Nýtt og glæsilegt torg við Tryggvagötu
Einhver hafði blandað saman
ljósi og skuggum
og dreift yfir borgina,
þokukenndri birtu
sem leysti upp öll landamæri.
Allar leiðir voru greiðar.
Þessar ljóðlínur eftir Sigurð Pálsson, skáld og rithöfund hafa verið settar niður í nýtt torg við Tryggvagötu. Með endurgerð Tryggvagötu hefur orðið til nýtt torg við Tollhúsið þar sem mósaíklistaverk Gerðar Helgadóttur fær að njóta sín. Tryggvagata á milli Pósthússtrætis og Grófarinnar hefur nú tekið stakkaskiptum með hönnun sem leggur áherslu á fólk og blómstrandi mannlíf. Framkvæmdir við Tryggvagötu eru hluti af því því verkefni að gera borgina betri, mannvænni, fallegri og aðgengilegri fyrir virka ferðamáta.
Áslaug Traustadóttir landslagsarkitekt hjá Landmótun hafði umsjón með hönnun torgsins. Hún líkir aðstæðunum við Austurvöll þar sem gjarnan er setið úti á veitingastöðum í sól og skjóli frá norðanáttinni. Einstök mósaíkmynd Gerðar hafi hingað til verið falin en fái nú að njóta sín mikið betur. Áskorun hafi falist í að hanna torg sem myndi ekki taka athygli frá fallegu verki og því hafi verið ákveðið að hafa þarna steypt torg fremur en hellulagt. Sérstaka kastara þurfti til að lýsa upp verkið en lýsingarhönnuður var Sölvi Kristjánsson frá Lisku. Kastararnir þurftu að endurkasta öllum litum í litrófinu til að gera verkinu góð skil eftir að rökkva tekur. Áslaug segir að kastararnir sem lýsi upp gönguleiðina séu hins vegar með mýkri og gulari birtu. Rebekka Guðmundsdóttir borgarhönnuður hjá Reykjavíkurborg kveðst telja að þetta torg eigi eftir að nýtast mjög vel því það er sólríkt fram eftir degi. Vítt sé á milli veggja og sólin nái að skína í gegnum Pósthússtræti og inn á svæðið.
Rebekku telur Tryggvagötuna orðna flottustu götuna í miðborginni og kveðst ánægð með þessa umbreytingu. Hún segir götuna hannaða þannig að umferðin verður hægari og miklu meira pláss fyrir fólk og mannlíf. Komið sé dvalarsvæði og gatan eins gróðursæl og best getur verið í götu í borgarmiðuðu umhverfi. Tryggvagata er að verða sannkölluð listagata því í næsta húsi, Hafnarhúsinu er Listasafn Reykjavíkur til húsa. Borgin hefur nú keypt allt húsið og nú er að fara af stað hugmyndavinna um nýtingu hússins og hvernig myndlistinni verður gert sem hæst undir höfði. Að lokum má geta þess að hugmyndin er að Listaháskóli Íslands fái samastað í Tollhúsinu.