Miðberg fékk hvatningarverðlaunin

Starfsfolk Midbergs 1

Frístundamiðstöðin Miðberg fékk hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs fyrir verkefnið Tómstundamenntun sem miðar að því að gera unglingum í Breiðholti grein fyrir því hvernig þeir geta notað frítímann betur. Hvatningarverðlaunin voru afhent á árlegri fagráðstefnu starfsfólks frístundamiðstöðvanna í borginni sem haldin var í Gerðubergi nýverið undir yfirskriftinni Höfuð í bleyti. Skúli Helgason formaður og Eva Einarsdóttir fulltrúi í ráðinu afhentu verðlaunin.

Hafsteinn Vilhelmsson starfsmaður í frístundamiðstöðinni Miðbergi fékk sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt framlag í starfi kvikmyndaklúbba fyrir 3. til 4. bekk í frístundaheimilum, hæfileikakeppnina Breiðholt got talent og tækni og tækjadeild Miðbergs. Hafsteinn hefur verið frumkvöðull í að kynna kvikmyndagerð fyrir börnum á frístundaheimilum þar sem börnin læra að búa til stuttmynd, fara frá hugmynd til framkvæmdar og uppskera verkefnisins er í formi kvikmynda-hátíðar. Þá er hann lykilmaður í einum af stærstu viðburðum frí-stundamiðstöðvarinnar Miðbergs sem er hæfileikakeppni barna- og unglinga sem kallast Breiðholt got talent. Keppnin var fyrst haldin árið 2009 og hefur vaxið og dafnað með árunum.

Samstarf við grunnskólana

Forstöðumenn og aðstoðarforstöðumenn félagsmiðstöðva Miðbergs fóru í samstarf við grunnskólana í Breiðholti um að hitta alla nemendur í 8. og 9. bekk í fjögur til sex skipti. Verkefnið byggir á þeirri hugmyndafræði að það að hafa nægan frítíma bætir ekki lífsgæði nema að honum sé varið á árangursríkan hátt. Miðberg fór í samstarf við Vöndu Sigurgeirsdóttur lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ sem leiðbeindi starfsfólki við þróun og framsetningu verkefnisins.

Rós í hnappagat

Hvatningarverðlaunin skóla- og frístundaráðs eiga að veita starfsfólki hvatningu í starfi og stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi. Verðlaunin eru rós í hnappagat starfsins sem þau hlýtur, viðurkenning á vel unnu verki í þágu barna og foreldra og staðfesting þess að starfið sé fyrirmynd annarra á því sviði sem um ræðir.

29 málstofur

Þegar hvatningarverðlaunin höfðu verið afhent á fagráðstefnunni í Gerðubergi flutti Vigdís Jakobsdóttir aðjúnkt við Listaháskólann fróðlegt erindi um gildi lista og skapandi starfs í frítímanum. Síðan var boðið upp á 29 málstofur í fjórum lotum þar sem fjallað var um fjölbreytt verkefni og viðfangsefni frístundamiðstöðvanna og miðlað á jafningagrundvelli. Meðal þess sem fjallað var um í málstofum var vináttufærni, upplýsingatækni í frístundastarfi, jafnréttisstarf, forvarnir, útileiki, spunaspil og nemendaráð.

You may also like...