Öldungaráð og félag eldri borgara á Seltjarnarnesi

Öldrunarráð

Undirbúningsnefnd til stofnunar öldungaráðs á Seltjarnarnesi hefur verið sett á fót og hefur nú komið saman á einum fundi.

Öldungaráð er hugsað sem tengiliður milli kjörinna fulltrúa sveitarfélags og félags eldri borgara bæjarfélagsins. Verkefni öldungaráðs bæjarins mun öðru fremur felast í því að móta stefnu bæjarins í málefnum aldraðra og takast á við þau verkefni sem fyrir liggja í því skyni að bæta aðbúnað og þjónustu við þennan hóp íbúa. Á fyrsta fundinum var einnig rætt um það að hefja skyldi undirbúning að stofnun félags eldri borgara á Seltjarnarnesi og í framhaldinu yrði stofnað öldungaráð.

Stofnun öldungaráðsins má rekja til íbúaþing um málefni eldri bæjarbúa á Seltjarnarnesi sem fjölskyldunefnd Seltjarnarness boðaði til í Félagsheimili Seltjarnarness laugardaginn 28. mars síðastliðinn. Á fundinum var m.a. leitað svara við því hvernig Seltjarnarnesbær geti skarað fram úr í málefnum eldri bæjarbúa almennt séð. Einnig var varpað fram spurningum um hver aðkoma sveitarfélagsins, félagasamtaka og íbúa sé til að markmiðum verði náð. Þátttakendur mynduðu níu hópa með borðstjóra, sem stjórnaði umræðunni og skráði niður helstu niðurstöður. Í kjölfar íbúafundarins í aprílbyrjun kom fram mikill áhugi á að stofna öldungaráð innan sveitarfélagsins. Kannanir Capacent meðal sveitarfélaga á landinu hafa sýnt fram á að ánægja aldraðra íbúa á Seltjarnarnesi mælist sú hæsta á landinu. Það er staðreynd að öldruðum á Íslandi er að fjölga og með hinu nýja ráði vill Seltjarnarnesbær tryggja íbúum öruggt ævikvöld og ekki síður að virkja þann kraft og þá auðlind sem í þessum hópi bæjarbúa býr.

You may also like...