Sagan bjargaði mér

Gudni fjolskylda 1

Guðni með börnin sín fimm. Það skiptast á skin og skúrir í lífinu. Fremst eru Edda Magga sem vill aftur til ljósmyndarans mömmu sinnar, og Sæþór horfir hugsandi á hana. Svo er Donni rétt sjáanlegur bak við systur sína, Duncan hæstánægður með lífið og tilveruna og Rut stóra systir sömuleiðis.

Sagnfræðingurinn og háskólakennarinn á Bráðræðisholtinu spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni. Nafn Guðna Th. Jóhannessonar er löngu orðið kunnugt á meðal almennings vegna bóka sem hann hefur skrifað um nýsöguleg efni á undanförnum árum.

Einna kunnast verka hans er ævisaga Gunnars Thoroddsen sem var einn litríkasti stjórnmálamaður Íslands á síðustu öld og lauk stjórnmálaferli sínum með eftirminnilegum hætti sem forsætisráðherra á árunum 1980 til 1983. Af öðrum verkum Guðna má nefna bók um Kára Stefánsson, bók um Þorskastríðin þrjú, bók um hrunið 2008 og bók um Óvini ríkisins sem fjallar um þátt róttækra vinstrimanna í stjórnmálasögu liðinnar aldar. Guðni er fæddur í Vesturbænum og átti þar sín fyrstu spor en flutti ungur með foreldrum sínum suður í Garðahrepp sem þá hét svo en hefur fyrir löngu orðið að Garðabæ. Í menntaskóla fann hann að sagan var það fag sem átti hug hans. Hann fór til náms í sagnfræði við Háskóla Íslands en felldi sig ekki við lestur forn- og miðaldasagna á þeim bæ. Hugurinn stóð til nútímasagnfræði og hann hélt fljótlega til Bretlands til sagnfræðináms. Leiðin lá aftur heim aftur þar sem hann hefur starfað að sagnfræðirannsóknum, ritstörfum og háskólakennslu undanfarin ár. Hann settist með tíðindamanni á kaffihúsinu í Neskirkju einn dimman desembermorgun á dögunum. „Leið mín í Vesturbæinn lá frá fæðingardeildinni og mitt fyrsta æviár bjó ég með foreldrum mínum í lítilli íbúð á horni Ægisgötu og Mýrargötu. Móðir mín Margrét Thorlacius, sem var lengi barnakennari, er Vesturbæingur í húð og hár. Hún ólst upp á Ránargötunni í foreldrahúsum með tveimur eldri systkinum. Ég á margar góðar minningar þaðan. Það var notalegt að koma til afa og ömmu. Afi Guðni sem ég heiti í höfuðið á fór með okkur niður að höfn. Hann var skipstjóri, var lengi með vitaskipin Hermóð og Árvakur. Við lékum okkur við höfnina og skoðuðum skipin og bátana með honum. Svo man ég líka eftir að hafa farið á Melavöllinn með afa og fengið bláan ópal.“

Af Ægisgötunni á Arnarnes

Guðni dvaldi þó ekki öll bernskuárin í Vesturbænum því fjölskyldan tók undir sig stökk ef svo má segja og flutti í Garðahrepp sem var en heitir Garðabær í dag. „Foreldrar mínir festu kaup á fokheldu húsi á Arnarnesi. Fólki fannst það djarft hjá þessum ungu kennarahjónum að kaupa sér einbýlishús í þessu Beverly Hills Íslands. Þar ólst ég upp og sleit barnsskónum við gott atlæti. Ég eignaðist marga leikfélaga og kynntist góðu fólki í kringum okkur. Þarna bjuggu ýmsir þekktir einstaklingar; frumherjarnir í Loftleiðum, Kristinn Olsen og Alfreð Elíasson, Clausen bræðurnir Örn og Haukur frjálsíþróttakappar, Finnbjörn Þorvaldsson og Steingrímur Hermannsson sem síðar varð forsætisráðherra svo nokkrir séu nafngreindir. Þá var mest byggt sunnanmegin á nesinu og tún og fjara voru allt í kringum okkur. Við hlupum í gegnum garðinn hjá Finna og Dídó til að komast í fótbolta niðri á túni. Það var svo mikið pláss. Svo mikið óbyggt. Tjörn var sunnanmegin á nesinu og svo var forn dys við Kópavogslækinn en þar voru ytri mörk þess sem maður þorði að fara.“

