Loftslagsmálin eru í brennidepli

– segir Eggert Benedikt Guðmundsson verkfræðingur og forstöðumaður Grænvangs –

Eggert Benedikt Guðmundsson.

Eggert Benedikt Guðmundsson verkfræðingur býr undir torfþaki. Að heimili þeirra hjóna, hans og Jónínu Lýðsdóttur, liggur malarslóði sem á vel við þá umgjörð og sögu sem umlykur hann og fjölskyldu hans í Skerjafirði. Eggert býr á Reynistað við Skildinganes, sem áður var heimili foreldra hans, þeirra Kristínar Claessen og Guðmundar Benediktssonar, sem lengi var ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. Þetta er ættaróðal móður hans. Jean Eggert Claessen, móðurafi Eggerts Benedikts, var hálfdanskur, en átti rætur til Hollands eins og nafn hans bendir til. Hann keypti elsta hluta þessa húss og byggði síðan við hann þá hluta hússins sem lagðir eru torfþaki. Næsta hús við Reynistað er Reynisnes. Á tímum Eggerts Claessen bjó þar bóndi, sem leigði land af Eggerti en rak búið að öðru leyti sjálfur. Í æsku Eggert Benedikts bjó þar Laura Claessen, systir Kristínar, ásamt fjölskyldu sinni. Nú búa þar Jean Eggert Hjartarson Claessen, sonur Lauru, og kona hans, Gríma Huld Blængsdóttir.

Jörðin, sem þessi tvö hús standa á, hét áður Skildinganes og á sér langa sögu. Hennar er fyrst getið í svonefndu Setbergsbréfi sem gert var í Skildinganesi þann 6. júní 1523 að talið er. Skildinganes var í eigu Skálholtskirkju en árið 1556 skipti Skálholtsbiskup á nokkrum jörðum. Ein þeirra var Skildinganes. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1703 var tvíbýli í Skildinganesi. Þegar túnakortið fyrir Skildinganes var tekið saman árið 1916 var þar einnig tvíbýli, nefnt Austurbýlið og Vesturbýlið eða ,,Austurbær og Vesturbær“. Vesturbærinn stendur enn, reistur skömmu eftir 1870, en þó endurbyggður að miklu leyti og heitir nú Reynisnes.  Reynistaður var byggður skömmu síðar, þótt nafnið hafi komið til 1923 þegar Jean Eggert keypti gamla húsið og byggði við það.

Sit á sögu

„Við sitjum hér á heilmikilli sögu“, segir Eggert Benedikt þegar tíðindamaður hefur tyllt sér með kaffibolla í stofu undir torfþaki með útsýni yfir glæsihús handan götunnar. „Ég er fæddur á Fæðingarheimilinu í Reykjavík vegna þess að faðir minn taldi fullreynt að í þessu húsi fæddist drengur. Hann var að vísu alsæll með mínar þrjár eldri systur, en hafði auðvitað ekkert á móti ofurlítilli fjölbreytni. Þetta er skemmtisaga sem lifað hefur innan fjölskyldunnar og pabbi sagði við öll möguleg tækifæri.“

Herbergi fullt af skjölum

Hvernig kom það til að Eggert Benedikt tók við óðali ættarinnar? „Þegar faðir minn féll frá árið 2005 fór mamma að hugsa sér til hreyfings og hafði áhuga á að flytja í minni íbúð. Úr varð að við hjónin keyptum húsið af fjölskyldunni. Við fluttum inn 2006 og höfum lagað húsið að okkar þörfum, án þess þó að kasta sögunni á glæ. Þegar við fluttum hingað var hér herbergi fullt af skjölum og miklum heimildum sem Eggert afi minn hafði látið eftir sig. Mér fannst nauðsynlegt að sinna þessu og halda til haga þessum verðmæta fróðleik. Að ráði Valgarðs Briem, frænda míns, hafði ég samband við Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing, og sagði honum af þessu. Hann fylltist áhuga og tók að sér að fara í gegnum þetta. Svo kom að því að honum var fengið nýtt hlutverk í samfélaginu eins og fólk þekkir. Hann gat því ekki sinnt þessu áfram, en kom okkur í samband við Guðmund Magnússon sagnfræðing. Hann tók við keflinu skrifaði afar góða bók um afa og æviferil hans.“

Reynistaður í Skerjafirði.

Til Húsavíkur 

Eggert segir það hafa verið ósköp eðlilegt að alast upp í þessu umhverfi, þótt sagan væri á alla kanta. „Þetta var afmarkað hverfi og mikið af krökkum á mínum aldri. Það myndaðist samkennd með nágrönnum og lífið gekk sinn vanagang, hvort sem maður bjó undir torfþaki eða ekki. Ég fór þessa hefðbundnu leið í skólakerfinu, í gegnum Ísaksskóla, Melaskóla og Hagaskóla, allt þar til ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík. Þá tók ég mér smá hlé frá námi. Svona til íhugunar um framhaldið eins og margir gera. Ég fór til Húsavíkur og sinnti þar kennslu við gagnfræðaskólann í eitt ár. Ég hafði vissa tengingu við Húsavík þar sem faðir minn var fæddur og uppalinn þar. Haustið eftir fór ég til Þýskalands til að læra rafmagnsverkfræði. Ég hef aldrei numið við Háskóla Íslands en aðeins gripið í kennslu þar. Ef til vill á maður eitthvað slíkt eftir síðar meir, enda margt sem manni býðst að stúdera hafi maður áhuga.“

