Mikil þétting byggðar skapar umferðarvanda

Vesturbærinn 1Bjarni Reynarsson skipulagsfræðingur telur varhugavert að ætla að 90% af nýbyggingum í Reykjavík verði innan núverandi byggðar eins og skipulag gerir ráð fyrir.

Hann kveðst hafa áhyggjur af svo mikilli þéttingu og einkum því sem óhjákvæmilega verði fylgifiskur hennar. Hann segir Íslendinga dreifbýlisfólk í eðli sínu og búi við önnur viðhorf að því leyti en Evrópubúar sem alist hafi upp kynslóð fram af kynslóð í aldagömlu þéttu borgarumhverfi.

Bjarni telur einnig að mikilli þéttingu byggðar fylgi ýmis vandamál einkum umferðarvandamál þar sem núverandi umferðarmann-virki muni ekki bera þá auknu umferð sem fylgi svo mikilli þéttingu byggðar og fólksfjölgun. Í vesturbæ Reykjavíkur séu nú þegar vandamál tengd umferð og tekur Hringbrautina og Suðurgötuna sem dæmi um umferðræðar sem erfitt er að skerða en einnig nauðsynlegt að gangandi fólk komist yfir. Á því þurfi að finna lausnir án þess að þrengja um of að umferðinni. Þá sé heilt sveitarfélag með um nærri 4.400 íbúum vestan Vesturbæjarins sem ekki eigi aðra útgönguleið á landi en í gegnum Vesturbæinn. Menn verði að fara sér hægt að þessu leyti því þótt einhverjum finnist gott að losna við bílaumferðina sé sá kostur ekki í boði. Bjarni telur nauðsynlegt að huga betur að uppbyggingu atvinnufyrirtækja í austurhluta borgarinnar til þess að dreifa álaginu á samgöngurnar. Tal um hjólreiðar og notkun strætisvagna sé ekki raunhæft nema að litlu leyti á meðan meirihlutinn fer um á einkabílum. Óraunhæft sé að ætla reiðhjólinu að verða að almennum samgöngumáta í Reykjavík. Hún er ekki þess háttar borg og ekki hægt að bera hana saman við gamlar og þröngar borgir þar sem ekki er hægt að fara um á einkabílum. Hér haldi einkabíllinn sínu striki og bílaeign virðist fara vaxandi á ný eftir hrunið þótt almenningssamgöngur njóti einnig aukinna vinsælda og hjólreiðar séu í tísku.“

 

You may also like...