Enn öflugri frístundir í Breiðholti

Starfsfólk í félagsmiðstöðvum í Breiðholti.
Jóhannes Guðlaugsson.

Fyrir ári síðan í janúar 2021 var skrifað um upphaf frístundaverkefnisins og að markmiðið væri að auka þátttöku  barna og unglinga hverfisins í íþrótta-, tómstundastarfi og bæta lýðheilsu í hverfinu. Nú ári síðar er gott að staldra við og skoða hvað hefur áunnist í þeim efnum.

Þjónustumiðstöð Breiðholts stýrir verkefninu eins og áður hefur komið fram og Þráinn Hafsteinsson hefur umsjón með því. Nichole Leigh Mosty var með Þránni í byrjun árs en síðan hefur Jasmina Vajzović Crnac tekið við af Nichole. Mikið samstarf er við leik- og grunnskólana, frístundamiðstöðina Miðberg og alla íþrótta- og frístundaaðila í hverfinu og auk þess Sendiherra Breiðholts sem eru fulltrúar mismunandi mál- og menningahópa í hverfinu. Verkefnið hefur þrjú meginmarkmið sem eru að auka íþrótta- og frístundaþátttöku barna í Breiðholti, auka nýtingu frístundakortsins til jafns við meðaltal í öðrum hverfum borgarinnar og auðvelda samfélagslega þátttöku, íslenskunotkun og félagslega virkni barna með mismunandi bakgrunn. 

Hvað hefur verið gert? – úrræði til að byggja grunninn

Á leikskólastiginu hefur verið starfandi verkefni sem hefur að markmiði að kynna fyrir öllum börnum á elsta stigi leikskólans íþróttir, í hverjum leikskóla fyrir sig. Börnum í fyrstu tveimur árgöngum grunnskólastigsins var tryggður möguleiki á að iðka tvær íþróttagreinar án aukagjalds þ.e. í öllu Breiðholti. Frístundastrætó ekur tvo hringi um hverfið strax eftir skóla til að auðvelda börnunum í 1.-4. bekk að komast í íþróttir og frístundir. Sérstakur styrktarsjóður verkefnisins hefur það hlutverk að styðja við þátttöku barna sem koma frá fjárhagslega illa stöddum fjölskyldum.

Ítarleg kynningaráætlun

Hrint var af stað kynningu fyrir öllum  stjórnendum í skólastarfi og frístundastarfi innan hverfisins, kynningu fyrir foreldrum og börnum þ.e. það sem í er í boði og hlutverk hvers og eins. Á vormánuðum var undirritaður ráðinn til starfa sem frístundatengill til stuðnings og að taka við ábendingum um einstaklinga sem ekki eru virkir og hjálpa þeim að finna rétt úrræði við hæfi.

Kynningarefni fyrir iðkendur – öllum börnum og foreldrum var sendur kynningarbæklingur bæði á pappír til barna í bekki og einnig rafrænt til foreldra. Þetta hefur verið gert í upphafi anna vor 2021, haust 2021 og nú í janúar.

Kynning fyrir stjórnendur – allir stjórnendur sem að börnum koma á grunnskólaaldri fengu kynningu og biðlað til þeirra að kennarar og starfsmenn frístundar stuðli að og hvetji börn til íþrótta- og frístundaiðkunar, en ekki síst að finna einstaklinga sem ekki eru virkir og eru einangraðir. Þetta var gert bæði á vorönn 2021 og haustönn 2021. Stjórnendur hvöttu kennara og starfsfólk frístundar til að senda nöfn á frístundatengil þ.e. þau börn sem vitað að eru ekki virk. Viðkomandi barni/unglingi hefur verið boðað til viðtals, með forráðamönnum, og í samráði fundið úrræði við hæfi.

Kynning í alla bekki grunnskóla

Kynning fyrir kennara og starfsmenn skóla – farið var í alla skóla með kynningu á hlutverki þeirra til að aðstoða frístundatengil til að koma börnum til virkni. Þetta var gert til að skýra hlutverk þeirra til að miðla upplýsingum um óvirka einstaklinga og senda á frístundatengil sem aðstoðar hvern og einn. 

Kynning í alla bekki grunnskóla – nú í október og nóvember var frístundatengill í samstarfi við skólastjórnendur og kennara um að fara í alla bekki grunnskóla hverfisins til að ræða við börn um íþrótta- og frístundaþátttöku; kynna möguleika sem í boði eru, athuga hverjir eru óvirkir og af hverju og ekki síst hvað þau vilja þá gera, fá hugmyndir þeirra. Þetta var allt gert í samráði við hvern og einn kennara, sem aðstoðaði við samtalið og við að taka saman stöðuna í hverjum bekk.

