Börnin eru þungamiðjan í skólastarfinu

Jonina Agustsdottir 1

Jónína Ágústsdóttir skólastjóri í Breiðholtsskóla.

Jónína Ágústsdóttir tók við skólastjórn Breiðholtsskóla haustið 2012. Hún er uppalin í Kópavogi og starfaði að loknu námi við Hjallaskóla hjá Stellu Guðmundsdóttur skólastjóra sem hún segir eina helstu fyrirmynd sína í skólastarfi. Jónínu langaði þá að breyta til. Að reyna fleira og fluttist til Suðurnesja þar sem hún tók við stjórn nýs skóla sem verið var að koma á fót í Reykjanesbæ nánar tiltekið í Innri Njarðvík. Þar tók við verkefni að byggja skóla upp alveg frá grunni nokkuð sem Jónína kveðst ekki viljað hafa misst af. Hún fluttist til Reykjanesbæjar. Hún kveðst telja nauðsynlegt fyrir skólastjóra að búa í bæjarfélaginu þar sem að hann starfar. Öðruvísi komist hann ekki inn í samfélagið. Hún viðhafði sömu aðferð þegar hún tók við skólastjórn í Breiðholtinu. Þá flutti hún einnig heimili sitt í borgarhlutann. Jónína spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.

En af hverju Breiðholtið. „Það sem mér þótti og þykir einna áhugaverðast við Breiðholtið er hversu gróið umhverfið er og nálægðin við Elliðaárdalinn. Ég er náttúrufræðikennari og sá hversu Breiðholtið er vel fallið til útikennslu. Ég fór töluvert í vettvangsferðir í Elliðaárdalinn með nemendur þegar ég kenndi í Kópavogi og ég held að það sé ekki hægt að hugsa mér betra kennslusvæði en hann. Náttúrufræðin er í mínum huga mikilvæg námsgrein og ég hef ekki orðið vör við annað en að krökkunum finnist áhugavert að læra um náttúruna og umhverfi sitt.“

Áhugavert að hafa börn af mörgum þjóðernum

Jónína segir annað einnig einkenna Breiðholtið. Það sé mannauðurinn í byggðarlaginu. „Ég kem upphaflega úr Hjallaskóla í Kópavogi sem er móttökuskóli fyrir nýbúa. Þegar ég starfaði þar voru töluð allt að 40 tungumál í skólanum og því þekki ég vel til fjölmenningar. Mér fannst því áhugavert að koma til skóla þar sem börn af mörgum þjóðernum og menningarheimum stundar nám. Eftir að ég fór að kynnast skólanum, umhverfinu og fólkinu hér finnst mér mjög ánægjulegt hversu fólkið í hverfinu hugsar vel um skólann sinn. Fólk kemur í skólann og vill fylgjast með. Nú eru að fara af stað verkefni í sambandi við lestrarátakið að fá fólk úr hverfinu til þess að koma og aðstoða við lestrarkennsluna. Þetta er komið af stað í einhverjum grunnskólum og hjá okkur er ætlunin að taka þetta upp.“

