Við þurfum að vanda okkur
Ágúst Einarsson prófessor og fyrrum alþingismaður og rektor spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni. Hann hefur búið á Seltjarnarnesi í nær 35 ár frá því hann fluttist þangað með fjölskyldu sinni 1980. Ágúst hefur frá mörgu að segja bæði sem áhugamaður um stjórnmál og fræðimaður og hefur ákveðnar skoðanir þar sem hann dregur ekkert undan. Þetta spjall hófst í Vesturbænum en síðan flakkaði hann um heiminn eins og honum er lagið en tengdi söguna og viðhorf sín jafnan við íslenskan veruleika.
„Við hjónin erum bæði fædd í Vesturbænum þótt leið okkar hafi legið út á Seltjarnarnes. Konan mín, Kolbrún Ingólfsdóttir, er frá Víðimelnum en sjálfur er ég fæddur á Bárugötunni í Vesturbænum. Eldri systur mínar eru fæddar í Vestmannaeyjum. Við vorum ellefu systkinin og erum átta á lífi. Ég ólst upp í Vesturbænum, gekk í Miðbæjarskólann, Gagnfræðaskólann við Vonarstræti og Menntaskólann. Öll skólagangan var þannig við Lækjargötuna. Ég hef mest unnið um ævina í eða við Vesturbæinn og er ekkert mikið fyrir að fara út fyrir það svæði. Ég rata hreinlega ekki í flestum bæjarhlutum á höfuðborgarsvæðinu. Við fluttum á Seltjarnarnes fyrir um 35 árum. Bjuggum 15 ár á Barðaströndinni og frá 1995 á Fornuströndinni . Við höfum alltaf verið norðanmegin á Nesinu og munum ekki fara þaðan nema sem englar. Það er fallegt á Nesinu og þar býr gott fólk og bæjarfélagið er gott. Því er vel stjórnað og skipulag er með ágætum.“
Er líka KR-ingur
„Ég var lengi prófessor í Háskóla Íslands og varð síðar rektor Háskólans á Bifröst og er núna prófessor þar. Ég hef gaman af kennslu, rannsóknum og skrifum og er að leggja lokahönd á mína 26. bók en hún er um hagræn áhrif ritlistar. Ég hef verið prófessor í 25 ár, setið á Alþingi, stjórnað fyrirtækjum og setið í fjölda stjórna þannig að ég get ekki kvartað yfir tilbreytingarleysi í mínu lífi og starfi. Flestar systur mínar búa í Vesturbænum og ég tel Seltjarnarnes vera hluta af þessari stærri byggð sem má kalla Vesturbæ. Ég er ekki mikið fyrir að aðgreina Vesturbæinn og Seltjarnarnes. Ég er KR-ingur og fer stundum á völlinn en held þó með Gróttu þegar þeir keppa við KR, sem gerist nú reyndar ekki oft.“
Einstakt að vera afi
„Við eigum fjögur barnabörn. Fjórar litlar prinsessur. Sú elsta er tólf ára og það er alveg einstakt að vera afi. Ég man að ég var oft að lýsa þessu fyrir vini mínum Einari Oddi Kristjánssyni heitnum frá Flateyri, fyrrum formanni Vinnuveitendasambandsins og alþingismanni, hversu dásamlegt væri að vera afi. Hann skildi þetta ekki en svo eignaðist hann barnabarn og þá hringdi hann sérstaklega í mig og sagði: „Ég skil loksins Ágúst hvað þú varst að tala um.“ Ég er að vísu í smá vandræðum að gera elstu barnabörnin að KR-ingum því þær búa á svæði Víkings. Ég er þó búinn að ná samningum við þær nema þegar Víkingur er að keppa. Við fórum saman á bikarúrslitaleikinn og fögnuðum þar öll sigri KR.“
Nesstofa er dýrgripur
„Þótt við séum Vesturbæingar að uppruna þá hefur okkur liðið vel á Seltjarnarnesi. Margt er líka sérstakt fyrir utan hið stórkostlega útsýni sem Seltirningar búa við. Við getum nefnt Nesstofu sem er dýrgripur og allt vestursvæðið, fjöruna og stríðsminjarnar upp í Holti sem mættu vera sýnilegri. Mér finnst svolítið merkilegt að hugsa til þess að Nesstofa sem læknasetur er byggð í anda upplýsingastefnunnar á síðari hluta 18. aldar. Þetta var gert á sama tíma og Skúli fógeti var að koma Innréttingunum á fót í Reykjavík. Öll þessi athafnasemi var að frumkvæði danskra yfirvalda. En þetta koðnaði allt niður, mest vegna andstöðu Íslendinga sjálfra. Mér finnst merkilegt að hugsa til þess þegar maður hefur þennan minnisvarða fyrir augunum að heimurinn stóð kyrr hér á landi fram undir byrjun 20. aldar. Þá fyrst hófst iðnbyltingin í sjávarútveginum. Iðnbyltingin hafði byrjað um 100 til 150 árum fyrr í nágrannalöndunum. Þegar hún barst hingað var búið að byggja upp þokkalega velmegun í öllum nágrannaríkjunum í eina til eina og hálfa öld.“
