Niðurskurður í forvarnarstarfi

Mun hann skila ávinningi?

Rannsóknir sýna fram á mikilvægi þess að bæjarfélög haldi úti öflugu félags- og tómstundastarfi á faglegum forsendum fyrir börn, unglinga og ungmenni. Margir þeir sem eldri eru höfðu ekki tækifæri til að sækja félagsmiðstöðvar eða kynnast starfi þeirra á sínum unglingsárum. Drykkja og reykingar unglinga viðgekkst á þeirra tímum og helstu samkomustaðir voru án eftirlits t.d. Hallærisplanið. Forsvarsmenn sveitarfélaga sáu að í óefni var komið og að það þyrfti að bregðast við. 

Margrét Sigurðardóttir.

Eitt af úrræðunum var að opna félagsmiðstöðvar með skipulögðu félags- og tómstundastarfi undir handleiðslu faglærðra leiðtoga. Starf félagsmiðstöðva er forvarnarstarf, þar sem börn og ungmenni fá tækifæri til að starfa saman í frístundum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum. Þjálfun í lýðræðislegri þátttöku er mikilvægur þáttur í öllu félags- og tómstundastarfi. Með tilkomu félagsmiðstöðva, rannsókna og sameiginlegs átaks í samfélaginu breyttist drykkjuhegðun unglinga sem viðgekkst á Íslandi. Niðurstöður Rannsóknar og greiningar, sem rannsakað hefur hagi og líðan barna og unglinga síðastliðin tuttugu ár, sýnir að góður árangur hefur náðst í forvörnum á Íslandi. Rannsóknir eru meðal annars gerðar til að styðja við ríkið og bæjarfélög til að veita faglega þjónustu í félags- og tómstundastarfi. 

Íslandsmet í unglingadrykkju

Samkvæmt rannsóknum áttu unglingar á Seltjarnarnesi „Íslandsmet“ í unglingadrykkju árið 1998, þá var farið í átak á Seltjarnarnesi sem leiddi til þess að unglingadrykkja á Seltjarnarnesi hefur verið undir landsmeðaltali í mörg ár. Þessi jákvæða þróun varð ekki sjálfkrafa og hefur félagsmiðstöðin Selið átt stóran þátt í þeim árangri sem náðst hefur í forvarnarmálum á sveitarfélaginu. Selið heldur utan um félagslíf Valhúsaskóla og hefur ákveðna sérstöðu, er með daglegan opnunartíma, öflugt verkefnamiðað félagsstarf undir handleiðslu „landsliðsfólks” í félags-og tómstundamálum. Horft hefur verið til Selsins sem fyrirmynd annara félagsmiðstöðva. 

Ungmennaráð hefur vakið athygli erlendis

Á sama tíma og rannsóknir sýna aukna rafrettu reykingar og unglingadrykkju taka kjörnir fulltrúar í meirihluta bæjarstjórnar ákvörðun um að höggva niður aðalmastur Selsskútunnar sem hingað til hefur verði flaggskip Seltjarnarnesbæjar í félags- og tómstundamálum. Búið er að skera niður stöðugildi forstöðumanns um 20% en það er eina staðan sem gerð er krafa um háskólamenntun í starfi í félagsmiðstöðinni og eina staðan sem áður var 100% starf. Til samanburðar er ólíklegt að starfshlutfall aðalþjálfara íþróttaliðs í fremstu röð væri skorið niður. Umsjón með ungmennahúsinu Skelinni og vinna með ungmennaráði Seltjarnarness er eitt af fjölmörgum verkefnum forstöðumanns. Starf ungmennaráðsins hefur vakið athygli innanlands sem utan. Í ársskýrslu ungmennaáætlunar Evrópusambandsins „Youth in Action 2013“  var verkefni ungmennaráðs Seltjarnarness. Af hverju ungmennaráð? Valið eitt af þremur framúrskarandi verkefnum í Evrópu. 

Óvæntar ákvarðanir

Sem æskulýðs- og tómstundafulltrúi Seltjarnarness, veiti ég Frístundamiðstöð Seltjarnarness forstöðu. Félagsmiðstöðin Selið, ungmennahúsið Skelin, frístundaheimilið Skjólið, og tómstunda- og félagstarf eldri borgara heyra undir frístundamiðstöð. Undirrituð fær ekki skilið þessa ákvörðun og er ósátt með vinnubrögð meirihluta bæjarstjórnar. Ekki var haft samráð við undirritaða vegna niðurskurðar innan Frístundmiðstöðvar og óvæntar ákvarðanir teknar sem ekki eru í takt við samþykkta fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2020. Vona að bæjarstjórn meti árangur að verðleikum

Stend með börnum og unglingum

Ég hef starfað í rúm tuttugu ár að framþróun æskulýðs- og tómstundamála hjá Seltjarnarnesbæ og haft mikla ánægju af starfi mínu. Í ljósi aðstæðna hef ég sagt upp starfi, ég vil ekki leggja nafn mitt við ófagleg vinnubrögð meirihluta bæjarstjórnar. Ég stend með börnum, unglingum og foreldrum og er ekki tilbúin til að taka þátt í þeirri þjónustuskerðingu sem orðin er í Selinu. Mín von er að meirihluti bæjarstjórnar leiðrétti illa ígrundaða ákvörðun um niðurskurð í Selinu og sýni í verki að þeim er umhugað um velferð unga fólksins á Seltjarnarnesi og meti að verðleikum þann árangur sem náðst hefur í forvarnarstarfi á Seltjarnarnesi. Ég er þakklát fyrir að hafa haft tækifæri til að starfa með börnum, unglingum, foreldrum, eldri borgurum og frábæru samstarfsfólki í gegnum tíðina. Það samstarf er mér ómetanlega dýrmætt veganesti til framtíðar. 

Margrét Sigurðardóttir (Magga í Selinu), fráfarandi Æskulýðs- og tómstundafulltrúi Seltjarnarness og forstöðumaður Frístundamiðstöðvar.

You may also like...