Margar nýjungar hjá heilsugæslunni

– segir Nanna Sigríður Kristinsdóttir yfirlæknir Heilsugæslunnar í Efra Breiðholti –

Nanna S. Kristinsdóttir yfirlæknir og svæðisstjóri og Thelma Baldursdóttir skrifstofustjóri.

Starfsemi heilsugæslunnar hefur verið að breytast og þróast í takt við tímann. Megin áhersla er lögð á öfluga þjónustu og möguleika á að taka við fleiri verkefnum en var. Heilsugæslan er fyrsti viðkomustaður fólks hvort sem veikindi eða minni slys ber að garði. Eðli hennar er að mynda langtímasamband við skjólstæðinga, byggja upp traust á milli fólks og heilsugæslunnar. Þetta er sú hugmyndafræði sem nútíma heilsugæsla byggir á. „Við erum þakklát fyrir tækifærið til að kynna starfsemi okkar segir Nanna Sigríður Kristinsdóttir yfirlæknir Heilsugæslunnar í Efra Breiðholti í spjalli við Breiðholtsblaðið.

„Fyrir utan hefðbundna móttöku heilbrigðisstarfsmanna er vaktþjónusta frá klukkan átta til fimm hjá okkur eins og öðrum heilsugæslustöðvum. Tekið er á móti öllum sem þangað leita og bæði læknir og hjúkrunarfræðingur eru til staðar til að leysa úr bráðari vandamálum sem ekki þola bið.  Einnig er opið fyrir símaþjónustu þar sem erindum er forgangsraðað og leyst úr hvort sem það kallar eftir að viðkomandi mæti til viðtals eða ekki.  Þar getur fólk því fengið ýmsar ráðleggingar og úrræði við hæfi. Heilsugæslan hefur verið að leggja vaxandi áherslu á þennan þátt á síðastliðnum árum þannig að öll erindi eru metin og úr þeim leyst.  Því er um að gera að hafa samband. Hverjum og einum er frjálst að skrá sig á þá heilsugæslu sem honum hentar, óháð búsetu. Því er ekki nauðsynlegt að vera búsettur í Breiðholti til að skrá sig á heilsugæslustöðvarnar í hverfinu.  Margir kjósa að hafa sinn heimilislækni,  lækni sem þekkir til viðkomandi einstaklings og yfir margra ára tímabil myndast gott og traust samband á milli læknis og skjólstæðings.  Hins vegar tökum við eftir því að það er helst eldra fólkið sem vill halda sig við að hitta sinn lækni á meðan unga fólkið leggur meiri áherslu á að fá skjóta þjónustu. Þeir eldri horfa meira til persónulegs sambands læknis og skjólstæðings. Þetta er því ein af áskorunum okkar í heilsugæslunni, að mæta þörfum yngri kynslóðanna. „ 

Sérfræðimenntuðu fólki og starfsstéttum fjölgar 

Heilsugæslan í Efra-Breiðholti hefur verið starfrækt í hverfinu frá 1974 en í núverandi húsnæði að Hraunbergi 6 frá 1990. Húsnæði stöðvarinnar hefur verið endurnýjað að hluta, bæði biðstofa, móttaka og rými heilsugæsluritara en til stendur að endurnýja einnig móttökusvæðin á næstu árum. Þar starfa nú sjö sérfræðingar í heimilislækningum. Einnig eru þar að jafnaði sérnámslæknar og læknakandidatar en stöðin er kennslustöð og sinnir þar með menntun heilbrigðisstarfsfólks. Átta hjúkrunarfræðingar eru við störf og á tímabilum eru einnig hjúkrunarfræðinemar staddir hjá okkur. Tveir sálfræðingar starfa við heilsugæslustöðina og sinna þeir sálfræðiþjónustu fyrir alla aldurshópa. Nanna Sigríður segir að um 30 manns starfi nú hjá heilsugæslunni í Efra-Breiðholti. „Starfsstéttum fer fjölgandi með hverju ári sem er fagnaðarefni. Til viðbótar við móttökuritara, læknaritara, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður, sálfræðinga og heimilislækna starfa nú hreyfistjóri og klínískur lyfjafræðingur við stöðina. Vonir okkar standa til að fá félagsráðgjafa til starfa við heilsugæsluna á árinu. Samstarfsaðilum fjölgar einnig jafnt og þétt en þeirra helstu eru Þjónustumiðstöð Breiðholts, Geðheilsuteymi austur, Heimahjúkrun HH, Virk starfsendurhæfing og Hæfi endurhæfingarteymi svo fátt eitt sé talið.“