Værum 850 þúsund
„Ég hef borið saman búsetuþróunina hér á landi og í Noregi. Í lok þjóðveldisaldar – á síðari hluta 13. aldar vorum við um 50 þúsund talsins. Um 600 árum síðar eða um 1850 vorum við enn um 50 þúsund. Ef sambærileg fólksfjölgun hefði orðið hér og varð í Noregi frá þjóðveldistímanum þá værum við ekki 330 þúsund heldur um 850 þúsund. Náttúrulegar aðstæður ollu þessu að einhverju leyti en einnig okkar eigin aðgerðir. Ein þeirra er að við byggðum ekki upp nein þorp við sjóinn. Þessa miklu auðlind, fiskimiðin, nýttum við lítið. Útlendingar veiddu hér við land allt frá 14. öld. Við áttum ekki alltaf góða valdsmenn. Merkilegt er í sögu okkar að mestu afturhaldsseggirnir voru íslenskir ráðamenn á þessum tíma. Þessi afturhaldshugsun gagnvart breytingum nær allt fram á 20. öld og þessi hugsun er enn nokkuð rótgróin hjá Íslendingum.“
Erum fyrir löngu orðið borgríki
Ágúst telur okkur mun færri en við þyrftum að vera. „Ég hef átt þá draumsýn að Íslendingar yrðu miklu fleiri. Við getum enn farið þá leið sem Bandaríkjamenn fóru á 18. og 19. öld. Þá fluttist fólk til Bandaríkjanna. Það kom frá mörgum Evrópulöndum og varð að Bandaríkjamönnum eftir eina til tvær kynslóðir. Ég hef slegið því fram að hér ættu að búa um þrjár milljónir manna og þetta aðflutta fólk myndi verða Íslendingar eftir tvær kynslóðir. Þriðja kynslóðin yrði orðin innfæddir Íslendingar. Þetta hefur gerst víðar í heiminum. Það er margt einkennilegt við búsetu hér á landi. Um tveir þriðju hlutar þjóðarinnar búa á höfuðborgarsvæðinu – á einu prósenti af stærð landsins en í öðrum hlutum þess eða 99% er byggð ótrúlega strjál. Mér fannst þetta svo merkilegt að ég skoðaði hvernig íbúadreifingu er háttað í háttað í hinum 200 löndum heimsins. Að svona stór hluti af landsmönnum búi á sama blettinum þekkist varla. Ísland er fyrir löngu orðið borgríki. En það er aldrei viðurkennt í almennri umræðu og alls ekki í stjórnmálaumræðunni. Landsbyggðin er löngu horfin sem slík en auðvitað er til dreifbýli á Íslandi sem vitaskuld þarf að taka tillit til. Þessi sérstæða þróun á íbúafjölda og búsetunni og hvað við erum fá það markar umgjörð okkar að miklu leyti.“
Þróun til bættra lífskjara er ekki sjálfgefin
„Við viljum halda þessu stóra landi í byggð,“ segir Ágúst en bendir á að það kosti peninga. „Fólk sem vill búa í dreifbýli á að eiga kost á því en fyrir marga þýðir það einfaldlega lakari þjónustu. Ég skil fólk vel sem vill flytja í þéttbýli þar sem er stærri umgjörð og auðveldara er með skólagöngu. En lítið er rætt um þessi vandamál. Mjög margt hefur breyst hér á landi á síðustu 115 árum ef miðað er við upphaf 20. aldarinnar. Þá hófst tímabil mikillar velmegunar. Við brutumst úr örbirgð og ekki aðeins til bjargálna heldur urðu með þeim þjóðum heims sem hafa best lífskjör. Lífskjörin eins og þau voru hjá okkur í byrjun 20. aldar eru á borð við lífskjör eins og þau eru núna í Kambódíu í Asíu og Kamerún í Afríku. Við vorum í 10 til 15 sæti hvað lífskjör varðar fyrir bankahrunið 2008 og erum nú í 20. til 25. sæti nú en það er ekkert óhemju fall miðað við afkomu hjá fjölda þjóða.“
Bókmenntirnar og landhelgisútfærslan
