Heklureiturinn í Suður Mjódd

Séð yfir Mjóddina í Breiðholti.

– engar framkvæmdir hafnar – málið situr í kerfinu –

Engar framkvæmdir eru hafnar á Heklureitnum í Suður Mjódd þótt meira en ár sé liðið frá því að Borgarráð samþykkti viljayfirlýsingu um að fyrirtækið Hekla hf. fái aðstöðu fyrir starfsemi sína í Mjóddinni í Breiðholti. Umsagnaferli um deiliskipulag Suður Mjóddar lauk 17. ágúst á liðnu ári. Eftir það tók úrvinnsla við þar sem farið var yfir allan innsendar hugmyndir og athugasemdir og þær metnar.  

Breiðholsblaðið spurðist fyrir um stöðu málsins hjá Reykjavíkurborg á dögunum. Frá byggingafulltrúa barst það svar að umrætt svæði væri í skipulagsferli og var spurningum blaðsins vísað til skipulagsfulltrúa. Í svari hans kom fram að deiliskipulag fyrir Suður Mjódd sé búið í vinnslu en ekki komi fram í skipulaginu hverjir megi byggja á lóðum á skipulagssvæðinu annað en að ÍR hafi verið úthlutað rými fyrir íþróttasvæði og Félagi Eldri borgara lóð við Árskóga fyrir íbúðabyggingar. Ekkert komi fram í upplýsingum skipulagsfulltrúa um að Heklu hafi verið úthlutað lóð á skipulagssvæðinu. Skipulagsfulltrúi vísaði síðan á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar. Ekkert svar barst þaðan þótt eftir því væri leitað. Samkvæmt svari byggingafulltrúa sem vísaði beint á skipulagsfulltrúa virðist sem ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi enn sem komið er en þar sem ekkert svar liggur fyrir frá skrifstofu Eigna og atvinnuþróunar er ekki rétt að fullyrða um það. Ljóst má þó vera af þeim svörum sem blaðinu barst að málið situr í kerfinu og búið að gera það í heilt ár.

Forsaga frá 2014 – formlegar viðræður frá 2016

Forsaga þessa máls má rekja til þess að í lok apríl 2014 óskaði Hekla hf. eftir viðræðum við borgina um lóð við Bústaðaveg 151. Lóðin var ekki talin heppileg fyrir slíka starfsemi auk þess sem auglýsa ætti hana í opnu útboði þegar vinnu við deiliskipulag væri lokið. Að því loknu fóru af stað óformlegar viðræður skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og stjórnenda Heklu hf. um framtíðarstaðsetningu fyrir starfsemi fyrirtækisins. Leiddu þær viðræður til þess að stjórnendur Heklu hf. sendu Reykjavíkurborg bréflegt erindi 19. janúar 2016 og óskuðu eftir formlegum viðræðum um úthlutun lóðar í Suður Mjódd fyrir starfsemi fyrirtækisins í tengslum við viðræður um framtíðarþróun Heklureitsins við Laugaveg. Eftir það var ákveðið í borgarráði að fela skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og umhverfis- og skipulagssviði að hefja viðræður við forráðamenn Heklu. Borgarráð samþykkti síðan 26. janúar síðastliðinn viljayfirlýsingu á milli Reykjavíkurborgar og Heklu um lóðarvilyrði til fyrirtækisins fyrir byggingu nýrra höfuðstöðva bílaumboðsins í Syðri Mjódd sem yrði um 24 þúsund fermetrar að stærð. 

You may also like...