Opið félagsstarf í Breiðholti á vegum borgarinnar

— leitast við að virkja frumkvæði og áhuga hvers og eins —

Súmba-dansleikfimi í Fjölskyldumiðsstöðinni Gerðubergi.

Þekkt er að virk þátttaka í félagsstarfi dregur úr einangrun, lífgar upp á daginn og getur sannar­lega stuðlað að andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði og vellíðan. Á vegum Reykjavíkurborgar er starfrækt félagsstarf fyrir fullorðna á 17 stöðum vítt og breitt um borgina, þar af á þremur stöðum í Breiðholti; í Árskógum, Gerðubergi og Seljahlíð. Umsjón með félagsstarfinu hafa þau Anna Kristín í Árskógum, Álfhildur í Gerðubergi og Tómas Helgi í Selja­hlíð. Segja þau félagsstarfið vera vettvang samfunda, félagslegra samskipta og skapandi athafna. Að leitast sé við að virkja frumkvæði og áhuga hvers og eins. Þau taka sérstaklega fram, að félagsstarfið sé opið öllum, að allir séu velkomnir. Þá segja þau heilsueflingu vera nokkurs konar leiðarstef í starfseminni.  Það fylgi því mikil forvörn að taka þátt í félagsstarfi. „Gaman væri“, segja þau enn fremur „að félagsstarfið endurspeglaði hina fjölbreyttu íbúaflóru í Breiðholti“. Hægt er að kaupa hádegisverð á öllum þessum stöðum og kaffiveiting­ar. Framboð er breytilegt milli staðanna þriggja og fólk getur farið á milli eftir áhuga og dagskrá hverju sinni. 

Anna Kristín segir ýmislegt vera í boði í félagsstarfinu Árskógum. „Við erum með smíðastofu með leiðbeinanda, leikfimi, samsöng, bridge, félagsvist, pílukast, pútt, handavinnu og margt fleira. Við leggjum mikið upp úr valdeflingu og hugmyndavinnu svo allir fái notið sín. Ef þú ert með hugmynd að einhverri tómstund, viðburði eða samveru að þá erum við sennilega með húsnæði fyrir það. Ég hvet fólk eindregið til að kíkja við og heilsa upp á okkur hér í félagsmiðstöðinni Árskógum“. segir Anna Kristín.

Matjurtakassar til eigin ræktunar

Álfhildur tekur í sama streng og Anna Kristín. „í félagsstarfi Fjöl­skyldumiðstöðvar Gerðubergs er grunnmarkmiðið með félagsstarfinu að skapa fjölbreytilegt umhverfi og jákvæðan vettvang,  þar sem flestir geta fundið farveg til frumkvæðis og sjálfstæðra athafna. Í félagsstarfinu er að finna hefðbundna og fasta dagskrárliði, eins og opna handavinnustofu, hreyfingu/leikfimi, dans, myndlist, félagsvist  bókband, kórstarf, sem og tilfallandi uppákomur og námskeið. Þess má geta, að nú er í undirbúningi bæði vorgleði og vorferðalag. Núna á vordögum getur fólk komið og fengið matjurtakassa til eigin ræktun­ar sér að kostnaðarlausu. Um miðjan maí hefst alveg geggjað leikfimi- og gönguprógramm hjá okkur, undir handleiðslu fagfólks, sem verður tvisvar í viku fram eftir sumri. Þá hafa sjálfstæðir hópar aðstöðu hér í Gerðubergi fyrir sín hugðarefni. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt í gangi“.

Gott start í kaffikarlahóp

Tómas Helgi vill koma því á framfæri, að í Seljahlíð sé starfrækt gríðarlega vinsælt félagsstarf, sem er opið öllum Reykvíkingum, ekki bara íbúum og  nágrönnum í Hjalla­selinu. „Að sjálfsögðu eru allir velkomnir. Hjá okkur er góð virkni, má nefna leirmótun, leikfimi sem er fjórum sinnum í viku. Við höfum  opna vinnustofu  alla virka daga, þar sem er prjónað, málað, spilað og fleira. Við erum líka að leggja svolitla áherslu á að ná til karlanna, þeir eru oft tregari en konur að leita sér félagsskapar eftir starfslok. Við viljum svo gjarnan reyna að draga hinn „íslenska karlmann“ út úr skel sinni“ segir Tómas brosandi, „og við erum alveg komin með gott start í kaffikallahóp“. 

Að lokum segjast þau þre­menning­arnir hlakka til skemmti­legs sumars í félagsstarfinu, þegar mannlífið fer að blómstra og Breiðholtið að skarta sínu fegursta.

Álfhildur Hallgríms.

You may also like...