„Við eigum góða framtíð ef við horfum raunsætt á málin og gerum okkur grein fyrir fámenninu sem gerir það að verkum að við höfum ekki úr eins miklum fjölda í mannafla að spila og önnur nútímasamfélög. Innviðir samfélaga eru nú þess eðlis að stjórnsýslan verður sífellt flóknari. Ég held því fram að ein af ástæðum bankahrunsins hafi verið sú að við gátum ekki mannað nægjanlega vel allar þær stöður sem þurfti. Við viljum oft gleyma því að við erum langt frá því að geta talið okkur smáþjóð. Við erum örþjóð. Á aðeins tveimur sviðum skiptum við máli á heimsvísu. Annað þeirra eru bókmenntirnar sem voru skrifaðar á 12. og 13. öld en hitt er landhelgisútfærslan á 20. öld. Hún var gerð í mörgum skrefum og það tók hátt í öld að ljúka því verki. Þar ruddum við brautina og skiptum máli bæði á alþjóðavísu og fyrir okkur sjálf sem velmegandi þjóð. Heimsstyrjaldirnar tvær skiptu líka máli fyrir efnahagsþróunina. Mikil tækni barst þá hingað til lands og hér varð blússandi gangur í þó nokkra áratugi og hefur verið að miklu leyti síðan.“
Styrkleiki í að líta stórt á sig
Ágúst segir Íslendinga líta svo stórt á sig að það liggi við móðgun að nefna fámennið. „Íslenska þjóðarsálin vill vinna í öllum keppnum. Við viljum vinna á Ólympíuleikum en gefum ekkert fyrir sigra á Smáþjóðaleikum. Ef til vill er það einn af styrkleikum þjóðarinnar að hafa svona mikinn metnað. Hluti af því sem hefur gert okkur að þjóð er að við héldum tungumálinu okkar. Við áttum sögurnar, kváðum vísur, meðal annars rímur í þúsund ár og héldum þjóðinni saman á grundvelli tungumáls og ritlistar. Sagan geymir dæmi um margar þjóðir sem runnu inn í aðrar þjóðir. Hér hjálpaði fjarlægðin einnig til, það er að við erum langt frá öðrum þjóðum. Erfið tímabil hafa komið í sögu landsins. Eitt sinn átti að flytja alla Íslendinga á Jótlandsheiðar og full alvara var að baki þeirri tillögugerð. Danir voru áhyggjufullir yfir þessari nýlendu sinni á þeim tíma. Við sjáum líka þann mikla brottflutning sem varð til Vesturheims á síðari hluta 19. aldar. Hvort slíkir atburðir geta endurtekið sig er spurning. Fólk er miklu hreyfanlegra nú en áður. Við höfum séð þetta gerast innanlands. Gjörbreyting hefur orðið á búsetu og fólk þjappað sig saman á Suðvesturlandi. Margir hafa líka farið til útlanda á síðustu árum og líkur eru á því að það eigi eftir að aukast. Margir hafa farið til Noregs og vegnar vel þar enda Noregur eitt ríkasta land í heimi og lífskjör mjög góð. Íslendingar eru líka almennt vel metnir á meðal Norðmanna. Við höfum líka búið svo vel að margir Íslendingar dvelja tímabundið í útlöndum við nám og vinnu en koma svo heim reynslunni ríkari.“
Ekki sjálfgefið að allt gangi eins
Ágúst segir ekki sjálfgefið að á 21. öldinni muni allt ganga hér eins og á þeirri 20. „Við þurfum að hafa fyrir því og við verðum líka að sjá möguleikana sem hin nýja atvinnuháttabylting hefur í för með sér. Sú fyrri varð í iðnbyltingunni upp úr 1750 þegar með gufuaflinu kom utanaðkomandi orka í miklum mæli í fyrsta sinn í sögunni inn í samfélag mannsins. Nú erum við að upplifa aðra atvinnuháttabyltingu með öðrum tækniframförum, með tölvutækninni og breytum samskiptaháttum og einnig aukinni þekkingu í lífvísindum og erfðafræði. Þetta kemur einnig fram í skapandi atvinnugreinum sem byggja á menningu. Þar er mikil framtíð fyrir þjóð eins og okkur sem er mjög meðvituð um menningarlega starfsemi. Ég hef skrifað nokkrar bækur um þetta en mér þykir breytingarnar ganga of hægt. Við verðum að leggja enn meiri áherslur á menntun og skapandi greinar, menningariðnað og annað slíkt. Þetta gefur góðar tekjur og góð lífskjör og það er mikil eftirspurn eftir fólki í þessum greinum. Ef það er eitthvað sem útlendingar vita um Ísland fyrir utan náttúruna þá hafa þeir heyrt af menningunni og þá ekki síst tónlistinni. Við höldum því oft fram Íslendingar að við séum með gott menntakerfi. Það er ekki rétt. Ég er búinn að starfa í áratugi innan íslenska menntakerfisins og veit að það er ekkert sérstakt – kannski ekkert slæmt heldur. Ég var í stjórnmálum um tíma og fann að áhuga skorti þar á menntamálum og hann vantar enn. Sama hvar er borið niður í stjórnmálaflokkum. Menntamálin eru spariumræða en ef menn vilja tala um sjávarútvegsmál eða byggðamál eru allir ræðustólar fullir. Þarna erum við að sitja af okkur tækifæri sem aðrir grípa.“
