Fjölmenningarhátíð í Vesturbænum
Fjölmenningarhátíð var haldin í Samfélagshúsinu Aflagranda 40 í vesturbænum um miðjan október þar sem kenndi ýmissa grasa. Krakkar frá leikskólanum Drafnasteini mættu og hengdu upp litríkar hendur sem þau höfðu útbúið og sungu fyrir gesti við mikinn fögnuð.
Krakkar frá frístundaheimilunum Frostheimum og Skýjaborgir mættu og léku sér á Stóra leikvellinum sem Hlín mætti með en hún heldur m.a. utan um verkefnið Fjölbreytt kennsla. Friðrik frá Kramhúsinu mætti og hélt utan um hópefli með arabísku þema og Salsa Iceland sýndi dansa frá hinum ýmsu þjóðum. Gestir gátu gætt sér á mat frá m.a. Tyrklandi, Lettlandi og Litháen og gafst fólki einnig tækifæri á að prófa að tálga hjá Magga tálgara. Þórdís Erla setti upp ljósmyndasýningu sem sýndi starfsfólk Eflingar sinna undirstöðuatvinnugreinum landsins og svo söng Renata lög á litháísku, íslensku og ensku. Gestum gafst síðan kostur á að versla sér kvöldmat til að taka með heim því Bumbuborgarar mættu á svæðið með matarvagninn sinn.
Hátíðin var styrkt af íbúaráði Vesturbæjar en hugmyndin að hátíðinni kom út frá verkefninu Velkomin í hverfið sem snýst um að taka vel á móti fjölskyldum sem koma erlendis frá og eru nýjar í hverfinu og tengja þær inn í samfélagið.
Þessar myndir voru teknar á fjölmenningarhátíðinni í Vesturbænum. Myndirnar eru frá Iðunni, Lenu og Sirí.