Hugmyndin er upphaf að öllu

— segir Sólveig Pálsdóttir rithöfundur sem er að gefa út nýja glæpasögu —

Sólveig Pálsdóttir.

Sólveig Pálsdóttir rit­höfundur á Seltjarnar­nesi var að senda frá sér nýja bók. Bókin nefnist Miðillinn og er áttunda bókin sem hún sendir frá sér á ellefu árum. Frá árinu 2013 hefur hún einkum helgað sig ritstörfum. Fyrsta bók Sólveigar, Leikarinn, kom út árið 2012 þegar hún var 52 ára gömul. Fimmta bók hennar, Fjötrar, fékk Blóðdropann 2020, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags, sem besta glæpasaga ársins 2019.  

Nesfréttir hittu Sólveigu í bókasafninu á Eiðistorgi á dögunum og var hún innt eftir um hvað hún væri að skrifa í nýju bókinni. Hún var fljót til svars. Hún væri að skrifa um lögreglumanninn Guðgeir sem hafi fylgt sér að miklu leiti í gegnum rithöfundarferilinn. Hún segir Guðgeir enga erkitýpu. Hann eigi sé enga fyrirmynd í Skandinavískum ofurlöggum á borð við Martin Beck eða Kurt Wallander. Löggur með brotna fjölskyldumynd og önnur vandamál á bakinu. Guðgeir sé sín hugarsmíð að öllu leyti. Hin aðalpersónan er einnig hugarsmíð Sólveigar. Guðrún einstæð tveggja barna móðir. Ættuð að norðan. Mjög hressilega kona sem hafi sínar skoðanir. Sólveig segist ekki hafa mótað lögreglu- eða glæpasögur í huganum áður en hún hóf rithöfundarferilinn.  

Hugmyndin er upphaf að öllu

„Minn ferill hófst ekki á spennu­sagnskrifum. Þegar ég hóf að skrifa þá átti fyrsta bókin mín ekki að verða spennusaga. Í fyrstu var ég bara að leika mér við skriftir og vildi sjá hvað kæmi út úr því. Upphaflega átti fyrsta sagan að verða saga um vandræðagang manns í kringum fertugt. En svo kom ákveðið plott í huga minn og ég varð gríðarlega ánægð þegar ég fékk þá hugljómun.“ Stundum er sagt að í endinum og upphafinu sé að finna lykilinn að góðu plotti í spennusögum. Sólveig segist ekki vinna eftir því. „Ég hef byrjað allar mínar sögur á upphafinu og oft án þess að vita hver endanleg niðurstaða verður. Ég skrifa mig að niðurstöðunni. Hún þróast á leiðinni og verður oft ekki ljós fyrr en líður að sögulokum.“ Sólveig segir að eftir því sem hún hafi skrifað meira hafi hún þjálfast og farið að vinna með markvissari hætti. En hugmyndin sé upphafi að öllu. Síðan þurfi að vinna út frá henni og spinna þráðinn. Án hugmyndarinnar gerist ekki neitt.

Lík í Hólavallagarði

Sólveig sækir efnivið hinnar nýju bókar að einhverju leyti í tíma spíritisma eða andatrúar sem var algeng hér á landi um miðja og upp úr síðustu öld. „Já ég geri það og ein af aðalsögupersónunum er Valþór sem er miðill. Upphaf sögunnar er að lík af eldri konu finnst í Hólavallagarði. Hún liggur þar á köldum febrúarmorgni og engin skýring finnst á því hvað hafi gerst. Þessi kona sem hét Arnhildur hafði lifað mjög vanaföstu lífi og umgengist fáa. Er þarna var komið sögu var hún hætt að vinna. Hún á dóttur sem býr á sambýli og systur og mág sem búa í Hveragerði. Eftir stutta rannsókn kemur í ljós að hún var að leiðinni heim af miðilsfundi þegar hún mætti örlögum sínum. Arnhildur bjó í rauðmáluðu húsi í gamla Vesturbænum þar sem leigjendur í húsinu og nágrannar hennar koma við sögu. Þegar betur er farið að grennslast fyrir um fortíð þessarar konu fer ýmislegt að koma í ljós sem Valþór miðill tengist. Ýmsir þræðir fara að vakna upp.“ Sólveig vill eðlilega ekki fara of nákvæmlega út í þá. Ekki skemma fyrir væntan­legum lesendum. Hún segist fara aðeins inn á dulrænar slóðir án þess þó að missa jarðtenginguna. „Spíritismi eða andatrú var algeng um og upp úr miðri síðustu öld. Áhrif hennar hurfu að mestu en ég náði þó aðeins í skottið á þessari hugmyndafræði. Ég var í sveit austur í Skaftafellssýslu og systir bóndans á bænum var skyggn. Íslendingar lokuðu nánast á þetta. Andatrúin þótti bara kjánalegt. En mig langaði að fara aðeins inn á þetta svið í skáldsögu en fannst ekki jarðvegur fyrir það fyrr en nú. Fólk er aðeins að opna sig aftur fyrir andlegum hlutum.“ Sólveig þvertekur fyrir að bókin fjallið um spíritismann þótt hann komi við sögu. Hún kveðst hafa prufað að fara á miðilsfundi fyrir mörgum árum og einnig farið á skyggnilýsingar fyrir mörgum árum. „Þegar ég fór að vinna rannsóknarvinnu fyrir bókina og fór meðal annars leita á netinu komst ég að því að fólk er að pæla í þessum hlutum. Meira en ég hélt.“