Um 85% hafa heimilislækni

Nanna Sigríður segir að skjólstæðingar heilsugæslunnar séu nú rúmlega 10.000 talsins. Fjórir af hverjum fimm skjólstæðingum eigi á hverjum tíma sinn heimilislækni en það sé markmið að sem flestir geti valið sér sinn lækni til að leita til. Öflug vaktþjónusta sé alla virka daga og til að tryggja bráðveikum og slösuðum einstaklingum þjónustu án tafar og standi bæði hjúkrunarfræðingar og læknar þá vakt. „Það er alltaf velkomið að hringja inn og fá ráðleggingar hjá vakthjúkrunarfræðingi sem metur bráðleika erinda og hvernig er best að leysa úr þeim. Milli 16 og 17 er opin síðdegisvakt fyrir þau erindi sem ekki næst að sinna að deginum af einhverjum ástæðum. Við viljum þó ítreka að okkar markmið er að taka á móti öllum sem þess þurfa á dagvinnutíma fyrir klukkan 16. Við reynum að skrá alla hjá heimilislækni. Okkur hefur tekist það í 80-85% tilvikum en sumir kjósa að vera án skráningar í samlag.“ 

Höfum góða túlkaþjónustu

Nú er margt aðflutt fólk í Breiðholti. Komið frá mörgum og margvíslegum samfélögum og með oft mjög breytilegan bakgrunn frá heimalandi sínu. Hvernig gengur þeim að aðlagast heilbrigðiskerfinu eða ef til vill frekar hvernig heilsugæslunni gengur að ná til þeirra. Nanna Sigríður segir að „Fólk sé vant mismunandi aðstæðum frá sínum fyrri heimkynnum. Þekkja eitt og annað að heiman. Margir virðast vanir því að mæta bara á heilsugæsluna án tímabókunar eins og vani er kannski í heimalandinu.  En kannski spila tungumálaörðugleikar þar inn í, að þessir einstaklingar séu ekki nógu vel kunnugir íslenska heilbrigðiskerfinu. Tæplega einn af hverjum fjórum skjólstæðingum heilsugæslunnar í Efra-Breiðholti er nýbúi, það er hefur búið skemur en 1 ár á Íslandi. Það er töluverð áskorun fyrir okkur að sinna þessum hópi vel. Við höfum áhyggjur af því að margir nýbúar  átti sig ekki nægilega vel hvaða þjónusta heilsugæslan veitir  og hvað hún hefur að bjóða. Því leiti nýbúar og fólk af erlendu bergi meira á læknavaktina eða jafnvel bráðavaktina á LSH þangað sem fólk á ekki að þurfa að fara nema að mjög bráðan vanda beri að. 

Við viljum gjarnan skrá þessa einstaklinga og fjölskyldur hjá heimilislækni eins og aðra skjólstæðinga okkar. Margir nýbúanna tala enga íslensku og litla ensku og þá þurfum við að nýta okkur túlkaþjónustu. Áhersla okkar er á að veita góða túlkaþjónustu því þótt fólk geti bjargað sér á íslensku eða ensku þá getur verið örðugt fyrir það að ræða um hluti eins og sjúkdóma og heilsuleysi á öðru en sínu eigin móðurmáli.“   

Við erum lánsöm að því leiti að við getum langoftast fengið túlka til okkar á staðinn þegar þörf krefur en notum líka símatúlkun í gegnum Bretland í vaxandi mæli. 

Fjórir af fimm riturum stöðvarinnar.

Heilsuveran er nýjung

Nanna Sigríður segir að oft sé mikið álag á símaþjónustu heilsugæslustöðvarinnar  fyrst á morgnana en hægist um eftir klukkan níu. „Fyrir þá sem eiga erfitt með að ná í gegn í síma er gott að nýta sér Heilsuveruna. Þar er bæði hægt að endurnýja lyf, bóka tíma og senda fyrirspurnir til okkar þessa leið. Þessi samskiptamáti hentar þó ekki fyrir brýn erindi þar sem það getur tekið tvo til þrjá daga að fá svör fyrir fyrirspurnum.“ Nanna Sigríður segir að á síðastliðnu ári hafi verið veitt mjög takmörkuð heilsuvernd og viðtalsþjónusta á heilsugæslunni af sóttvarnarástæðum. Nú sé starfsemin, í það minnsta tímabundið en vonandi varanlega, komin í algjörlega eðlilegt horf. „Við beinum þó því til einstaklinga með öndunarfæraeinkenni að vera í símasambandi við okkur áður en komið er á heilsugæsluna til að geta tryggt öryggi þeirra og annarra skjólstæðinga sem best.“

Gerum beiðnir um sýnatökur en sýnatökur og bólusetningar fara fram á Suðurlandsbraut  

