Af aðstöðumálum ÍR

ir-ithrottavollur-2-1

Fyrirhugaður frjálsíþróttavöllur á ÍR svæðinu neðst í Seljahverfinu.

Undanfarnar vikur hefur verið lífleg umræða meðal íbúa í Breiðholti, í fjölmiðlum, meðal félagsmanna ÍR og í borgarkerfinu um aðstöðuuppbyggingu fyrir íþróttastarf ÍR í Suður-Mjódd og hugsanlega úthlutun lóðar fyrir bílaumboð syðst í Mjóddinni.

Yfirlýsing aðalstjórnar ÍR

Vegna þessa birti aðalstjórn ÍR eftirfarandi yfirlýsingu á heimasíðu félagsins sem var samþykkt á fundi aðalstjórnar ÍR 28. september 2016. „Aðalstjórn ÍR fagnar stuðningi og áhuga Breiðholtsbúa sem fram hefur komið á íbúðafundum nýlega um að hafist verði handa sem allra fyrst við byggingu íþróttamiðstöðvar fyrir ÍR. Aðalstjórn ÍR lítur svo á að samþykkt borgarráðs frá 15. september 2016 um stofnun starfshóps borgarinnar og ÍR um framtíðaruppbyggingu á ÍR svæðinu sé mikilvægt skref til að flýta upphafi framkvæmda við íþróttamiðstöðina. Jafnframt ítrekar stjórnin andstöðu sína við hugmyndir um að skerða svæðið í Suður-Mjódd sem hingað til hefur verið skilgreint sem útivistarsvæði samanber yfirlýsingu stjórnarinnar frá 11. mars 2016.“

Staða aðstöðumála ÍR

Hér eru upplýsingar frá ÍR um hvað hefur verið að gerast á undanförnum mánuðum og hvað er framundan í aðstöðuuppbyggingu fyrir félagið. Starfshópur um framtíðaruppbyggingu á ÍR-svæðinu er að störfum ÍR-ingar hafa undanfarna mánuði verið í óformlegum viðræðum við borgarstjóra og embættismenn Reykjavíkurborgar um framtíðaruppbyggingu á ÍR-svæðinu. Þær viðræður leiddu til þess að borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum 15. september sl. að skipa starfshóp til að vinna að framtíðarútfærslum á íþróttaaðstöðu fyrir ÍR á svæði félagsins. Starfshópurinn hefur þegar haldið fjóra fundi en hann skipa fulltrúar frá Reykjavíkurborg og ÍR. Til skoðunar er bygging íþróttamiðstöðvar ÍR, stefna um framtíðarskipulag á svæðinu, uppbyggingu valla og tilheyrandi áhorfendasvæða, búningsaðstöðu, félagsaðstöðu og aðstöðu fyrir almenning til hreyfingar. Stefnt er því að nefndin ljúki störfum í febrúar 2017.

Frjálsíþróttavöllur

Jarðvegsfarg sem er 1,5m á þykkt liggur nú ofan á frjálsíþróttavallarsvæðinu suðvestan við núverandi velli. Undirbúningur útboða í vallargerðina sjálfa og 400 fermetra vallarhús er á lokastigi og stefnt að undirbyggingu vallarins og uppsteypu vallarhús sumarið 2017 og lagningu gerviefnis og vígslu vallarins sumarið 2018. Völlurinn verður sex brauta allan hringinn með átta brautum á beinni braut. Tvær hlaupabrautir verða upphitaðar sem hægt verður að nýta allan ársins hring. Reykjavíkurborg kostar framkvæmdina.

Malarvöllur verður grasvöllur

Gras hefur verið lagt á gamla malarvöllinn á ÍR-svæðinu. Nýi grasvöllurinn verður tilbúinn til notkunar næsta vor og er ætlaður til æfinga fyrir alla knattspyrnuflokka félagsins og sem æfingasvæði meðan skipt verður um gras á gervigrasvelli ÍR næsta sumar. Reykjavíkurborg kostar framkvæmdina.

Gervigras endurnýjað

Skipt verður um gras og gúmmífyllingu á gervigrasvelli ÍR næsta sumar eða tveimur árum fyrr en áætlað hafði verið. Lagt verður nýjasta gerð gervigrass með gúmmífyllingu sem stenst ítrustu kröfur. Reykjavíkurborg kostar framkvæmdina.

Manir og æfingasvæði

ÍR hefur samið við byggingaraðila sem reisa íbúðablokkir við Árskóga um að taka jarðveg úr grunnum húsanna inn á svæði félagsins. Jarðvegurinn verður nýttur sem uppfylling í æfingasvæði vestan við gervigrasvöllinn og til að útbúa manir til að afmarka ÍR-svæðið.