Mikil umskipti hafa orðið
Ágúst leiðir talið að atvinnulífi heimsins og segir að umskipti hafa orðið. „Margar vörur sem við Vesturlandabúar kaupum eru framleiddar við ómannúðlegar aðstæður í fátækum ríkjum Asíu. Við erum ekkert að gefa því mikinn gaum en í sjálfu sér er þetta ekkert annað en þrælahaldið og barnaþrælkunin sem blómstraði í Vestur Evrópu og Bandaríkjunum fyrir ekki svo löngu síðan. Full ástæða er einnig til að hafa áhyggjur af þeirri öfgahyggju sem er orðin mun meira áberandi í allri umræðu heldur en var. Þessi umræða minnir mig á ástandið sem var í Evrópu á milli 1920 og 1935 þegar öfgaöflin urðu ráðandi á meginlandinu og sem leiddi til valdatöku nasista í Þýskalandi, fasista á Spáni og á Ítalíu og síðar til seinni heimstyrjaldarinnar og miklum hörmunum um allan heim. Ég hef áhyggjur af því að við séum að sigla inn í álíka tímabil. Þessar öfgar koma nú fram í kosningum í lýðræðisríkjum og þær eru þegar farnar að setja mark sitt á íslensk stjórnmál. Mér finnst vanta stefnu út úr þessum vandræðum og þar held ég að menningin geti komið til hjálpar með hugmyndafræði um náungakærleika og umburðarlyndi að leiðarljósi. Náungakærleikur og umburðarlyndi er áberandi í öllum trúarbrögðum. Þótt finna megi öfgahyggjumenn í íslam, í kristinni trú og fleiri trúarbrögðum þá er náungakærleikurinn meginstefin í þeim öllum.“
Fjölgun mannkyns eitt af stóru málunum
Ágúst bendir á að fólksfjölgunin sé eitt af stóru málunum í veröldinni í dag. „Talið er að þegar Jesús Kristur fæddist fyrir rúmum 2.000 árum hafi jarðarbúar verið um á bilinu 200 til 300 milljónir. Í byrjum 20. aldar voru þeir orðnir um 1,3 milljarðar sem þýðir að þeim hafði fjölgað um einn milljarð á 2.000 árum. Núna er íbúafjöldi jarðarinnar um 7,3 milljarðar sem þýðir að fjölgunin á 20. öldinni og það sem af er þeirri 21., á aðeins 115 árum, var 6 milljarðar. Þetta er nokkuð sem við höfum aldrei séð í sögunni fyrr. Þetta gerir allan samanburð við fyrri aldir og söguna í heild marklausa. Þessi mikla aukning fólksfjölda er að mestu í Asíu en einnig í Afríku. Þetta hefur meðal annars orðið til þess að mannslífið er orðið miklu minna virði en áður. Við sjáum að barist er víða í heiminum en það er eins og menn kippi sér ekkert sérstaklega upp við það. Alþjóðasamfélagið nær til að mynda ekki tökum á 200.000 manna mannfalli eins og er í Sýrlandi. Ég held því fram að þær breytingar sem nú eru að eiga sér stað séu mestu breytingar í sögu mannsins. Jafnvel meiri breytingar en þær sem urðu fyrir um 250 árum með iðnbyltingunni, stofnun Bandaríkjanna, frönsku byltingunni og öðru sem átti sér stað á þeim tíma, þegar borgarastéttin tók völdin af aðalsmönnum og kóngum. Við gerum okkur ekki fulla grein fyrir þessum breytingum fyrr en að einhverjum tíma liðnum.“
Farsælt að vinna með öðrum þjóðum
Ágúst segir að þjóðir verði að standa saman og dregur okkur ekki undan í þeim efnum. „Okkur hefur gagnast mjög vel að vinna með öðrum þjóðum á alþjóðavísu. Dæmi um þetta er þegar við gengum í Sameinuðu þjóðirnar og Atlantshafsbandalagið og gerðum EFTA og EES samningana. Þessar ákvarðanir voru mjög umdeildar hérlendis og umdeildari en í flestum öðrum löndum. Allt þetta hefur orðið okkur mjög farsælt. Við megum aldrei gleyma því að svo fámenn þjóð sem Íslendingar hefur minni möguleika en fjölmennari þjóðir og við verðum að vera raunsæ hvað það varðar.
