Hvernig var læknað á 18. öld
… áhugaverð sýning í Nesstofu.
Í Nesstofu við Seltjörn stendur nú yfir áhugaverð sýning á vegum Þjóðminjasafns Íslands í samstarfi við Seltjarnarnesbæ. Á sýningunni má meðal annars fræðast um byggingu hússins og þá starfsemi sem þar var upphaflega.
Húsið var sérstaklega byggt sem embættisbústaður fyrsta landlæknis Íslands, Bjarna Pálssonar. Í húsinu fékk fólk læknisþjónustu auk þess sem lyf voru bæði búin til og seld á staðnum. Bjarni bjó í húsinu ásamt fjölskyldu sinni, auk lyfjafræðings og fjölskyldu hans, ljósmóður, læknanema, apótekaradrengja og sjúklinga. Það var því margt um manninn og mikið um að vera í Nesstofu þegar landlæknisembættið var þar til húsa. Nesfréttir höfðu samband við Steinunni Guðmundardóttur, safnakennara Þjóðminjasafns Íslands og spurði hvort sýningin væri áhugaverð fyrir börn og unglinga nú þegar sumarfríin eru fram undan. „Svo sannarlega“, svaraði Steinunn að bragði, „sýningin er mjög áhugaverð fyrir börn og unglinga, sem og raunar gesti á öllum aldri. Það mætti t.d. nefna að í húsinu eru til sýnis ýmis gömul lækningatæki sem geta vakið furðu en þau eru mjög ólík þeim tækjum og tólum sem læknar nota nú til dags til þess að sinna sjúklingum sínum. Einnig er til sýnis í húsinu svokallaður „furðuskápur“ en þar má finna ýmsa hluti sem upplýsingaraldarmenn sönkuðu gjarnan að sér á ferðalögum. Þar má t.d. sjá sull úr sullaveikum manni. Þess má einnig geta að í Nesstofu var starfrækt heilt apótek sem gaman er að skoða en það hefur verið endurgert að upprunalegri mynd. Lyfin sem voru afgreidd í apótekinu voru búin til á staðnum úr jurtum sem ræktaðar voru í urtagarði sem stendur fyrir utan húsið en um hann er einnig hægt að ganga.“
Hvar sváfu allir í Nesstofu
Steinunn bendir á að þó það séu margir áhugaverðir gripir til sýnis í Nesstofu sé það ekki síður húsið, saga þess og umhverfi sem sé áhugavert. „Við höfum látið útbúa fræðsluefni fyrir börn og unglinga þar sem þau eru hvött til þess að ganga um húsið og ímynda sér hvernig lífið var hjá fólkinu sem bjó í Nesi á 18. öld. Hvernig var t.d. að alast upp í húsi sem var líka spítali, apótek og lyfjaverksmiðja? Hvernig var að búa á svona fjölmennu heimili og hvar sváfu allir sem þarna bjuggu? Þetta eru meðal þeirra spurninga sem við hvetjum börnin til að velta fyrir sér þegar þau skoða sig um í Nesstofu.“ Fræðsluverkefnin geta allir nálgast í Nesstofu og eru frístundahópar sérstaklega hvattir til þess að nýta sér sýninguna í sumar en hún er opin alla daga nema mánudaga frá kl. 13 til 17. Ekki er nauðsynlegt að bóka heimsóknina sérstaklega.