Lærði í Barcelona 

Eftir námsár í Þýskalandi hélt Eggert til starfa hjá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. „Ég vann þar í fimm ár en þá vaknaði námsáhugi að nýju. Þá  var ég komin með fjölskyldu. Við héldum til Spánar, til Barcelona þar sem ég lagði stund á svonefnt MBA nám. Þetta er hagnýtt meistaranám í stjórnun og rekstri fyrirtækja. Ástæða þess að við völdum Spán voru einkum þær að um tveggja ára nám var að ræða en í öðrum löndum var þetta iðulega tekið á einu ári. Einnig vildi ég þreifa fyrir mér utan enska heimsins. Námið á Spáni var tvítyngt á ensku og spænsku.  Ég þurfti því að læra spænsku fyrra árið meðfram aðalnáminu og nota hana svo að fullu við námið seinna árið. Ég hafði mjög gott af þessu námi og það var einstakur bónus að kynnast Spáni og spænskri menningu. Spánn er heillandi land eins og margir Íslendingar hafa kynnst. Aldrei var þó ætlun okkar að setjast að á Spáni enda ýmis tækifæri annars staðar. Í framhaldi af þessu fluttum við til Belgíu og síðar Kaliforníu, þar sem ég starfaði fyrir raftækjaframleiðandann Philips Electronics í samtals sjö ár. Við fluttum loks aftur heim árið 2004. Fyrstu tvö árin bjuggum við í Garðabæ, en fluttum hingað á Reynistað árið 2006.“

Fjölbreyttur starfsferill

Eggert Benedikt á óvenju fjölbreyttan starfsferil að baki. Um 10 ára skeið stýrði hann tveimur af stærstu fyrirtækjum landsins, HB Granda frá 2005 til 2012 og N1 hf. frá 2012 til 2015. Þá gegndi hann um tíma forstjórastöðu fyrir nýsköpunarfyrirtækið eTactica sem starfar á sviði raforkueftirlitskerfa.

Hafa ekki fjarlægt gamla tímann 

Þegar litið er yfir heimili Eggerts og Jónínu er ljóst að þau hafa ekki ánetjast þeirri bylgju sem ríður yfir að umbreyta sem flestu á heimilum og fjarlægja gamla tímann. Sagan er þar í hverju rúmi. Margir hlutir eiga uppruna sinn í heimili foreldra hans og einnig afa og ömmu. Þar á meðal píanó sem virkaði fremur sem semball á komumann við fyrstu sýn. „Nei þetta er píanó. En það er komið til ára sinna. Tryggvi Gunnarsson gaf afa og ömmu það í brúðargjöf. Ég hef aldrei lært á píanó en glamra stundum á það hér heima í stofu. Ég lærði hins vegar á gítar í gamla daga, m.a. hjá Arnaldi Arnarsyni, sem einmitt býr í Barcelona.“

Forstöðumaður Grænvangs

Hvað er Eggert Benedikt að fást við í dag? Hann starfar nú sem forstöðumaður Grænvangs, sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. „Við erum þrjú sem störfum hjá Grænvangi, en eigum náið samstarf við Íslandsstofu. Þetta snýst annars vegar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér innanlands og hins vegar um að miðla reynslu Íslendinga til annarra þjóða og liðsinna þeim við að draga úr sinni losun. Loftslagsmálin eru í brennidepli núna og ekki að ástæðulausu. Við þurfum að bregðast hratt við og draga úr losun þar sem það er hægt. Hér á landi er mikilvægt að draga úr kolefnisfrekum samgöngum. Hætta notkun olíu til að knýja farartæki á landi, legi og í lofti. Rafbílum fjölgar hratt og þeir munu smám saman taka yfir allan bílaflotann. Flutningar á landi munu nota ýmsa græna orkugjafa, svo sem vetni og metan. Rafdrifnar flugvélar munu koma til með að fljúga á styttri flugleiðum en líklegra er að vélar sem fara lengri leiðir komi til með að verða drifnar af vetni eða öðru grænu eldsneyti. Svipuð þróun verður í skipaflotanum.”

Torfþak er orkusparandi

Eggert Benedikt segir að flest þessara verkefna séu leysanleg sé vilji fyrir hendi. Þar verði atvinnulíf og stjórnvöld í heiminum að taka höndum saman. “Við verðum einfaldlega öll að hjálpast að í baráttunni við loftslagsvána. Þar mun þurfa nýsköpun á öllum sviðum tækninnar.“ Eggert hugsar sig um eitt augnablik, en bætir svo við að lokum: „En kannski líka gamlar og þaulreyndar lausnir. Eins og torfþök, sem eru besta einangrun sem til er og þar með orkusparandi.“

You may also like...