Hverfi lista og menningar
– – Sólvallahverfið – –
Á þriðja áratug liðnar aldarinnar, fyrir um einni öld, var hafist handa um smíði húsa á Sólvöllum vestan Landakotshæðarinnar í Reykjavík. Sólvellir lágu þá utan hinnar eiginlegu Reykjavíkur en byggðin sem þar myndaðist varð á skömmum tíma nýtt hverfi í Vesturbænum. Gárungar skopuðust að gatnagerð á þessu svæði og götur voru uppnefndar. Heiti eins og Séstvallagata, Finnstvallagata og Ervallagata heyrðust í tali manna þótt þau festust ekki sem götuheiti til frambúðar. Vestan við kirkjugarðinn við Suðurgötu var byggður nokkur fjöldi sambyggðra húsa og fljótt varð ljóst að þarna var að myndast nýtt bæjarhverfi. Þetta hverfi samanstendur í heild af Sólvallagötu, Ljósvallagötu, hluta Hringbrautar, Brávallagötu, Blómvallagötu og Ásvallagötu.
Fram yfir 1920 hafði tíðkast að götunöfn væru dregin af staðháttum eða nöfnum býla. Á þriðja áratugnum var sú stefna tekin upp að ný götunöfn skyldu minna hvert á annað. Verða einskonar raðnöfn. Nöfn á borð við Hávallagata, Sólvallagata og Blómvallagata eiga rót að rekja til þessarar ákvörðunar. Nafnið Sólvallagata kemur fyrst fram í manntali árið 1927 en var áður nefnt Sólvellir enda stóð þar lengst af aðeins eitt hús, Álfheimar sem í dag er Sólvallagata 12. Þar bjó Jónatan Þorsteinsson kaupmaður. Árið 1940 var samþykkt að sameina Sólvallagötu og Sellandsstíg og féll þá niður götuheitið Sellandsstígur sem kenndur var við jörðina Sel. Nafn Hávallagötu var samþykkt árið 1934 og má vera að það sé tengt legu hennar, en hún liggur efst gatna í sunnanverðri Landakotshæðinni. Nafn Hólatorgs var samþykkt árið 1919 og dregið af því að það er í Hólavallalandi. Garðastræti er mun eldra. Það dregur nafn sitt af grjótgörðum, sem hlaðnir voru umhverfis tún Götuhúsa og Hlíðarhúsa. Nafnið Garðastræti kemur fyrst fram í manntali árið 1891. Lagning götunnar út frá Vesturgötu hófst um 1920. Nafn Blómvallagötu var ákveðið árið 1926. Gatan tók að byggjast á þriðja áratug liðinnar aldar.
Fólk tengt menningu og listum
Hverjir settust að í þessu nýja hverfi vestan í Landakotshæðinni. Fljótlega fór að bera á að fólk sem tengdist menningu og listum leitaði þangað. Sennilega hefur ekkert borgarhverfi alið og hýst fleiri listamenn miðað við íbúafjölda en Sólvallahverfið gerði á sínum tíma. Skáld, rithöfundar, listmálarar og hljómlistarmenn byggðu sér ból eða festu sér heimili í þessari nýju borgarbyggð.
Jakob Thorarensen
Einn þeirra manna sem bjó á þessum nýbyggðu slóðum var Jakob Thorarensen skáld og rithöfundur. Hann bjó við Ljósvallagötu og skipaði merkan sess í hópi íslenskra samtíðarskálda í meira en fjóra áratugi. Hann var fæddur á Fossi í Vestur Húnavatnssýslu 18. maí 1886 og ólst að mjög miklu leyti upp í Hrútafirði, en einnig í Reykjafirði á Ströndum, þar sem faðir hans, Jakob Thorarensen, var bóndi og vitavörður að Gjögri. Að þeim feðgum stóðu skáld- og fræðahneigt fólk í báðar ættir. Jakob yngri og Bjarni Thorarensen amtmaður og skáld á Möðruvöllum í Hörgárdal voru frændur. Á meðal ljóða Bjarna má finna þessa vísu.
Kysstu mig, hin mjúka mær,
því þú ert sjúk.
Kysstu mig hin mjúka mær,
því þú deyr.
