. Í Seljahverfinu eru sambærilegar hugmyndir á ferðinni með því að styrkja byggðina við Rangársel með nýjum íbúðum og margvíslegu atvinnuhúsnæði. Þarna væri tilvalið að koma upp kaffihúsi eða einhverjum stað þar sem fólk getur komið saman. Ragnarselið er í mjög fallegu umhverfi frá náttúrunnar hendi. Skammt frá Tjörninni. Maríukirkjan er einnig í nágrenninu. Hún stendur á stórri lóð sem spurning er um hvort mætti byggja á. Gefa mætti söfnuðinum tækifæri til að nýta lóðina eitthvað betur.
Aukaíbúðir í stórum einbýlum
Eitt sem þarf að nefna í sambandi við Seljahverfið er að gefa fólki tækifæri til þess að kom upp aukaíbúðum í stórum einbýlishúsum. Mörg þessara húsa voru byggð með fjölmennar fjölskyldur í huga. Síðan hefur fækkað og sums staðar eru aðeins tvær manneskjur eftir. Hins vegar er gert ráð fyrir að þessar aukaíbúðir verði í eigu sama aðila og húsið. Þær verði ekki seldar öðrum einstaklingum en hægt að leigja þær út. Á sama hátt er ekki gert ráð fyrir aukabílastæðum vegna þessa. Tvö bílastæði eru við flest einbýlishús í hverfinu samkvæmt skipulagi.”
Þrjú sérstök verndarsvæði
Tillaga er um að setja hverfisvernd á þrjú svæði í Breiðholti. Er þessi tillaga kynnt vegna þess að þessar hverfiseiningar eru taldar hafa skipulagslega og byggingarsögulega sérstöðu. “Það eru Bakkarnir í Neðra Breiðholti, fjölbýlishúsin við Fálkhól efst í Seljahverfinu sem bera með sér sterka skipulagsheild og timburhúsabyggðin við Keilufell. Þau hús voru flutt inn frá Svíþjóð vegna eldgossins í Vestmannaeyjum 1973 þegar Vestmanneyingar þurftu tímabundið að flytja upp á land. Þessi hús mynda sérstaka heild í byggðamynstrinu. Við viljum gjarna heyra skoðanir íbúa á þessum tillögum,” segir Ævar.
Borgarbúskapur og grænmetisræktun
Í vinnutillögunum kemur fram að sérstök áhersla verði lögð á græna innviði og borgarbúskap. Annars vegar á opnu svæði sunnan við Stekkjabakka og hins vegar á opnu svæði við Jaðarsel, austan við leikskólann Jöklaborg. Þar er gert ráð fyrir að heimild til borgarbúskapar, s.s matjurtagarða, verði rýmri en annars staðar á borgarlandinu og að leyfð verði tímabundin bygging gróðurhúsa eða garðhúsa, tenging vatns- og rafmagnslagna og afmörkun svæða með gróðri eða girðingum. Eins á að skilgreina svonefnd kyrrlát svæði í öllum hverfum Breiðholts sem ætluð eru til dvalar eða slökunar fyrir íbúa.” Ævar segir að ákveðnir skilmálar verði settir í hverfisskipulagið um borgarbúskap á lóðum og borgarlandi. Matjurtagarðar og gróðurhús muni styðja við útiveru og neyslu á hollu grænmeti og stuðla jafnframt að betri nýtingu á verðmætu landi.
Vetrargarður – alger nýjung
Ein athyglisverð hugmynd er um vetrargarð efst í Seljahverfinu sem yrði opinn allan ársins hring og verður því að teljast metnaðarfulla hugmynd. Heilsársopnun mun kalla á að snjóframleiðslutækjum yrði komið fyrir á svæðinu. Þar er skíðalyfta í dag, sem hefur verið opin undanfarin ár þegar snjómagn og veður leyfir. “Tillögurnar nú gera hins vegar ráð fyrir að hægt verði að hafa svæðið opið árið um kring. Þar verði þá ýmist notast við náttúrlegan snjó, snjóframleiðslu, eða svokallaða þurrskíðun í fjölbreyttum brekkum og ævintýrabrautum sem yrðu formaðar sérstaklega á svæðinu. Einnig er gert ráð fyrir að útsýnispalli verði komið fyrir efst í brekkunni með verönd, bekkjum og borðum og veitinga- og þjónustukjarna. Þar yrði skíða- og snjóbrettaleiga, útleiga á snjósleðum og hjólum, skíðaskóli með skíða- og brettakennslu, miðasala og veitingasala og á einkum að horfa til byrjenda og barna sem eru að læra að skíða.”
Uppfæra byggð til nýrra tíma
Hér er um stór mál að ræða sem nauðsynlegt er að kynna vel fyrir íbúum. Ævar segir bættar samráðsaðferðir kalla á bætta upplýsingagjöf. Þetta verði meðal annars unnið með nútíma tækni. Með heimasíðu og tengingu við samfélagsmiðla og fundum með íbúaráði og hagsmunaaðilum í Breiðholtinu. Hluti af samráði og samtali við íbúa er viðvera starfsmanna borgarinnar. Viðveran verður sérstaklega auglýst í fjölmiðlum. Tilgangurinn er að koma á framfæri upplýsingum um skipulagsvinnuna ásamt því að leita eftir ábendingum og hugmyndum um úrbætur í beinum samtölum við íbúa. “Ég álít að ef margar af þessum hugmyndum sem unnið er að við gerð skipulagsins koma til framkvæmda muni það verða lyftistöng fyrir Breiðholtið og jafnvel geta hækka fasteignaverð í Breiðholti. Þarna er í raun og veru verið að uppfæra nær hálfrar aldar gamla byggð í takt við breyttar áherslur og nýja tíma.”