Finn fyrir miklum metnaði hjá fólki

„Mér finnst að framundan séu spennandi tímar í skólamálum í Breiðholtinu,“ heldur Jónína áfram. „Ég finn fyrir miklum metnaði hjá skólafólki þá er ég að tala um alla heildina. Leikskólana, grunnskólana, framhaldsskólann og frístundastarfið. Nú erum við á leið inn í stórt samstarfsverkefni sem er að efla læsi og fengið heitið Læsi allra mál. Dröfn Rafnsdóttir sem starfar í hlutastarfi Þjónustumiðstöð Breiðholts hefur stýrt þessu og unnið að formgerð verkefnisins Dröfn starfaði um tíma á Suðurnesjum líkt og ég og þar lágu leiðir okkar saman og við áttum gott samstarf. Ætlunin er m.a. að fjölga skimunum til þess að fylgjast betur með stöðu hvers nemanda. Þá getum við gripið inn í með snemmtækri íhlutun eftir þörfum. Við þurfum líka að skoða hvernig börnin eru að koma frá leikskólanum inn í grunnskólann og fara yfir hvaða aðferð eða aðferðir henta best við lestrarkennsluna. Við höfum verið að innleiða kennsluaðferðina Byrjendalæsi en einnig aðra aðferð – svonefnda PALS aðferð sem er skammstöfum fyrir enska heitið Peer assistand learning strategies sem hlotið hefur nafnið Pör að læra saman, kennsluaðferð sem hefur reynst árangursrík til að þjálfa lesfimi og lesskilningsaðferðir í blönduðum bekkjardeildum. Þar er verið að vinna með hljóðgreiningu og hljóðkerfisvitund. Við verðum að halda áfram að lesa fram eftir aldri. Ég er mjög bjartsýn á að þetta gangi eftir. Við þurfum að kynna foreldrum þetta og fá þá í lið með okkur og afar og ömmur geta líka haft miklu hlutverki að gegna. Mín von er að það skapist mikil og góð vitundarvakning í samfélaginu Breiðholti sem annars staðar. Við fullorðna fólkið verðum að sýna gott fordæmi með því að taka okkur bók í hönd og lesa sjálf. Ég .hef mikinn áhuga á að fá fólk sem hætt er störfum á vinnumarkaði til þess að koma í skólann til okkar og hlusta á krakkana lesa Ég kem þessu hér með beint á framfæri og bið þá sem áhuga kunna að hafa að hafa samband við mig eða Gyðu deildarstjóra. Ég hef gaman af að fá fólk til mín og mér finnst gaman þegar ég skynja væntumþykju um skólann. Það skilar sér í skólastarfinu.“

Þjóðarvitund um lestur

Jónína segir að þjóðarvitund verði að koma til þegar lestrarkunnátta er annars vegar. Reykjavíkurborg hafi ákveðið að efna til átaks og þegar komi að börnum af erlendum uppruna og tvítyngdum börnum þurfi einnig að huga að móðurmáli þeirra. „Málið er að mikla nauðsyn ber til að börn af erlendu bergi brotin fái einnig kennslu í sínu móðurmáli. Foreldrarnir tala sitt móðurmál við börnin en ef börnin fá enga aðra kennslu þá er hætt við að þau læri ekki að lesa og skrifa texta á móðurmálinu. Þegar ég starfaði í Reykjanesbæ þá fengu krakkar af erlendu bergi kennslu í sínu eigin móðurmáli auk kennslu í íslensku og ensku þegar kemur að henni í grunnskólakerfinu.“

Heilsueflingin er stórt mál

Jónína víkur að öðru verkefni sem hún segir bæði stórt og þarft í Breiðholtinu. Það er verkefni sem nú er að fara af stað og kallast Heilsueflandi samfélag Þarna sé Breiðholtið í fararbroddi til þess að hvetja til þess að fólk hugi að heilsu sinni og aðhyllist jákvæðan lífsstíl. „Við fengum krakkana í lið með okkur og nýttum okkur líka niðurstöður úr mjög góðri rannsókn Háskólans á Akureyri sem gerð var um heilsu og líðan barna. Það kom ýmislegt fram sem við gætum breytt í Breiðholtsskóla. Við sýndum krökkunum niðurstöðurnar og báðum þá um að koma fram með hugmyndir um hvað þeir vildu gera til þess að bæta heilsu og líðan sína. Þetta voru eldri krakkar en við eigum eftir að fara lengra niður aldursskalann – í yngri bekkina og fá hugmyndir þaðan.