Hvað með sýnatökur vegna COVID19. Kemur Heilsugæslan að því máli. „Nei – það verkefni, sýnatökur og bólusetningar vegna faraldursins fara nánast alfarið fram á Suðurlandsbraut 34. En okkur berast fjölmargar fyrirspurnir vegna ferðalaga erlendis og sýnatöku í því skyni. Velkomið er að leita til okkar vegna slíkra erinda og við gerum beiðni um sýnatöku til undirbúnings fyrir vottorð sem framvísað er á landamærum. Einnig veitum við ráðleggingar ef óöryggi er um bólusetningar gegn COVID vegna undirliggjandi sjúkdóma eða ofnæmissögu en það er sjaldgæft að einstaklingum sé ráðið frá bólusetningu. Innköllun og forgangsröðun er hins vegar ekki í okkar höndum heldur alfarið á ábyrgð sóttvarnarlæknis. Ég veit að margir hafa áhyggjur af að missa af sinni boðun í bólusetningu en slíkt verður alltaf auglýst vel í fjölmiðlum og þeir sem ekki eru með farsíma og fá þar af leiðandi ekki boðun með sms-sendingu eiga ekki að lenda í vandræðum. Gleðiefni er að heyra hversu greitt við eigum von á að muni ganga að bólusetja næstu vikur og mánuði og mega einstaklingar 70 ára og eldri sem og þeir með undirliggjandi sjúkdóma vænta þess að fá bólusetningu fyrir sumarið.“

Ólafur Stefánsson einn af sérfræðingum heilsugæslunnar í Efra-Breiðholti. 

Ekkert heilsufarstengt er óviðkomandi

„Heilsugæslan sinnir  eftirliti með fjölmörgum langvinnum sjúkdómum og forvarnarstarfi. Segja má að fátt heilsufarstengt sé heilsugæslunni óviðkomandi. Mæðra- og ungbarnavernd, skólahjúkrun, sykursýkisráðgjöf og eftirlit, lífstílsráðgjöf, ferðamannabólusetningar, öndunarmælingar, sólarhrings-blóðþrýstingsmælingar, járngjafir, aftappanir vegna járnofhleðslusjúkdóma og sáraskiptingar eru dagleg verkefni á höndum hjúkrunarfræðinga heilsugæslunnar. Lífstílsráðgjöfin er einnig í höndum hreyfistjóra en sífellt meiri áhersla er á að nota hreyfingu sem aðalmeðferð eða samhliða annarri meðferð við fjölda sjúkdóma svo sem sykursýki og háþrýstingi.“

Þórunn Anna Karlsdóttir sérfræðingur og kennslustjóri heilsugæslunnar í Efra-Breiðholti ásamt Áslaugu K. Hálfdánardóttur sérnámslækni.

Sýnatökur vegna leghálsskimunar og aðrar nýjungar á heilsugæslunni í Efra-Breiðholti 

Hvað er nýtt í starfinu. „Mér finnst sérstök ástæða er til að kynna ýmsar nýjungar í starfi okkar á þessu ári. Við höfum nú tekið við leghálsskimunum hjá konum á aldrinum 23 til 65 ára. Framkvæmdin á sýnatökunum hefur farið vel af stað hjá okkur og konum á þessum aldri sem hafa fengið boðun í leghálsskimun býðst að bóka sér tíma en það er ljósmóðir stöðvarinnar sem sér um sýnatökuna og þetta tekur örfáar mínútur. Nýr sálfræðingur hefur tekið til starfa hjá okkur og mun sinna námskeiðum í hugrænni atferlismeðferð auk viðtalsmeðferðar. Þeir sem hafa verið á biðlista eftir námskeiði eiga von á að haft verði samband við þá fljótlega. Þá erum við að undirbúa verklag sem beinir sjónum sérstaklega að meðgöngunni, mikilvægi fyrstu ára barnsins og tengslamyndunar við foreldri. Þetta er þverfaglegt verkefni margra stétta á heilsugæslunni, ungbarnaverndar, mæðraverndar, sálfræðinga og heimilislækna.“

Klínískur lyfjafræðingur og öldrunarráðgjöf

Á vormánuðum mun klínískur lyfjafræðingur vera við störf hjá okkur í Efra-Breiðholti og veitir hann ráðgjöf um lyfjanotkun, milli- og aukaverkanir lyfja auk fjölmargra annarra verkefna. Við erum einnig að vekja athygli á og bregðast við langtíma notkun svefnlyfja og róandi lyfja sem í mörgum tilvikum eru hætt að vera einstaklingum gagnleg og jafnvel orðin þeim skaðleg. Um er að ræða ráðgjöf og samtal  en komi til þess að trappa lyfin út er það gert með öryggi einstaklinga í fyrirrúmi. Þessar vikurnar erum við líka að stíga fyrstu skref okkar með formlega öldrunarmóttöku og ráðgjöf sem hjúkrunarfræðingur mun halda utan um og við munum kynna betur á næstu vikum. 

Að lokum vil ég koma því á framfæri við fögnum tillögum og ábendingum frá skjólstæðingum stöðvarinnar þar sem það getur leitt til betri þjónustu“ 

You may also like...