Amma kom með strætó á hverjum degi

„Faðir minn Jóhannes Sæmundsson var íþróttakennari við Menntaskólann í Reykjavík og einnig þjálfari í frjálsum íþróttum og handbolta og körfubolta þannig að við bræðurnir ólumst upp í heimi íþróttanna. Við fórum gjarnan með honum á æfingar, ég og Patrekur yngri bróðir minn sem gerði síðan garðinn frægan í handboltanum. Jóhannes, yngsti bróðirinn, náði þessu því miður ekki því að hann var bara á fjórða ári þegar pabbi lést. Patti er núna þjálfari Austurríkis og Hauka í handbolta karla en Jói tölvusnillingur er í einhverri stjórnunarstöðu hjá CCP sem ég kann ekki alveg að útskýra. Þeir eru báðir vel kvæntir og samtals eigum við bræðurnir 11 börn svo að það er nóg um að vera í barnaafmælum og jólaboðum. Foreldrar mínir voru bæði í fullu starfi þegar við vorum að alast upp og amma Margrét sem bjó þá enn á Ránargötunni en flutti síðar á Brekkustíginn kom á hverjum degi með strætó og beið okkar heima þegar við komum úr skólanum með ristað brauð og mjólkurglas. Hún hugsaði afskaplega vel um okkur. Hún var fædd 1909 var því komin á áttræðisaldur upp úr 1980 en var heilsuhraust. Ég man að sumir strætóbílstjórarnir voru svo ljúfir við hana að þeir keyrðu hana heim að dyrum til okkar í Blikanesinu þótt þeir þyrftu að taka smá krók af hefðbundinni akstursleið og var ekki alveg samkvæmt öllum lögum og reglugerðum. Það var mjög indælt að vita af ömmu heima þegar maður kom úr skólanum.“

Áfall að missa pabba

„Móðir mín kenndi fyrst við Landakostskóla í einn vetur en síðan við Hlíðaskóla og lengst við barnaskóla Garðahrepps eða Flataskóla í Garðabæ eins og hann heitir í dag. Seinna var hún ritstjóri barnablaðsins ABC og sá líka um barnaefni í DV. Faðir minn var sem fyrr segir íþróttakennari við MR en hann lést úr krabbameini vorið 1983, á fertugasta og þriðja aldursári. Það var mikið áfall eins og gefur að skilja en móðir okkar stóð sig eins og hetja, hélt öllu gangandi og við bjuggum áfram í Blikanesinu. Allt sem við bræðurnir höfum afrekað eigum við henni að þakka, hitt sem hefur klikkað er okkur sjálfum að kenna. Sama sumar og faðir minn féll frá hóf ég skólagöngu við Menntaskólann í Reykjavík. Þótt ég segi sjálfur frá var ég fyrirmyndar nemandi í barnaskóla og grunnskóla en því miður missti ég einhvern veginn dampinn í MR. Á móti því kom að ég eignaðist mjög góða vini í menntaskólanum og hef líklega þess vegna alltaf stutt bekkjarkerfið í framhaldsskóla eða að minnsta kosti fundið að það hentar sumum mjög vel. Bekkjarkerfið gaf mér ákveðinn ramma utan um lífið í skólanum og við hittumst enn reglulega gamlir bekkjarfélagar úr MR. Þá verðum við aftur unglingar, fíflumst og segjum aulabrandara.“

