Hús kínverska sendiráðsins grotnar niður

Glæsihús á eftirsóttum stað í Vesturbænum hefur ekki verið í notkun frá árinu 2012 og grotnað niður. Nú virðist húsið óíbúðarhæft með öllu og mikið verk mun vera að koma því í nýtanlegt ástand.

– nágrannar á Melunum orðnir órólegir yfir sinnuleysi Kínverjanna –

Hús Kínverska sendiráðsins við Víðimel 29 hefur staðið autt um árabil eða allt frá því að sendiráðið flutti í nýtt húsnæði við Bríetartún 1 árið 2012. Á þessum tíma hefur ekkert viðhald farið fram á húsinu og það grotnað hratt niður. Í júlí mánuði árið 2013 fyrir fimm árum var húsið auglýst til sölu á vegum Fasteignamarkaðarins og sagði Jón Guðmundsson fasteignasali í blaðaviðtali að húsið væri á eftirsóttum stað og fallegt í sinni upprunalegu mynd og kvaðst búast við að það myndi seljast fljótlega. 

Húsið seldist hins vegar ekki og engar skýringar hafa fengist af hverju það gerðist ekki. Kom ekki nægilega hagstætt verðtilboð í húsið að mati kínverjanna eða var eitthvað annað sem kom í veg fyrir sölu þess. Húsið er alls 724,5 fermetrar að stærð og skráð sem fjölbýlishús en þar eru fimm búðir og bílskúr. Húsið var byggt árið 1946.

Ástand hússins versnar stöðugt og það virðist orðið óíbúðarhæft með öllu. Ljóst er að mikið verk er að koma húsinu í nothæft ástand ef það er þá hægt. Engar upplýsingar hafa fengist um hverjar fyrirætlanir Kínverja eru með húsið eða hvort þær eru einhverjar. Engu líkara er en að húsið hafi gleymst í einhverju kerfi stórþjóðarinnar og engin sé tilbær um að taka ákvörðun um framtíð þess.   

Bakhlið húss Kínverska sendiráðsins við Víðimel 29. Gardínur og strimlar hanga fyrir gluggum. Garðurinn er í órækt og skemmdir sjást víða.

Nágrannar órólegir

Íbúar í nágrenni hússins á Melunum eru að vonum óánægðir með að hafa þessa hryggðarmynd af húsi við bæjardyr sínar og hafa nokkrir orðið til þess að hafa samband við Vesturbæjarblaðið af þeim sökum. Ein þeirra er Guðný Jónasdóttir sem býr í næsta nágrenni við Reynimel 28. Hún segir í bréfi sínu að engin starfsemi hafi verið í húsinu í sjö ár og engin hafi búið þar þann tíma. En gefum Guðnýju orðið. “Húsið var áður fyrr eitt af glæsilegustu og vönduðustu húsum Reykjavíkur ásamt húsinu sem stendur við hlið þess og þau kölluð “kanslarahallirnar”. Tekið skal fram að húsið við hliðina er til fyrirmyndar hvað varðar viðhald og umhirðu. Nú er umrætt hús Kínverjanna orðið stórfellt lýti á Vesturbænum.” Guðný bendir á að í þau sjö ár sem húsið hafi staðið autt hafa birst greinar og athugasemdir um það í blöðum og sjónvarpi  t.d. Morgunblaðinu og Stöð 2 en engin viðbrögð og allra síst umbætur hafa komið frá Kínverska sendiráðinu. Og Guðný heldur áfram. “Þó slæmt útlit hússins og garðsins stingi mjög í augu hér í Vesturbænum nefni ég það einnig að síðastliðinn vetur varð mikill vatnsleki inni í húsinu og stóðu kínverskir starfsmenn við opna glugga á efri hæð og jusu vatninu í skálum og kerjum út um gluggana út í garðinn. Ýmislegt bendir því til þess að húsið sé gjörónýtt að innan vegna vanhirðu.”

Aðalinngangur í húsið. Málað yfir glugga og skilti sem segir til um vegabréfsáritanir er enn á hurðinni sex árum eftir að starfsemi sendiráðsins var flutt úr húsinu.

You may also like...