Rekstur íþróttahúsa

ÍR tók við rekstri íþróttahúss Breiðholtsskóla 1. september s.l. Meginstarfsemi fimleika hjá ÍR og íþróttaskóla 2-5 ára hefur verið flutt í Breiðholtsskóla. Stefnt er að því að næsta haust fái ÍR alla æfingatíma í Breiðholtsskóla fyrir starfsemi sína sem hingað til hafa margir verið leigðir til einkaaðila. Íþróttahús Breiðholtsskóla er þriðja íþróttahúsið í hverfinu sem ÍR tekur við rekstri á, en fyrir rekur félagið íþróttahúsin við Austurberg og Seljaskóla auk ÍR-heimilisins.

Undirheimar félagsaðstaða

Sjálfboðaliðar handknattleiksdeildar eru nú langt komnir með að útbúa félagsaðstöðu í Undirheimum í kjallara íþróttahússins við Austurberg. Nýting rýmisins er hafin þó ekki sé búið að ljúka framkvæmdum. Verkið var unnið að mestu í sjálboðavinnu en efni kostað af Reykjavíkurborg.

Boltageymsla

Sjálfboðaliðar knattspyrnudeildar hafa nýlega lokið við að útbúa boltageymslu í gámahúsi við enda gervigrasvallarins.

Snyrting ÍR-svæðis

Næsta vor verður hafist handa við að snyrta ÍR-svæðið m.a. með lagningu gervigrass á göngustíga og í kringum áhorfendasvæði við aðalleikvanginn fyrir knattspyrnu. Þá verður einnig séð til þess að kröfum um aðstöðu vegna leikja meistaraflokks karla í knattspyrnu í 1. deild verði fullnægt. Reykjavíkurborg mun kosta þessar framkvæmdir.

Endurnýjun parketgólfa í Seljaskóla og Austurbergi

Íþróttagólfin í Seljaskóla og Austurbergi verða slípuð, endurmerkt og lökkuð á næstu sumar. Reykjavíkurborg kostar framkvæmdina.

Lyftingaaðstaða fyrir allar deildir ÍR

Stefnt er því að koma upp lyftinga- og þrekæfingaaðstöðu fyrir allar deildir félagsins í íþróttasalnum í kjallara ÍR-heimilisins. Unnið er að fjármögnun á kaupum á tækjum með umsóknum um styrki frá opinberum aðilum og einkaaðilum.

Aðstaða fyrir bardagaíþróttir í Efra-Breiðholti

Í samráði við Reykjavíkurborg er nú leitað að hentugu húsnæði til að koma upp aðstöðu fyrir júdó, karate og taekwondo á vegum ÍR í Efra-Breiðholti. Ef það tekst eykst fjölbreytni þeirra íþrótta sem ÍR getur boðið upp á í Efra-Breiðholti.

Aðstaða fyrir keilu í sjónmáli

Keiludeild ÍR vinnur nú að því í samstarfi við önnur Reykjavíkurfélög, ÍBR og Reykjavíkurborg að koma upp keilubrautasal sem sérstaklega yrði rekinn sem æfinga- og keppnissalur fyrir Reykjavíkurfélögin með stuðningi Reykjavíkurborgar.

Rekstur skíðaskála

Rekstur skíðaskála ÍR í Bláfjöllum hefur reynst skíðadeild ÍR þungur baggi á undanförnum árum. Unnið er að lausn rekstrarvanda skálans og m.a. leitað leiða til að leigja skálann til ferðaþjónustuaðila utan þess tíma sem skíðatímabilið stendur yfir.

Stuðningur Breiðholtsbúa og Reykjavíkurborgar mikilvægur

Eins og hér kemur fram er baráttan fyrir bættri aðstöðu stöðugt í gangi og fjölþætt. Því er öflugur stuðningur íbúa hverfisins, eins og áberandi hefur verið undanfarnar vikur, við baráttuna fyrir bættri aðstöðu gríðarlega mikilvægur og þakkarverður. Síðan þarf að vera traust og trúverðugt samstarf á milli ÍR og Reykjavíkurborgar sem er aðalstuðningsaðili félagsins í aðstöðuppbyggingu og rekstri þess. ÍR-ingar fagna öllum skrefum stórum sem smáum sem tekin eru til aðstöðubótar fyrir iðkendur félagsins.

Þráinn Hafsteinsson, íþróttastjóri ÍR

You may also like...