Sagan bjargaði mér

Guðni segir að skólagangan hafi átt misvel við sig. „Það voru sum fög í skólanum sem maður neyddist til að taka út af skipulagi en sinnti lítið eða alls ekki. En blessunarlega festi ég yndi við eitt fag þegar leið á námið. Þetta var saga – sérstaklega samtímasaga og stjórnmálafræði. Birgir Guðmundsson stjórnmálafræðingur sem nú er háskólakennari á Akureyri kenndi mér og það var gaman í tímum hjá honum. Heimir heitinn Þorleifsson kenndi mér sögu og reyndist mér vel. Ég náði að finna mig í sögunni og það var mikið happ vegna þess að ég var farinn að hugsa um að mér þætti ekki gaman að neinu í skólanum. Sagan bjargaði mér frá þeim hremmingum. Af því að ég hafði áhuga á samtímanum datt ég inn í Gettu betur og við vorum þar í liði MR saman ég og Ólafur Þ. Stephensen, síðar blaðamaður og ritstjóri, og Jón Gunnar Jónsson, Nóni, sem dvaldi lengi erlendis við störf í fjármálageiranum en er nú kominn heim og er yfir Bankasýslu ríkisins. Við þremenningarnir áttum sögulegt en stutt tímabil í Gettu betur. Við lögðum Fjölbrautaskólann við Ármúla að velli í keppni í útvarpinu og mættum svo Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í sjónvarpinu en töpuðum fyrir þeim Breiðhyltingum sem fóru síðan áfram og urðu meistarar það árið. Þetta var ekki alveg eftir forskriftinni. Flestir bjuggust við að MR hefði betur á móti FB en þar voru miklir kappar, Kjartan Ólafsson og bankamennirnir tveir hjá Kaupþingi seinna meir, Ármann Þorvaldsson og Bjarki Diego. Þeir voru bara svo sérlega klárir og flottir og lögðu okkur. Þetta var gaman og auðvitað tókum við þessum ósigri. Ég man að ég var í enskutíma hjá Guðna rektor morguninn eftir og hann hafði þann sið að ganga á línuna og taka mann upp og spyrja út úr. Hann sagði þennan morgun að hann myndi sleppa mér því að ég hefði sýnt alþjóð það í gærkvöldi að ég kynni ekki neitt en glotti vinalega um leið. Ég kunni að meta nafna minn og hann reyndist mér líka vel. Ég hafði kynnst honum áður því ég hafði oft komið á kennarastofuna með föður mínum. Þangað var mjög gaman að fara með pabba. Ég man til dæmis eftir því að við tókum skák feðgarnir og þá dreif að Vilmund heitinn Gylfason. Hann kenndi sögu við MR og hjálpaði mér að klára skákina. Ég man hvað hann sýndi mér barninu einlægan áhuga. Hann hefði getað orðið góður sagnfræðingur hefði leið hans ekki legið í stjórnmálin.“

Penninn, Ríkisútvarpið og Alþingi

Guðni segir að í MR hafi ævistarfið eiginlega komið fram. „Svo kom að því að maður útskrifaðist með góða einkunn í sögu og náði að toga meðaleinkunnina upp í sex komma sjötíu og eitthvað. Þarna sá ég framtíðarstarfið í hyllingum, að kenna og skrifa sögu. Leið mín var samt dálítið skrykkjótt. Ég hóf nám í sagnfræði við Háskóla Íslands strax að loknu stúdentsprófi haustið 1987 en fann mig ekki alveg í því. Ég hafði mestan áhuga á samtímasögu en maður var skikkaður í að hefja leikinn í fornöld. Það átti ekki við mig og svo var maður búinn að finna til einhvers námsleiða en kannski var það bara leti. Mig langaði líka að fara utan. Ég hætti því snarlega náminu hér heima og fór að vinna. Ég var að vinna á þremur stöðum þann vetur. Vann hjá Pennanum um tíma. Var svo á næturvöktum hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins og fékk líka vinnu í skjalageymslum Alþingis. Allt voru þetta ólík störf en gefandi og þarna náði ég að safna nokkrum peningum. Mig langaði að fara til Bretlands til náms og það kostar sitt. Námslán dugðu ekki til svo mamma hjálpaði mér meira en orð fá lýst.“

Góður grunnur að starfa hjá RÚV

„Til að gera langa sögu stutta fór ég haustið eftir – haustið 1988 − til Bretlands í sagnfræði og stjórnmálafræði í Warwick á Englandi. Ég var aðeins byrjaður að vinna hjá Ríkisútvarpinu og næstu árin var ég þar við störf í sumarfríum og það var góður grunnur fyrir sagnfræðirannsóknir og skrif. Þar lærðist manni að koma strax að kjarna málsins og maður naut þess að æfa sig í textaskrifum á íslensku. Þarna voru málfarsráðunautar og reyndir fréttamenn sem sögðu manni til verka og ég hef alltaf haldið því fram að ég hafi lært nánast eins mikið í fréttamennskunni og í náminu. En auðvitað er það bara reynslan sem kennir manni og þjálfar í þessu.“

