Gaman að sjá framfarirnar
Frá því í haust hefur Heiðrún Kristín Guðvarðardóttir tómstunda- og félagsmálafræðingur tekið á móti börnum innflytjenda í bókasafninu í Gerðubergi og lesið með þeim íslenskar barnabækur. Mikil þörf er greinilega fyrir þjónustu af þessu tagi því færri hafa komist að en vilja.
Um er að ræða tilraunaverkefni í samstarfi við Reykjavíkurborg og hefur verkefnið fengið heitið Vinalestur Heiðrúnar – Lesþjálfun til framtíðar. Í hverri viku tekur Heiðrún á móti einu barni í einu, les með þeim bækur sem þau velja sjálf á safninu. Þegar nóg er lesið fá börnin pappír og liti til að teikna myndir upp úr sögunum.
Fimm ár eru raunar liðin frá því Heiðrún byrjaði fyrst á þessu verkefni. Það var þegar Borgarbókasafnið og Rauði krossinn óskuðu eftir sjálfboðaliðum til að lesa íslensku með börnum innflytjenda. Heiðrún bauð sig fram og var henni komið í samband við sjö ára stelpu frá Víetnam. Svo skemmtilega vildi til að stelpan heitir líka Heiðrún.
Hvött til að halda áfram
Ætlunin var að það verkefni stæði aðeins í einn vetur, en foreldrar Heiðrúnar óskuðu eftir því að hún héldi áfram að lesa með nöfnu sinni. Alls lásu þær tvær saman bækur á íslensku í fimm ár, með þeim árangri meðal annars að Heiðrún yngri fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í íslensku í skólanum.
Það var svo móðir hennar sem hvatti Heiðrúnu eldri eindregið til þess að halda þessu áfram og bjóða fleiri börnum að lesa með þeim íslensku. Fleiri börn bættust í hópinn og voru þau orðin fimm síðasta vetur.
Síðasta vor nefndi Heiðrún þetta við Óskar Dýrmund Ólafsson, framkvæmdastjóra Suðurmiðstöðvar. Hann tók strax vel í málið, enda þörfin óumdeild og öllum ljós. Verkefnið var svo sett í gang nú í haust og nú eru börnin orðin 14. Miðað er við aldurinn 6 til 10 ára og koma börnin síðdegis á virkum dögum, eftir að skóla er lokið. Auk þess að hafa aðstöðu á bókasafninu í Gerðubergi hefur Heiðrún verið líka í samvinnu við Marisku Kappert, verkefnastjóra í Fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi, og haft þar aðstöðu.
Ákveðin í að læra íslenskuna
„Þetta er æðislega gaman,“ segir Heiðrún um vinalesturinn. „Og svo skemmtilegt þegar maður finnur að það er framför hjá þeim sem hafa átt erfitt með að lesa íslenskuna, og það bara á tveimur mánuðum eða varla það. Það er líka gaman að sjá hvað þau hafa mikinn áhuga og eru svo ákveðin í að læra íslenskuna.“
Fyrir utan lestímana skipuleggur Heiðrún upplifunarferðir fyrir krakkana. Til stendur að gera eitthvað saman, fara á söfn og sýningar, jafnvel á tónleika og í leikhús, nokkrum sinnum á hverjum vetri. Og þá koma foreldrar með. Sá hluti verkefnisins er rétt að hefjast, en byrjað var á að hittast í Gerðubergi í hrekkjavökugrímugerð þann 28. október og næst var haldið í Hörpu þann 19. nóvember að heilsa upp á músina Maximus.
Fyrstu önninni fer nú að ljúka og lokahnykkurinn verður sýning á teikningum barnanna í fjölskyldumiðstöðinni laugardaginn 9. desember kl. 14:00. Sýningin er öllum opin.