Mikil vinna framundan vegna viðhalds

Melaskóli við Hagamel.

Svo bregðast krosstré sem önnur tré segir gamalt máltæki. Eitt virðu­legasta skólahús borgar­innar hefur staðið á Melunum í áratugi. Á meðan þurft hefur að loka yngri skóla- og leikskóla­húsum vegna mygluvanda hefur þetta virðulega hús staðið hnar­reist á lóðinni við Hagamel 1. En nú hefur orðið breyting á. Mygla hefur greinst á nokkrum stöðum í eldra húsnæði skólans. Þetta kemur fram í tölvupósti sem nýverið var sendur á foreldra og aðstandendur barna í Melaskóla.  

Í tölvupósti sem Harpa Reynis­dóttir skólastjóri Melaskóla hefur sent foreldrum og aðstandendum barna kemur fram að sérfræðingar hjá verkfræðistofunni Eflu hafi verið að skoða ástand skólans í vetur, meðal annars með rakamælingum og sýnatökum. Niðurstöðurnar hafi verið kynntar skólastjórnendum. Fyrir liggi að mygla greinist á nokkrum stöðum í eldra húsinu. Upprunalegi gólfdúkurinn sé þó til varnar hann sé einstaklega þykkur. Farið verður í minni háttar aðgerðir og tilfæringar strax en ekki er talið að flytja þurfi að starfsemina úr húsi. Ráðast á í umfangsmeiri framkvæmdir á komandi sumri. Fimm skólar hafa verið lokaðir, í heild eða að hluta til. Hagaskóli, Laugarnesskóli, Sunnuás, Granda­borg og Nóaborg.

Þrjár leiðir til úrbóta

Verkfræðistofan Efla hefur bent á þrjár leiðir til úrbóta. Í fyrsta lagi er um að ræða allsherjar endurnýjun á bæði ytra og innra byrði hússins. Einangra húsið að utan og koma fyrir vatnsvarnar lagi í formi gufuopsins dúk sem þéttur er við glugga. Hreinsa múr og öll einangrunarefni innan af veggjum sótt­hreinsa burðarveggi og múra. Til að hægt sé að fara þessa leið sem sem talin er besta leiðin út frá bygginga­eðlisfræði sjónarmiði og varðveislu hússins þurfi að aflétta friðunar ákvæði sem er á ytri hjúp hússins. Önnur leið sem Efla leggur til er að hreinsa múr og öll einangrunarefni innan af veggjum sótthreinsa burðarveggi. Endurnýja steiningu hússins og glugga. Endur­byggja innra byrði á sama máta og upprunalegur frágangur var eða með sama einangrunargildi til að tryggja að burðarvirki haldist heitt og þannig fyrirbyggja frostskemmdir í steypu. Kostur við þessa leið er að hún breytir ekki útliti hússins en ókostur að þessar viðgerðir duga tæpast lengur en um áratug. Í þriðja lagi er lagt til að halda áfram staðbundnum aðgerðum skipta einungis um þá glugga sem leka og reyna inndælingar. Fara í stað bundnar aðgerðir innan dyra meðfram útveggjum, fjarlægja dúka og ílögn frá veggjum velja önnur gólfefni en dúka næst útveggjum. Þessi leið er ódýr en verkfræðistofan bendir á að þarna sé um skamm­tíma­lausn að ræða og mikið viðhald verði á húsinu innan fárra ára. Hvaða leið sem farin verður er ljóst að mikið verk er framundan vegna viðhalds Melsskóla.

You may also like...