Hraðferð í skóla lífsins

Guðni var við nám í Bretlandi frá 1988 til 1991 þar sem hann lauk BA prófi. Þá var ætlun hans að fara í meistaranám í Þýskalandi og hann hélt til Bonn þeirra erinda. En hann fann sig ekki þar. „Það var ekki síst vegna þess að þá um sumarið hafði ég kynnst stelpu sem síðar varð konan mín um tíma og heitir Elín Haraldsdóttir þannig að ég kom bara heim. Við Ella keyptum íbúð 1992, trúlofuðum okkur 1993, eignuðumst dóttur 1994, giftum okkur 1995 og skildum svo 1996. Við getum hent gaman að þessu í dag og okkur Ellu kemur mjög vel saman þótt þetta hafi farið á þennan veg á tíunda áratugnum. Hún er núna mikil listakona og er með aðstöðu í Skúmaskoti á Laugaveginum en Rut dóttir okkar er í háskólanum, eldklár og flott í alla staði. En eftir þessa hraðferð í skóla lífsins breyttust forsendur og áform. Árið 1997 lauk ég meistaranámi í sagnfræði við Háskóla Íslands og haustið 1988 hóf ég doktorsnám í sagnfræði í Bretlandi. Fyrst var ég í Oxford og þar kynntist ég eiginkonu minni, Elizu Reid. Eliza er frá Ottawa í Kanada og lauk meistaranámi í samtímasögu ytra.“

Hesthús í Hampshire

„Ég fékk svo fínasta námsstyrk hjá Queen Mary sem er við University of London og Eliza fór að vinna úti. Við bjuggum hér og þar í suðurhluta Englands. Minnisstæðast er að einn veturinn tókum við á leigu uppgert hesthús í Hamsphire sem breytt hafði verið í mannabústað. Þetta var afskaplega þægilegur staður, gott að fara í göngutúra en líka stutt á pöbbinn sem er sterkur þáttur í félagslífi Englendinga.“ Guðni segir að sér hafi alltaf liðið vel í Bretlandi. Segir Breta mikið sómafólk og mjög þægilegt sé að vera þar í námi. „Það er ef til vill erfiðara að búa þar með fjölskyldu nema að vera því efnaðri. Það kostar sitt að vera með börn í skóla í Englandi ef velja á góðu skólana. „En svo lá leiðin heim og Eliza var alveg til í að flytja hingað. Hún hefur mjög gaman af ferðalögum og langaði til að skoða heiminn aðeins áður og lagðist í mikla reisu. Hún tók Síberíuhraðlestina allt austur til Mongólíu og þaðan til Suðaustur Asíu og ferðin tók eina þrjá mánuði. Hún hefur einnig farið um Vestur-Afríku og á örugglega eftir að leggjast í fleiri ferðalög þegar aðstæður verða til.“

Lítið sætt hús við Lágholtsveg

„Við fluttum svo hingað heim. Leigðum til að byrja með litla en notalega íbúð við Hringbraut. Síðan keyptum við ögn stærri íbúð við Hverfisgötu þar sem við vorum í tæp tvö ár eða þar til að við sáum til sölu þetta litla sæta einbýlishús við Lágholtsveginn á Bráðræðisholtinu og keyptum það 2005. Húsið stóð þá í skugga gömlu Lýsisverksmiðjunnar en hún var rifin þá um sumarið og vikurnar á eftir lá lýsislyktin yfir. Þarna höfum við verið síðan sem er að verða áratugur og á þessum tíma höfum við orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast fjögur hress og kát börn. Fyrstur í heiminn kom Duncan Tindur fæddur 2007, Donald Gunnar fæddur 2009, Sæþór Peter 2011 og Edda Margrét Reid, fædd 2013. Þetta er því allt í föstum skorðum hjá okkur en ég hef engar fréttir af 2015 enn sem komið er. Af þessu sést samt að maður verður að fara að hugsa sér til hreyfings, við förum að sprengja litla húsið utan af okkur.“ Guðni er inntur eftir hvort hann myndi geta hugsað sér að flytja í nýbygginguna við Héðinsgötuna með útsýni yfir höfnina. Hann dregur það í efa. „Þannig er að þegar maður er búinn að vera í sérbýli getur verið erfitt að flytja í sambýli þótt maður hafi búið þannig á námsárunum og þekki bæði kosti þess og galla. Maður hefur stundum sagt í gríni og það verður að takast sem grín að við sem ólumst upp á Arnarnesinu búum ekki í blokkum. En að því sögðu þá er það rétt að á Arnarnesinu búa mikið til þeir sem hafa fé á milli handanna. Engu að síður hefur byggðin þar verið blandaðri en margir halda. Mamma besta vinar míns í götunni vann hjá póstinum og pabbi hans var bifvélavirki, og mínir foreldrar voru kennarar með þokkaleg laun en ekkert meira. Maður fær alltaf á tilfinninguna að fólk haldi að maður sé kominn af einhverjum milljónamæringum fyrst maður ólst upp á Arnarnesinu.“