Úr Hólavallagarði sem er sögusvið nýrrar skáldsögu Sólveigar.

Persónurnar þróast og þroskast

Sólveig segir glæpasögur gefa möguleika á samfélagsrýni. Sér finnist skemmtilegt að fara inn á hin og þessi svið og skoða hliðar samfélagsins í rannsóknarvinnunni sem sé undanfari sjálfrar skáld­sagna­gerðarinnar.  Sólveig kveðst hafa skrifað þessa bók nokkuð hratt. Hún hafi fengið aðstöðu í Frakklandi um tíma og reynt að nýta hann vel. „En sagan kom líka svo sterkt til mín og ég hafði mikla ánægju af að vinna að henni.“ Sólveig kveðst vera búin að fá viðbrögð frá mörgu fólki sem sé búið að lesa bókina. Þessi viðbrögð séu á einn veg. Sagan sé hörku spennandi. „Verst ef ég get ekki gengið í gegnum Hólavallagarð án þess að upplifa mystíkina í henni. En ég hef alltaf unnið þannig að vera alltaf með mismunandi sögusvið og farið vítt og breytt um landið sem mér hefur fundist skemmtilegt. En í þessari bók held ég mig að mestu við Reykjavík með smá viðkomu í Hveragerði og á Snæfellsnesi. En Hólavallagarður og gamli Vesturbærinn er gott sögusvið. Þótt ég hafi flutt mig í höfuðborgina að þessu sinni þá eru aðalpersónurnar í bókinni þær sömu og í mínum fyrri bókum. Þau fá bara nýtt efni til þess að fást við. Guðgeir, Guðrún og Særós sem er yfirmaður þeirra. Særós er sérstök. Hún er ein af þeim sem alltaf er með allt á hreinu. Alltaf hörð við sjálfa sig. Hún stundar sjósund og hleypur. Hún mælir líka allt sem hún gerir. Hún mælir blóðsykurinn. Hún mælir svefninn auk þess að vera aðeins ósveigjanleg, svona ferköntuð en ekki slæm. En með áhuga á að hafa vit fyrir fólki. Guðgeir er öðruvísi en ljúfur maður sem getur þó beitt sér ef þess þarf. Konan hans er lögfræðingur og ég blanda alltaf svolitlu af heimilislíf með. Þessar persónur mínar hafa allar þroskast og þróast í gegnum bækurnar. Eins og við gerum sjálf í daglega lífinu.“

Fjölhæf á sviði lista

Sólveig hefur búið á Seltjarnarnesi til fjölda ára og ætíð gefið mikið af sér til menningarmála í bæjarfélaginu. Hún var meðal annars formaður menningarnefndar í átta ár, á árunum 2002 til 2010 og kom á þeim tíma mörgum góðum menningartengdum verkefnum á koppinn. Sólveigu hefur enn fremur í gegnum tíðina verið trúað fyrir ýmsum störfum í nefndum og fagráðum er varða listir og menningu innan og utan Seltjarnarness. Ekki er ofsögum sagt að Sólveig er fjölhæf á sviði lista, skapandi greina og miðlunar. Hún er í menntuð í leiklist frá Leiklistarskóla Íslands og starfaði sem slík auk þess að vera dagskrárgerðarmaður hjá RÚV um árabil. En nú hefur hún snúið sér að skriftum af fullum krafti. En ætlar hún að halda áfram. „Ég er núna að kynna nýju bókina. Lesa upp úr henni sem tilheyrir útgáfunni. Ég býst við að fljótleg fari ég að huga að nýjum skrifum. Ég er þegar farinn að hugsa og eftir áramótin er ég viss með að opna tölvuna og setjast niður,“ segir Sólveig að lokum.  

You may also like...