Sárt þegar krakkar fara ekki í frístundastarf

„Mér finnst frábært að fá tækifæri til að koma að þessu. Það snertir krakkana engu síður og jafnvel enn meir en þá fullorðnu,“ heldur Jónína áfram, „Mér hefur til dæmis þótt sárt að sjá krakka sem fara ekki í neitt frístundastarf eftir skóla. Þetta eru börn niður í annan og þriðja bekk og mér finnst þetta alls ekki forsvaranlegt. Það eru ekki margir og oftast engir heima á heimilunum á þessum tíma dags og við þurfum að finna leiðir til þess að fá þessa krakka inn í frístundastarfið. Það skiptir nefnilega máli hvað krakkarnir eru að gera á daginn. Námsárangur er mál samfélagsins í heild. Mér finnst ég finna fyrir vaxandi hugsun í þessa veru bæði hjá skólafólki og hjá foreldrum. Skólafólk hefur metnað til þess að gera vel og margir hafa verið að leita sér aukinnar þekkingar til viðbótar þeirri reynslu sem þeir hafa öðlast í starfi.“

Samfélagið er orðið miklu flóknara

Jónína segir miklar samfélagsbreytingar á undanförnum árum geri vaxandi og nýja kröfur til skólastarfsins. „Samfélagið er orðið svo miklu flóknara en það var fyrir ekki lengri tíma en tveimur áratugum. Upplýsingabyltingin hefur breytt mörgu og við verðum að staldra aðeins við og hugsa hlutina upp á nýtt. Þetta snertir bæði kennsluhætti og einnig betri að stöðu í skólunum. Lengi vel gátu kennarar tæpast sest niður í skólunum til annarra starfa því skólarnir voru tvísetnir og jafnvel þrísetnir. Lítil eða engin aðstaða var fyrir hendi. Með auknum kröfum um viðveru kennara utan kennslustunda hefur þetta aðeins verið að breytast til batnaðar. Gamla kennarastofan fullnægir ekki lengur kröfum um aðstöðu fyrir kennara. Við þurfum að huga að því að ef við ætlum að stuðla að lærdómssamfélagi í grunnskólunum þá þurfum við að skapa aðstæður fyrir kennara til þess að læra og ígrunda eftir að kennslu lýkur á daginn. Það er grundvallaratriði svo skólaþróun eigi sér stað. Það eru búnar að vera miklar umræður um húsnæði Breiðholtsskóla og endurbætur sem þörf er á. Það mál er komið á dagskrá en ég get líka bent á mjög góða hluti. Við erum með frábæran samkomusal og Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts hefur aðstöðu í skólanum hjá okkur. Hjá okkur eru líka kennslustundir í hljóðfæraleik á skólatíma. Þetta starf eykur lífsgæði barnanna í Bakkahverfinu.“ Jónína rifjar upp gömlu klisjuna um að heilt þorp þurfi til þess að ala upp barn. „Hún er alls ekki svo fjarstæðukennd þegar á allt er litið. Börn þurfa að hafa eitthvað fyrir stafni frá því að þau vakna á morgnana og fram eftir degi. Því er mikilvægt að þeim standi til boða að taka þátt í íþrótta- eða tómstundastarfi.“

Samstarfið eflir okkur

Jónína nefnir samstarfið við hina skólana í Breiðholti. Segir það gott. „Þegar við hófum endurskoðun skólanámskrárinnar með tillit til nýrrar námskrár ákváðu allir skólastjórnendurnir að vinna það saman. Samstarfið gerir ekkert annað en að efla okkur og hvetja til þess að gera enn betur. Með þessu er ég ekki að segja að skólarnir í Breiðholti eigi að vera einsleitir. Hver skóli getur haft sína sérstöðu þótt samstarfið sé fyrir hendi.“ Jónína nefnir að efnt hafi verið til samvinnu grunnskólanna í Breiðholti vegna vinnu við námsviðmið fyrir fjórða og sjöunda bekk. „Við fengum kennara úr öllum skólunum til þess að mynda hópa fyrir öll greinasviðin. Menntamálaráðuneytið óskaði síðan eftir því að fá fulltrúa kennara úr öllum grunnskólum Breiðholts til þess að sitja í nefnd sem vann að gerð þessara námsviðmiða hjá ráðuneytinu. Við erum afar stolt af því. Vinna af þessu tagi tekur lengri tíma og gerir stjórnunin flóknari en á móti kemur að árangurinn verður miklu meiri. Annað skemmtilegt dæmi um það hvernig við getum bætt skólastarfið með því að fá fulltrúa allra til þess að innleiða breytingar var þegar við settum á laggirnar matarráð en það var þegar við vildum auka ánægju nemenda með mötuneytið. Ráðið var skipað fulltrúum foreldra, nemenda og starfsmanna sem settu fram ýmsar breytingar en þar var þáttur foreldra mjög mikill. Krakkarnir í mínum skóla voru ekki ánægð með mötuneytið og þá nýttum við þessa aðferðafræði til þess að fá þá til þess að koma með hugmyndir um hverju þau vildu breyta og bæta. Við erum líka búin að taka bókasafnið fyrir og breyta skipulagningunni þar. Við erum ekki lengur með sérstaka tölvutíma heldur samþættum við tölvufræðsluna við bóklegar greinar þar sem kennarar og nemendur vinna saman m.a. annars að því hvernig nýta eigi tölvutæknina til þess að leita heimilda, vinna úr þeim og skapa úrlausnir fyrir verkefni. Síðan þurfa krakkarnir að kynna verkefnin og standa fyrir framan aðra nemendur og foreldra. Það er svolítið háskólabragð að þessu. Svona litla meistaravörnin“