Rithöfundabúðir

Guðni víkur talinu að eiginkonu sinni og segir Vesturbæinn henta henni ágætlega. „Eliza er núna sjálfstætt starfandi. Hún stofnaði meðal annars fyrirtæki sem mér finnst mikið þjóðþrifafyrirbæri. Það heitir Iceland Writers Retreat og eru einskonar rithöfundabúðir. Fyrsti viðburðurinn var fyrr í ár og tókst afar vel. Þekktir erlendir höfundar komu þá hingað og leiðbeindu fólki sem er með bók í maganum eða hefur bara áhuga á að bæta sig í skrifunum. Næsta vor koma Barbara Kingsolver, Ruth Reichl og fleiri, og Sjón verður líka í hópnum. Um leið fær fólk að kynnast íslenskum menningararfi. Þetta er því menningartengd ferðaþjónusta eins og hún gerist best. Eliza hefur þetta að aðalstarfi og ritstýrir líka tímariti Icelandair sem er um borð í flugvélum fyrirtækisins. Hún er alveg mögnuð, talar vel íslensku og það er ekkert grín að hasla sér völl sem útlendingur á Íslandi. Bara það að heita erlendu nafni og tala með smá hreim getur truflað fólk, því miður.“

Eggert Claessen og Einar Oddur

Talinu víkur að verkefnum Guðna sjálfs og því sem hann er að fást við þessa dagana. „Frá árinu 2013 hef ég verið í föstu starfi við Háskóla Íslands þar sem ég hef sinnt kennslu og rannsóknum. Mér finnst skemmtilegast að skrifa hnausþykkar bækur, ævisögur eða bækur sem snúast um samtímasögu að einhverju leyti. Þangað leitar hugurinn en kennslan er tímafrek og allt sem að háskólastarfi lýtur, bæði fundir og ýmis skipulagsstörf. Svo er ég líka í forsvari fyrir Sögufélag sem tekur sinn tíma. Stundum saknar maður þess að geta ekki einbeitt sér að bókaskrifum eins og ég gat gert að talsverðu leyti árin á undan. Mig langar til þess að skrifa og er með ævisögu í smíðum. Ég er að skrifa sögu Eggerts Claessens. Hann sat á Reynistað, óðali sínu í Skerjafirði, sem telst víst til Vesturbæjarins í dag. Ég er líka með aðrar ævisögur á prjónunum og ætla meðal annars að skrá sögu Einars Odds Kristjánssonar bjargvættarins frá Flateyri. Þar fyrir utan eru fleiri verk í bígerð og þar ber kannski hæst sögu þorskastríðanna. Ég hef skrifað um þau áður en langar til þess að segja þá sögu betur – skrifa bækur sem taka betur á tilteknum þáttum þeirra átaka. Alveg frá því að ég var á Englandi hef ég verið að safna í sarpinn. Safna skjölum hér og þar. Ég hef rætt við freigátukapteina og togarajaxla, varðskipsmenn og fleiri og hlakka mikið til að geta púslað þessu öllu saman í læsilegt og fróðleg rit.“

Guðni segir að nú sé komin hæfilega fjarlægð á þorskastríðin sem skipti máli þegar um sagnfræðilegar rannsóknar er að ræða. „Eitt af því er að skjöl eru oft ekki aðgengileg fyrr en 30 árum eftir að atburðir hafa átt sér stað og öldur tekið að lægja svo maður noti sjómannsmál. Þegar frá líður sjá menn hlutina oft í aðeins öðru ljósi. Þetta höfum við séð í því hvernig við lítum sjálfstæðisbaráttuna og sambandið við Dani öðrum augum þegar nokkur tími er liðinn og það er ef til vill einnig tímabært að líta þorskastríðin öðrum augun en við gerðum á sínum tíma. En vissulega var þetta harður slagur og ég hef átt mjög gott samband við þá sem voru í eldlínunni hér heima. Guðmundur heitinn Kjærnested náfrændi minn reyndist mér afar vel. Hann var reiðubúinn að svara öllum spurningum og við göntuðumst einhverju sinni með að við sagnfræðingarnir væri betri að skrá söguna en þeir sem stóðu í eldlínunni miðri. Við gætum hins vegar þakkað fyrir að það voru ekki sagnfræðingar sem voru í fararbroddi í þorskastríðunum því þá hefðum við örugglega ekki unnið þau. Okkur sem fáumst við sagnfræðirannsóknir er uppálagt að skilja sjónarmið allra sem í átökum standa en það er kannski ekki gott veganesi fyrir skipherra á varðskipi sem er að fara að kljást við andstæðinga á hafi úti. Sagnfræðin og herfræðin eiga ekki alltaf samleið og kannski aldrei.“

