Seltjarnarnesbær skilaði 434 milljóna afgangi
Rekstrarniðurstaða Seltjarnarnesbæjar er mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Samkvæmt samanteknum ársreikningi bæjarfélagsins fyrir árið 2014 varð rekstrarniðurstaða bæjarins jákvæð um 434 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi upp á aðeins 12 milljónir króna. Meginskýringin á þessari góðu niðurstöðu eru að tekjur urðu hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Í frétt frá bænum segir að góð rekstrarafkoma ársins styrkir enn frekar trausta fjárhagsstöðu bæjarins og endurspeglar þann stöðugleika sem ríkt hefur við stjórn bæjarins á liðnum árum. Heildarskuldir og skuldbindingar námu alls 1.539 milljónum króna í árslok og lækkuðu um 161 milljónir króna á árinu. Hreint veltufé í árslok nam 958 milljónum króna og hækkaði um 365 milljónir frá fyrra ári. Veltufjárhlutfall var 4,2 í árslok 2014 (2013: 1,8). Skuldahlutfallið lækkaði milli ára úr 55% í 45%, sem er með því lægsta á landinu. Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri kveðst að vonum ánægð með þessa jákvæðu niðurstöðu. „Já – ég er afar ánægð að geta lagt fram ársreikning fyrir árið 2014 með svo góðri rekstrarniðurstöðu og sterka fjárhagsstöðu. Þennan árangur vil ég ekki síst þakka frábæru starfsfólki bæjarins og miklum aga í rekstri.“ Áframhaldandi fjölgun – meiri tekjur Íbúum hefur fjölgað síðastliðin þrjú ár og nam fjölgunin 0,9% milli áranna 2013 og 2014. „Áframhaldandi fjölgun íbúa mun treysta tekjustofna bæjarins, stuðla að betri nýtingu innviða og styrkja þá viðleitni að halda álögum á bæjarbúa jafnan í lágmarki,“ segir Ásgerður. Í lykiltölum kemur fram að skatttekjur á árinu 2014 námu 568 þúsund krónum á íbúa og skuldir á íbúa í árslok 2014 námu 122 þús. kr. Til samanburðar námu meðalskuldir á íbúa höfuðborgarsvæðisins í árslok 2013 1.730 þús. kr. eða 10 sinnum meira en á íbúa á Seltjarnarnesi.