Eigum að selja okkur dýrt
Ágúst telur Íslendingar haga sér oft eins og þeir séu að reyna að grípa gullgæs sem sé að fljúga í burtu. „Ég get tekið umræðuna um ferðamennina sem dæmi. Talið er að um ein milljón erlendra ferðamanna muni koma hingað á þessu ári. Þetta er þó ekki mikið í samanburði við ferðamenn í nágrannalöndunum. Um 60 milljónir útlendinga komu til Spánar á árinu 2013 og 30 milljónir komu til Þýskalands og Bretlands, hvors lands. Ef við skoðum Norðurlöndin þá komu 11 milljónir erlendra ferðamanna til Svíþjóðar á síðasta ári, 8 milljónir til Danmerkur og rúmar 4 milljónir til Noregs og Finnlands hvors um sig. Það sem er sérstakt fyrir Ísland er að þessi eina milljón er þreföld íbúatala landsins. Ef við miðum við hin Norðurlöndin þá er fjöldi erlendra ferðamanna álíka og íbúafjöldi þeirra en hér er hann þrefaldur. Þess vegna er erfiðara að vinna úr þessu fyrir okkur og þetta er mikil áníðsla á náttúruperlum. Menn gleyma því að þótt ferðaþjónusta sé víða stór atvinnugrein þá er hún mannfrek láglaunaatvinnugrein sem þarfnast einkum ófaglærðs vinnuafls. En þrátt fyrir það eigum við að stunda hana af krafti en selja okkur dýrt. Við eigum að einblína á gæða menningar- og náttúrutengda ferðaþjónustu en láta annað eiga sig. Það er sláandi fyrir okkar að tekjur af hverjum ferðamanni hafa verið að minnka. Við erum ekki að fara rétta leið. Fólk hefur komið hingað í áratugi á stórum bílum með allt viðurværi með sér, ekur um landið en kaupir lítið eða ekkert og skilur nánast ekkert eftir í verðmætasköpun. Hið sama á við ótal farþega á skemmtiferðaskipum, sem skila litlum tekjum.“
Verðum að afnema gjaldeyrishöftin
Hagfræðingurinn kemur upp í Ágústi þegar talið berst að efnahagsmálunum og hann er í engum vafa um hvað verði að gera. Hann segir að nú blasi aðeins eitt verkefni við. „Við verðum að afnema gjaldeyrishöftin. Ef við gerum það ekki mjög fljótt þá siglum við öllu aftur í strand. Við erum að halda uppi gengi gjaldmiðilsins með höftum sem er bæði dýrt og beinlínis heimskulegt. Það kostar okkur marga milljarða á ári að vera með okkar eigin veiku mynt og halda henni með höftum sterkari en veruleikinn endurspeglar er aldeilis fráleitt. Því miður eru þeir orðnir fáir sem muna höftin sem voru hér fyrir 1960. Þegar Viðreisnarstjórnin tók við þá tók það hana langan tíma að taka upp frelsi í viðskiptum. Við vorum þá með höft með tilheyrandi klíkuskap og spillingu áratugum lengur en þurft hefði að vera. Andstaða við framfarir hefur verið allt of áberandi hér á landi. Góð lífskjör hérlendis byggjast nær eingöngu á því hversu langan vinnudag við vinnum og mun lengri en nágrannar okkar. Þessi langi vinnudagur og hin mikla atvinnuþátttaka kvenna skapar tekjur heimilanna og þau lífskjör sem við búum við. “ Ágúst víkur aftur að byggðamynstrinu og segir að við getum ekki horft framhjá því. Þjóðin býr nær öll hér og fólk heldur áfram að flytja á höfuðborgarsvæðið hvort sem það er til Reykjavíkur eða nágrannasveitarfélaganna. Engu að síður erum við alltaf að tala eins og umtalsverður hluti fólksins búi út á landi. Það er bara ekki lengur þannig. Fámennið og búsetumynstrið skapar okkur vandamál. Við þurfum að vanda okkur á næstu árum en það er vitaskuld hægt. Svartsýni er vondur ferðafélagi en raunsæi og bjartsýni fara vel saman.“