Svartsýni á mannlegt eðli og samfélagið

Hrunið sem varð hér á landi 2008 berst í tal en Guðni hefur þegar skrifað bók um það. Hann segir hið sama gilda um það og þorskastríðin þegar kemur að sagnfræðinni. Þegar frá líði fái menn aðra sýn og fleiri upplýsingar muni koma fram líkt og í öðrum málum. Hann segir að vissulega þurfi að skrifa áfram um þessa atburði svo fyrirferðamiklir sem þeir voru í okkar samfélagi og ollu svo miklum skaða. „Skoðanir manna á aðdraganda hrunsins, orsökum þess og persónum og leikendum í því öllu munu breytast í tímans rás. Það gerist alltaf með örlagaríka atburði í sögu þjóðar. Það var að vissu leyti gaman að skrifa bókina um hrunið. Þetta var svo mikill hasar. Maður skrifaði kafla að kvöldi en þurfti svo að henda honum í ruslið að morgni þar sem nýjar upplýsingar höfðu bæst við sem breyttu sýn á viðfangsefnið. Hrunið fyllti mann um leið svartsýni bæði á mannlegt eðli og samfélagið. Það var svo margt sem fór úrskeiðis. Menn fylltust oflæti og drambi. Efnishyggjan varð of mikil og lífsgæðakapphlaupið varð of stíft, finnst mér að minnsta kosti. Að því sögðu varð hrunið fyrst og fremst vegna þess að bankarnir uxu of hratt og of mikið. Það gerðist þó ekki af sjálfu sér. Þeir báru ábyrgð sem létu þá vaxa, stjórnendur, lánardrottnar og eftirlitsaðilar. Við hin þurftum að gjalda þeirra mistaka.“

Stukkum mjög hratt inn í nútímann

Hið mannlega eðli er endalaust viðfangsefni í samfélaginu hvort sem um sagnfræði, önnur fræði eða hið daglega spjall er að ræða. Hernámið og kalda stríðið berst í tal en Guðni hefur skoðað þau mál í tengslum við bókina Óvinir ríkisins. Getur verið að finna megi líkindi með með þeirri efnishyggju sem barst hingað á þeim tíma og því sem varð í aðdraganda hrunsins. „Það breyttist margt í tengslum við hernámið og trúlega fullhratt. Ég hef ekki skoðað hernámið út frá þeim forsendum en það væri alveg þess virði að gera það. Þótt ekki megi alhæfa um þjóðir stukkum við mjög hratt inn í nútímann ef svo má segja. Kannski vorum við Íslendingar eins og unglingur sem kunni ekki alveg nógu vel að fara með nýfengið frelsi.“

Að lokum aftur að Vesturbænum og Guðni segir engan spenning fólginn í að fara hugsanlega þaðan. „Við þurfum að finna okkur stærra húsnæði og staðan í Vesturbænum er þannig að þar er dýrasta húsnæðið að finna. Fjölskyldufólk verður því að horfa víðar en fari svo að við verðum að flytja um lengri veg verður mikil eftirsjá að þessum bæjarhluta þar sem okkur hefur liðið ákaflega vel. Til dæmis er mjög þægilegt að geta gengið eða hjólað nánast hvert sem maður þarf að fara. Þó er það þannig að öll hverfi og byggðarlög hafa sinn sjarma. Fyrir mig Stjörnumanninn var nokkurt sálrænt átak að gerast KR-ingur en um leið og börnin fóru að æfa þá gerðist það sjálfkrafa. Ég er uppalinn í Stjörnunni og hef sterkar taugar til míns gamla félags. Ég hitti gamlan félaga minn á dögunum sem vissi ekki að ég byggi í Vesturbænum og fannst ég hafa farið úr öskunni í eldinn að leggja lag mitt við KR. En maður styður alltaf félag barnanna sinna.“

You may also like...