Börnin eru þungamiðjan í skólastarfinu

Jónína segir að hugmyndin um öndvegisskóla hafi orðið til við samstarf grunnskólanna. Að markmiðið hafi verið tvíþætt. Annars vegar að hver og einn skóli setji eitt verkefni í öndvegi í hverjum árgangi. Hins vegar sé um að ræða öndvegisbúðir þar sem boðið er uppá sérhæfð námskeið sem eru sameiginleg fyrir nemendur í einum árgangi allra skólanna og skal a.m.k. eitt námskeið haldið í hverjum skóla fyrir sig. En þarna eru það ekki bara kennararnir sem ráða heldur eru ákvarðanir teknar sameiginlega af kennurum og nemendum.“ Jónína nefnir ýmsar hugmyndir að viðfangsefnum fyrir öndvegisverkefni. Ein er tengd náttúruvernd og unnin í samstarfi við samtökin Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs. Önnur verkefni tengjast uppfærslu á söngleik, leiksýningum, upplýsingamennt, stærðfræði og vísindum. Það er gaman að segja frá því að á síðasta skólaári voru tuttugu leiksýningar í boði nemenda.“

Menningarmót í Breiðholtsskóla

„Það hefur verið mikil gerjun í skapandi listastarfi. Þar njótum við kennara sem lengi hefur starfað við skólann. Hún er mjög góður leikstjóri og eru þessi verkefni nú um helmingur af starfi hennar. Við höfum einnig verið að reyna að fá hina skólana í Breiðholtinu með í forritun. Við höfum boðið krökkunum á unglingasstíginu upp á að forrita vélmenni byggðu úr legokubbum. Forritunin er gott verkefni fyrir ungmennin hvort sem er í skólanum, í félagsmiðstöðvunum eða bara í bílskúrnum heima. Mannauðurinn er allt í kringum okkur. Það þarf bara að finna hann og virkja ef hann kviknar ekki af sjálfu sér. Og nú stendur fyrir dyrum að halda menningarmót fyrir Bakkahverfið í Breiðholtsskóla að frumkvæði foreldris í hverfinu laugardaginn 31. október. Við ætlum að fá allan þann fjölbreytileika sem er að finna í Bökkunum þar sem hver kynnir eitthvað frá sínu landi. Það getur verið matur, klæðnaður, tónlist, dans eða annað sem fólk vill koma með og kynna. Mér finnst að sumt fólk sem kemur erlendis frá haldi sig meira frá skólanum en heimafólkið. Það á þó ekki við um alla en fólk getur verið vant öðrum samskiptaformum en við viljum hafa og haldi sig til hlés. Þetta er samstarfsverkefni milli foreldra barna í Breiðholts-skóla og í leikskólunum í Bökkunum en þess má geta að verkefnið hlaut styrk frá hverfisráði Breiðholts,“ segir Jónína að lokum.

You may also like...