Aðstoð og hugmyndir fyrir börnin 

Um 200  ábendingar frá skólum og frístund hafa borist á vor og á haustönn. Einnig hafa félagsráðgjafar og sálfræðingar lagt sitt á vogarskálarnar. Samanlagt hafa um 120 einstaklingar fengið aðstoð við að komast í úrræði sem hentar, en kannski ekki öllum haldist á þeirri braut. Ýmsar hugmyndir hafa komið um fjölbreyttari tilboð fyrir börn og unglinga og það fyrst og fremst eftir samtölin. Tveir gymhópar, annar fyrir stelpur og hinn fyrir stráka, hafa verið settir af stað, og fleiri eru að hefja göngu sína á þessari önn, opinn íþróttahópur fyrir unglinga sem byrjaði í haust, myndlistarnámskeið, teikni,-og hönnunarnámskeið í síma og tölvu ofl. En mikilvægast er að taka við þessum hugmyndum og setja þær í gang. Fleiri verkefni eru í farvatninu og skólarnir og frístundamiðstöðin Miðberg hafa verið að auka á framboð sitt vegna þessa.

Sendiherrar og tungumálatöfrar

Íslenskukennsla fyrir börn af erlendum uppruna og staðan á Sendiherraverkefninu – viðbrögð foreldra af erlendum uppruna hafa verið mikil við okkar upplýsingum. Við höfum samhliða frístundaverkefninu starfrækt verkefnið ,,Sendiherrar í Breiðholti“, sem við höfum áður nefnt og Jasmina Vajzović Crnac stýrir og er það stór þáttur í að viðbrögð úr þeim hópi hafa verið mikil. Jasmina hefur átt stóran hlut í að verkefnið hefur blómstrað. Við höfum fengið níu fulltrúa átta mál- og menningarhópa sem eru; Sabit Veselaj fyrir albönsku-mælandi, Karim Askari fyrir arabísku-mælandi, Maria Sastre fyrir spænsku-mælandi, Pidsinee Sriphanthabut Einarsdóttir fyrir tælensku-mælandi Neringa fyrir Litháa, Mirabela Blaga fyrir Rúmena, Emilía Mlynska og Agnieszka Genowefa Bradel fyrir Pólverja og Patience og Innocentia Fiati Fridgeirsson fyrir hóp frá Afríku. Eru fulltrúar þessara hópa greinilega stór þáttur í að við erum að tengjast betur inn í samfélagið okkar í Breiðholti. Þetta hefur allt áhrif á að frístundaverkefnið hefur verið að virka vel. Síðastliðið sumar var samstarf við sendiherrana um starf fyrir börn af erlendum uppruna sem miðast að því að kynna fyrir þeim íslenska menningu og auka á íslenskukennslu fyrir þau í gegnum leik og starf. Í kjölfarið höfum við td. verið í sambandi við verkefnið,,Tungumálatöfrar“ sem miðar að því að kenna íslensku í leik og starfi og mun samstarf við það verkefni verða aukið á komandi sumri.

Vísbendingar um árangur

Fleiri verkefni eru í farvatninu og við teljum mikilvægt að bregðast við þeim óskum og tilmælum sem við fáum til að ná betur til fjölbreyttari hóps sem býr í Breiðholti. Það eru góðar vísbendingar um að börn vilji vera þátttakendur og þannig vera virk, í gegnum þau samtöl sem við eigum. Við finnum fyrir víðtækari skilningi í hverfinu um hag barna, bæði faglegum og einnig meðal fjölskyldna af erlendum uppruna. En mikilvægustu vísbendingarnar um árangur eru í gegnum könnun okkar og samtal við börnin og kennara. Ef marka má þessa litlu rannsókn þá erum við á réttri leið. Við getum ekki verið viss en vongóð um að við séum á réttri leið.

Við teljum þó að samstarfið við skólanna og alla aðila sem starfa með framboð til íþrótta- og frístundastarfs sé miklu meira en var og það mun eiga mikinn þátt í að auka á skilning foreldra og þeirra sem að börnum koma og þannig vinna að árangri í okkar hverfi. 

Við viljum gera hverfið enn öflugra í íþrótta- og frístundaiðkun á þessu ári. Við ætlum okkur að auka á samstarf við alla sem koma að þessu verkefni enn frekar. Hjálpumst að og verðum besta hverfið í borginni!

Jóhannes Guðlaugsson.

Frístundatengill í Þjónustumiðstöð Breiðholts.

You may also like...