Ekki búið að ganga frá sölu á Geirsgötu 11

— í höndum borgaryfirvalda hvort hótel verður byggt á þessu svæði —

Geirsgata 11 á Miðbakka er að upphafi vöruskemma Skipaútgerðar ríkisins.

Ekki er búið að ganga frá kaupum dótturfélags malasísku fyrirtækjasamsteypunnar Berjaya Corporation á fasteigninni Geirsgötu 11 á Miðbakka við Gömlu höfnina í Reykjavík. Að sögn Gísla Gíslasonar hafnarstjóra Faxaflóahafna hefur enn ekki verið falast eftir að Faxaflóahafnir falli frá forkaupsrétti að eigninni. Seljendur eru félögin Fiskitangi og Útgerðarfélag Reykjavíkur sem eru að stærstum hluta í eigu Guðmundar Kristjánssonar útgerðarmanns og forstjóra HB Granda.

Heildarvirði kaupsamnings mun nema tæplega 14 milljónum dala eða jafnvirði um 1.670 milljóna króna. Malasíska félagið Berjaya Land Berhad mun kaupa allt hlutafé í eignarhaldsfélaginu Geirsgötu 11 ehf. fyrir 1,4 milljónir dala og greiðir auk þess upp 12,6 milljóna dala skuld umrædds eignarhaldsfélags við Útgerðarfélag Reykjavíkur. Í tilkynningu sem malasíska félagið sendi til kauphallarinnar þar í landi fyrir nokkru var tekið fram að kaupin á Geirsgötu 11 myndu gefa félaginu tækifæri til þess að hefja fjárfestingar, svo sem á sviði fasteignaþróunar og sér í lagi hótelstarfsemi, á Íslandi. Félagið átti í lok október í fyrra eignir upp á alls 390 milljarða króna og rekur hótel víða í suðausturhluta Asíu sem og í Lundúnum. Ekki liggur fyrir hvort leyfi muni fást til byggingar hótels á svæðinu. Hótelkvóti yfir gistirými í Miðborginni nær ekki til þessa svæðis. Ekkert deiliskipulag er heldur til fyrir það og því í höndum borgaryfirvalda að ákveða hvort af hótelbyggingu getur orðið.

You may also like...