Glaður drekk ég dauða úr rós,
úr rós
á vörum þín,
því skálin er svo skær.
Forfeður Jakobs voru þrír nafnkunnir langfeðgar. Séra Einar Sigurðsson í Eydölum, sonur hans séra Ólafur Einarsson á Kirkjubæ og sonarsonur Einars séra Stefán Ólafsson í Vallanesi. Allir voru þeir skáldmæltir og mun þekktasta kvæði séra Einars vera Nóttin var sú ágæt ein sem Sigvaldi Kaldalóns samdi lag við. Fyrsta erindi þess af sjö er svohljóðandi.
Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröld ljósið skein,
það er nú heimsins þrautarmein,
að þekkja hann ei sem bæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.
Þórbergur og snjótittlingarnir
Sagan segir að Þórbergur Þórðarson rithöfundur hafi oft gengið hjá húsi Jakobs. Þar hafi hann hlýtt hugfanginn á söng fuglanna. Í Bréfi til Maju lýsir Þórbergur þessum gönguferðum sínum. “Mín músík er þögnin og söngur snjótittlingsins í trjánum í garðinum hans Jakobs Thor. Ég hef aldrei verið svo vel settur í lífinu að eiga hríslu handa snjótittlingi til að syngja í. Ég hef orðið að standa fyrir utan annarra manna garða til að njóta þeirrar skemmtunar. Nú vill Fríða Knudsen eyðileggja þetta fyrir mér, eins og vant er, og segir að snjótittlingar syngi aldrei í trjám, heldur á steinum og klöppum. En Finnur Guðmundsson fuglafræðingur, sem allt veit um fugla, nema tal hrafnsins, segir að það komi fyrir, að snjótittlingar sitji í trjám og þeir geti alveg eins sungið í þeim.”
Númi Þorbergsson
Númi Þorbergsson þekktur hagyrðingur og textahöfundur leigði eitt sinn herbergi hjá Jakobi. Númi vann oft til verðlauna í samkeppni um texta við dægurlög. Um hagmælsku Núma mun Jakobi ekki hafa verið kunnugt. Númi var einhverju sinni félítill. Hann knúði dyra skáldsins og bað hann umlíða sig um greiðslu húsaleigunnar fram í næsta mánuð að minnsta kosti. Þá á Jakob að hafa spurt hann hvort hann gæti kastað fram vísu. Núni svaraði að það mætti reyna. Hús Jakobs stendur vestan megin Ljósvallagötu. Handan Ljósvallagötunnar er kirkjugarðurinn. Númi leit yfir götuna og svaraði.
Í vesturbænum virðist mér
vísust leið til glötunar.
Allir dauðir eru hér
öðrumegin götunnar.
Jón frá Ljárskógum
Jón Jónsson frá Ljárskógum skáld og bassasöngvari MA-kvartettsins bjó um skeið í húsi Jakobs. Má nefna Sestu hérna hjá mér og Húmar að kveldi sem dæmi um ein þekktustu ljóða hans. Jón var berklaveikur og má finna áhrif heilsuleysis í sumum texta hans. Um þær mundir sem Jón dvaldi í húsi Jakobs mun hann hafa kveðið.
Kom vornótt og syng þitt barn í blund.
Hve blítt þitt vögguljóð og hlý þín mund
ég þrái þig.
Breið þú húmsins mjúku verndarvængi
væra nótt, yfir mig.
Séra Sveinn Víkingur
Séra Sveinn Víkingur Grímsson frá Garði í Kelduhverfi var einn hinna þekktu manna á Sólvallasvæðinu. Sveinn starfaði einkum fyrir þjóðkirkjuna og var biskupsritari. Sveinn var einnig þekktur fyrir útvarpserindi sín um daginn og veginn. Hann var um tíma formaður Sálarrannsóknarfélags Íslands. Á námsárum sínum vakti hann athygli vegna þrætumála er urðu í kjölfar “drengsmálsins” svo nefnda. Sveinn var borinn sökum af séra Ingimar Jónssyni um að gamanbragur nokkur í stíl Passíusálmanna sem háskólastúdentar kváðu um þá atburði er fóstursonur Ólafs Friðrikssonar var handtekinn og síðar vísað úr landi ætti rætur til Sveins en hann bar af sér að eiga hlut að málum.
