Stórsamningur Reykjavíkurborgar og ÍR

Miklar framkvæmdir verða á ÍR-svæðinu á næstu árum. Byggt verður knatthús, íþróttahús og fimleikahús auk annarra framkvæmda á svæðinu samkvæmt samningi Reykjavíkurborgar við ÍR. Á myndinni skrifa Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík og Ingigerður Guðmundsdóttir, formaður ÍR undir samning um uppbyggingu og rekstur hinna nýju mannvirkja.

Gengið hefur verið frá samningi á milli Reykjavíkurborgar og ÍR um uppbyggingu íþróttamannvirkja og íþróttastarfs í Breiðholti. Samkvæmt samkomulaginu mun Reykjavíkurborg byggja knatthús á ÍR-svæðinu sem ÍR mun reka samkvæmt sérstökum rekstrarsamningi. Áætlað er að framkvæmdum við húsið verði lokið árið 2018 en hönnun hefjist á þessu ári.

Þá byggir Reykjavíkurborg einnig íþróttahús með löglegum handknattleiks- og körfuboltavelli fyrir æfingar og keppnir á vegum ÍR ásamt viðbyggingum vegna búningsklefa og bættrar félagsaðstöðu fyrir félagið, auk endurbóta á núverandi félagsheimili. Áætlað er að húsið verði tekið í notkun árið 2020 og að hönnun hefjist 2018.

Knatthús, íþróttahús og fimleikahús

Þjónustuhús mun rísa við frjálsíþróttavöllinn og verður skipulag endurskoðað í því ljósi, sem og vegna göngutenginga við önnur mannvirki. Byggingarreitir fyrir viðbyggingu við félagshús vegna bættrar félagsaðstöðu og fleiri búningsklefa, knatthúss og íþrótta- og keppnishúss, knattspyrnuvalla og áhorfendaaðstöðu verða markaðir í deiliskipulagi. Þá verður fimleikahús ásamt aðstöðu fyrir bardaga- og dansíþróttir byggt í framhaldi af byggingu knatthússins og íþróttahússins. Starfshópur um fimleikahúsið á að skila áfangaskýrslu um fyrirkomulag og staðsetningu fyrir 1. maí 2018. Í því mannvirki verður gert ráð fyrir aðstöðu fyrir bardagaíþróttir félagsins, sem og dansíþróttir. Áætlað er að byggingu fimleikahúss verði lokið fyrir haustið 2023. Þá má geta þess að nú þegar standa yfir framkvæmdir við frjálsíþróttavöll á ÍR-svæðinu sem tekinn verður í notkun sumarið 2018. Einnig verður skipt um grasmottu og á núverandi gervigrasvelli gúmmí í sumar.

Tölvugerð mynd af frjálsíþróttavelli ÍR í Mjóddinni.

Vinnuhópur með fulltrúum frá Leikni, ÍR, ÍBR, ÍTR og þjónustumiðstöð Breiðholts

Í bókun borgarráðs segir að fyrirliggjandi samningur sé fagn-aðarefni og mikilvæg fjárfesting í innviðum fyrir íþróttaiðkun barna- og ungmenna í öllu Breiðholti. Til að tryggja að þau markmið samningsins gangi eftir er mikilvægt að markviss vinna fari þegar í farveg á grundvelli 9. greinar samningsins. Mikilvægt sé að borgarstjóri kalli saman vinnuhóp með fulltrúum frá Leikni, ÍR, ÍBR, ÍTR og þjónustumiðstöð Breiðholts/hverfisráði þar sem fram fari viðræður og tillögugerð um eflingu íþróttastarfs og rekstur mannvirkja í Breiðholti, með það að markmiði að auka þátttöku barna og unglinga í íþróttum í öllu hverfinu. Í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kemur fram að þeir styðji fyrirliggjandi samning við Íþróttafélag Reykjavíkur um uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæði félagsins í Syðri-Mjódd. Með samningnum er vonum seinna verið að efna samning milli Reykjavíkurborgar og ÍR frá árinu 2008 sem gerður var undir forystu þáverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, segir í bókun inni.

Afnotasvæði ÍR verður afmarkað sérstaklega

Suður-Mjódd verður deiliskipulögð í heild sinni og þar verður afnotasvæði ÍR afmarkað sérstaklega og jafnframt verður gengið frá fyrirkomulagi svæðisins í heild sinni en það tekur til stíga, gróðurs, bílastæða og mannvirkja sem gert er ráð fyrir að rísi á næstu árum.

You may also like...