Fimm flóttamenn frá Úganda til Seltjarnarness

Bæjarráð Seltjarnarnesbæjar hefur tekið jákvætt í erindi félagsmálaráðuneytisins um móttöku á allt að fimm flóttamönnum frá Úganda síðar á þessu ári en fólkið er staðsett í flóttamannabúðum í Kenía. Um er að ræða samfélagslega ábyrgð sem bærinn telur rétt að axla og ætlar að standa vel að þessu krefjandi verkefni en þetta er í fyrsta sinn sem Seltjarnarnesbær tekur á móti flóttafólki. 

Bæjarráð hefur falið Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra að undirbúa málið sem m.a. felst í að gera samning við félagsmálaráðuneytið um nauðsynlega þjónustu og aðstoð, leita eftir húsnæði fyrir fólkið sem hingað kemur og ráða verkefnastjóra. Verkefnastjóri mun hafa með umsjón á móttöku flóttafólksins að gera og vera tengiliður bæði við ráðuneytið og Rauða krossinn sem verður til aðstoðar í þessum efnum. Móttaka flóttafólksins er liður í ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 12. október 2018 þar sem samþykkt var að bjóða allt að 75 einstaklingum, sem hafa stöðu flóttafólks samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, til Íslands árið 2019. Ríkisstjórnin ákvað að taka annars vegar á móti hinsegin flóttafólki frá Kenía og hins vegar sýrlensku fólki sem er í Líbanon. Markmiðið var að finna flóttafólkinu heimili í mismunandi bæjarfélögum og veitir ríkið þeim bæjarfélögum sérstakan stuðning til að mæta kostnaði. Mosfellsbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem hefur þegar tekið á móti hópi flóttafólks í þessu verkefni auk þess sem Garðabær samþykkti nýverið að gera slíkt hið sama.

You may also like...