Guðmundur jaki
Guðmundur J. Guðmundsson verkalýðsforingi og kona hans Elín Torfadóttir bjuggu á Ljósvallagötu 12. Þangað kom Einar Olgeirsson “guðfaðir” Guðmundar jaka á pólitískri götu eitt sinn sem oftar og knúði dyra. Guðmundur hafði aflað sér vinsælda og aðdáunar vegna djarfmannlegrar framgöngu í verkfallsátökum. Einar Olgeirsson fylgdist vel með framgöngu ungra manna. Kvaddi þá gjarnan til liðveislu ef hann taldi tryggt að þeir lytu flokksaga. Guðmundur var þá kominn í stjórn Dagsbrúnar. Einar vildi senda Guðmund J. í framboð á Snæfellsnesi árið 1953 en treysti sér þó ekki til að lofa honum þingsæti þar vestra. Guðmundi var veitt athygli á Ljósvallagötu og þótti sumum hann vera morgunsvæfur. Staðhæfðu jafnvel að hann brygði ekki blundi fyrr en að löngu liðnu hádegi. Gárungarnir sögðu að Guðmundur færi ekki á fætur fyrr en allir sem “svæfu” handan götunnar væru löngu “upprisnir”. En þar var kirkjugarðurinn.
Jónas stýrimaður
Jónas Guðmundsson rithöfundur og myndlistarmaður en oft kenndur við skipstjórn og kallaður stýrimaður bjó síðari ár sín við Sólvallagötu ásamt síðari konu sinni Jónínu Jónsdóttur og börnum. Jónas var litríkur persónuleiki, rithöfundur og þjóðfélagsrýnir en einnig snjall myndlistarmaður. Hann málaði margar skipamyndir og einnig myndir af húsum auk annars. Jónas var gagnrýnin á framgang landbúnaðarins og sérstaklega byggingu Mjólkursamsölunnar í Árbænum sem hann kallaði jafnan undarennuhof í greinum sínum. Jónas var framsóknarmaður en var gagnrýninn á stefnu og stjórnarhætti flokksins. Hann sagði eitt sinn að hann kynni ekki að stofna hlutafélag um skuldir þegar málefni Tímans voru til umræðu á flokksfundi. Örlygur Sigurðsson listmálari reit grein um Jónas fimmtugan og sagði meðal annars, “Ég vorkenni Framsóknarflokknum ef veður skipuðust í lofti, þá yrði Jónasi ekki skotaskuld úr að sprengja flokkinn í loft upp, ef allt í einu dytti í hann að mislíka vistin þar. Hann er skapmaður mikill og sköpuður, sem oft fer saman í sálu listamanna. Honum fylgir alltaf hressilegur gustur, geðfjör, gáski og sprellandi fyndni, svo að allt fer á fleygiferð í kringum hann. Lognmolla og leiðinlegheit er ekki til í skaphöfn hans. Eirðarleysi og órói, þessi dæmigerðu sérkenni margra leitandi listamanna, einkenna mjög listamanninn Jónas.” Jónas lagði lítið fyrir sig að mála sveitir og sveitastörf. Til eru þó alla vega tvær myndir efir hann úr sveit. Önnur af manni á gamalli Farmal dráttarvél að snúa úldnu heyi. Hún er í brúnum litum ber heitið óþurrkur. Gæti verið af frægu óþurrkasumari 1955 á Suðurlandi. Hin er af sveitabæ norður í landi. Máluð af vetrarríki. Skaflar við veggi og tveir menn að talast við í túnfæti. Annar sennilega að biðja hinn um lán. Myndin var máluð af beiðni. Hann þekkti svæðið ekki og hafði lélega fyrirmynd en hver stroka var engu að síður þekkjanleg. Ber vott um hæfileika þess er á penslunum hélt. Jónas flutti fróðlegt útvarpserindi um Sólvelli sem því miður mun glatað. Þar var að finna ýmsar upplýsingar um svæðið og sögur af fólki. Margir fleiri gáfu Sólvallahverfinu líf og lit en er of lang upp að telja að þessu sinni.