Færri byggingar og lægri á Seltjarnarnesi

1_Page_1

Hugmynd Kanon arkitekta að Eiðistorgi framtíðarinnar.

Færri byggingar og lægri var eitt af því sem fram kom hjá íbúum sem sóttu kynningarfund um skipulag sem haldinn var í Félagsheimilinu á Seltjarnarnesi 16. apríl sl. Tilefni fundarins var skipulag miðbæjarsvæðisins og kynning á vinningstillögu Kanon arkitekta. Hátt í 90 manns sóttu fundinn og komu ýmsar áhugaverðar hugmyndir fram hjá fundargestum.

Í umræðum um húsnæðismál komu þau sjónarmið fram að fjölga bæri íbúum á Seltjarnarnesi en einnig þau að best væri að halda í horfinu. Þeir sem töluðu fyrir fjölgun nefndu að hætta væri á stöðnun eða afturför og að grundvöllur fyrir sterku skóla- og félagsstarfi myndi rýrna án nýrra íbúa. Aðrir bentu á að styrkur Seltjarnarness fælist einkum í fámenni og nálægð við stjórnsýslu bæjarfélagsins. Bent var á að nýjar íbúðir ættu að vera í minni kantinum – tveggja til þriggja herbergja íbúðir á bilinu 60 til 100 fermetra. Einnig komu þau sjónarmið fram að hæð bygginga á Seltjarnarnesi ætti að miðast við tvær til þrjár hæðir og einnig að nokkru leyti við þarfir eldri borgara og yngra fólks. Varað var við fordæmi af nýbyggingum í bænum sem væru ekki góð með tilliti til möguleika ungs fólks að kaupa sér íbúðir þar sem verðlagið væri mjög hátt.

Fólk vill ekki færa leikskólann

Mikil gagnrýni kom fram á skipulagshugmyndina sem fyrir liggur um of mikið byggingamagn og einnig hæð húsa sér í lagi á reitum M2 og M3. Fólk taldi að of há hús skyggi á útsýni frá íbúðum sem fyrir eru og sumar nýlega reistar. Þá taldi fólk ekki koma að sök þótt það þýddi að nýjar íbúðir yrðu færri. Einnig kom fram að skoða þurfi skipulagið með hliðsjón af Hrólfsskálamel og skipulaginu þar ásamt því að draga næsta svæði kirkjunnar inn í vinnuna. Fólki virtist annt um staðsetningu leikskólans og telur hann á góðum stað á M2 reitnum. Í athugasemdum segir að hugsanlega mætti reisa nokkra lágreista byggð án þess að flytja hann. Við flutning myndast sú spurning hvar unnt yrði að koma honum fyrir. Fólki líkar staðsetning leikskólans vel einkum vegna legu gagnvart umferð á leið úr bænum og vegna skjólsældar.

Eldri borgarar, kaffihús og bæjarskrifstofur á Eiðistorg

Áhugaverð umræða kom fram um að nýta fjölþætta þjónustu á Eiðistorgi fyrir eldri borgara og að koma félagsstarfi þar fyrir í opnu og aðgengilegu rými þar sem að sækja megi mat á veitingastað á torginu á sömu kjörum og að fá heimsendann mat. Ýta mætti enn frekar undir þetta með því að byggja upp íbúðir fyrir eldra fólk á og við Eiðistorgið. Mjög margir nefndu að kaffihús yrði góð viðbót við torgið. Fólk myndi gjarnan vilja sjá fjölbreytni í verslunum á torginu og auka bæri sérvöruverslun. Varðandi stöðu Hagkaupa á torginu komu fram ýmis sjónarmið, nokkrir töldu að búðin þyrfti mótvægi, aðrir að hún þyrfti að vera þannig staðsett að hún dragi fólk gegnum verslunarsvæðið. Þá voru mjög skiptar skoðanir á því hvort Bónus ætti að hafa búð á torginu eða ekki. Nokkrir nefndu að gott væri að hafa bensínstöð í bænum en skiptar skoðanir voru um hversu nauðsynlegt væri að hafa banka. Rætt var um að hótel eða gististaður gæti verið góð hugmynd. Einnig var nefnt að kostur væri ef bæjarskrifstofurnar væru nær Eiðistorgi.

Suðurströnd í stokk undir Nesveg

Fundarmenn töldu mikilvægt að skapa aðstöðu fyrir fjölbreyttan samgöngumáta og tryggja öryggi vegfarenda með aðgreindri umferð. Til dæmis mætti nota tækifærið til að byggja upp aðgreinda stíga fyrir hjólandi umferð og bæta aðstöðu fyrir gangandi. Rætt var um hvort unnt væri að koma upp einhverskonar mislægum gatna-mótum við Nesveg og Suðurströnd í mismunandi útfærsla þó. Oftast var rætt um að Suðurströnd yrði lögð í stokk undir Nesveg. En aðrar útfærslur kölluðu á gerð undirganga fyrir gangandi vegfarendur á leið yfir Suðurströnd eða að þar yrði byggð göngubrú. Við Norðurströndina var m.a. rætt um að umferð bíla myndi aukast einkum með auknum ferðamannastraum. Rætt um að lækka hámarkshraða þar og auka mætti myndavélaeftirlit.

You may also like...