Lambaselið er stærsti happdrættisvinningurinn

Hreindyr-2 1

Nestisstopp á Sauðárflugvelli. Guðný Erla Guðnadóttir og Guðni Einarsson gæða sér á söltuðu hrossakjöti. Ljósmynd/Helgi Guðnason.

Breiðholtsbúar taka virkan þátt í bókaútgáfu fyrir jólin. Bókaútgáfan Hólar er til húsa í Seljahverfi og þar býr einnig Guðni Einarsson, höfundur bókarinnar Hreindýraskyttur sem Hólar gáfu nýlega út.

Hún geymir frásagnir tíu karla og kvenna af hreindýraveiðum á Íslandi og Grænlandi frá því fyrir miðja síðustu öld til dagsins í dag. Leiðsögumaður hreindýraveiðimanna gefur góð ráð um undirbúning veiða og útbúnað. Einnig er þar kafli um fyrirkomulag úthlutunar leyfa til hreindýraveiða á 20. og 21. öld en það hefur mikið breyst frá því sem áður var. Bókin er prýdd landakortum og fjölda mynda.

Viðmælendur Guðna eru Axel Kristjánsson hrl., Gunnar A. Guttormsson bóndi, Guttormur Sigbjarnarson jarðfræðingur, Sigrún Aðalsteinsdóttir, fv. húsvörður, Aðalsteinn Aðalsteinsson bóndi, Þorgils Gunnlaugsson, bóndi, María B. Gunnarsdóttir rannsóknamaður, Pálmi Gestsson leikari, Sæunn Marinósdóttir viðskiptafræðingur og Sigurður Aðalsteinsson sem er leiðsögumaður hreindýraveiðimanna líkt og þeir Aðalsteinn og Gunnar.

Af hverju Breiðholtið

Guðni er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Hann fór frá Eyjum eftir landspróf í Menntaskólann við Hamrahlíð en fór heim á sumrin og vann þar í fiski. Guðni er nú blaðamaður á Morgunblaðinu. Hann er kvæntur Guðfinnu Helgadóttur viðskiptafræðingi og eiga þau fjögur uppkomin börn og fimm barnabörn. Breiðholtablaðið settist niður með Guðna á dögunum og ræddi við hann um veiðar og annað lífshlaup, árin í Breiðholtinu og jólahald í æsku. En hvað kom til að þau fluttu í Breiðholtið?

19 ár á Kjalarnesi

„Við bjuggum 9 ár í Grundarhverfi á Kjalarnesi. Ég kunni mjög vel við mig þar og átti mjög góða nágranna. Á Kjalarnesi naut maður kosta dreifbýlisins og nálægðarinnar við þéttbýlið. Kjalarnes er sveitin í borginni. Náttúran er við bæjardyrnar og veðráttan minnti mig á Vestmannaeyjar. Þar festir sjaldan snjó og þegar hvessir þá er það alvöru blástur. Svo eru þar líka miklar stillur. Ég var með bát og það var stutt að skreppa á sjóinn. Maður sofnaði við öldugjálfur og vaknaði við fuglasöng,“ segir Guðni. „Börnin fóru svo að flytja að heiman eitt af öðru þegar þau festu ráð sitt eða fóru utan til náms.“

Lambaselið er stærsti happdrættisvinningurinn

Guðni segir að herbergjanýtingin í húsinu þeirra hafi verið orðin nokkuð slæm og fannst þeim orðið tímabært að fara að líta í kringum sig eftir hentugra húsnæði nær borginni. Þá voru auglýstar lóðir til umsóknar í Lambaseli árið 2005. Þau sóttu um, líkt og nærri sex þúsund aðrir, og voru dregin út. „Það var stærsti happadrættisvinningurinn sem við höfum fengið til þessa,“ segir Guðni. „Við seldum húsið á Kjalarnesi og byggðum minna hús í Lambaseli sem hentaði okkar þörfum. Yngsti sonur okkar, Einar Jóhannes, lauk grunnskóla í Seljaskóla og fór síðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og lauk þaðan stúdentsprófi í vor. Hann náði sér í konu úr Fellahverfinu og þau eru á leið til náms í Ástralíu. Við kunnum vel við okkur í Seljahverfi. Hér er veðursælt og stutt í alla þjónustu. Við höfum kynnst hér góðu fólki og eignast góða nágranna.“

Ógleymanleg hreindýraveiðiferð

En hvað kom til að þú skrifaðir bók um hreindýraveiðar?„Ég hafði stundað fuglaveiðar og langaði að prófa hreindýraveiðar. Ég kynntist Sigurði Aðalsteinssyni frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal í gegnum starf mitt á Morgunblaðinu en Sigurður hefur lengi verið fréttaritari og ljósmyndari fyrir austan. Ég kom mér upp búnaði til hreindýraveiða og sótti fyrst um hreindýraveiðileyfi 1998 en fékk ekki í fyrstu umferð. Leyfið fékk ég árið eftir og fór þá í fyrsta sinn á hreindýr. Helgi sonur minn, sem þá var 17 ára, fór með mér. Veiðiferðin varð okkur báðum ógleymanleg. Það má alveg segja að við höfum heillast af þessum veiðiskap, náttúrunni fyrir austan og ekki síst fólkinu sem við kynntumst,“ segir Guðni. Hann kvaðst hafa sótt um hreindýraveiðileyfi á hverju ári síðan og hafa farið þegar hann hefur fengið leyfi. Helgi gerðist einnig hreindýraskytta og hefur Guðni farið með honum þegar Helgi hefur fengið leyfi en Guðni ekki.

Löng ganga 2013

Þú hlýtur að hafa lent í einhverjum ævintýrum á hreindýraveiðum? Segðu frá einu slíku. „Ég segi gjarnan þegar ég er spurður hvað sé svona heillandi við hreindýraveiðar að þær séu ævintýri. Mér finnst allar veiðiferðirnar vera mjög eftirminnilegar, hver með sínum hætti,“ segir Guðni. Hann rifjaði upp veiðiferðina 2013. „Ég hafði ekki haft heppnina með mér í nokkur ár þar til ég fékk veiðileyfi í fyrra á tarf á svæði 1. Ég átti pantaðan veiðidag 1. september. Helgi sonur minn og Guðný Erla, yngri dóttir mín, sem bæði eru með skotvopnaleyfi, fóru með mér. Sigurður á Vaðbrekku var leiðsögumaður. Þegar við komum austur voru þar hjón sem höfðu ekki enn náð að veiða sitt dýr. Fyrsta daginn ókum við um Brúaröræfin þver og endilöng en þar átti að vera þokkalegur tarfahópur. Við fórum inn með Hálslóni vestanverðu og alla leið inn að Sauðárflugvelli. Svo vestur úr og þvers og kruss út heiðarnar án þess að sjá hreindýr. Þrátt fyrir það var þetta góður dagur og gaman að fara þarna um. Daginn eftir var vitað af dýrum talsvert langt inn af Vopnafirði. Við fórum inn með upptökum Selár eftir gamalli torfærri slóð sem lá með símalínu sem þarna var. Þar sáum við fimm til sex hundruð dýra hjörð og var mikið far á henni. Við eltum þessa hjörð fram og til baka. Hún var stygg og óróleg og hnappaði sig saman. Það voru fínir tarfar þarna, en þeir héldu sig alltaf í miðri þvögunni og gáfu aldrei færi á sér. Þennan dag gekk ég eina 18 kílómetra, án þess að hleypa af skoti. Þriðja daginn fórum við út undir Grímsstaði á Fjöllum og þaðan eftir þessari sömu slóð inn á Haugsöræfi. Nú hafði hjörðin skipt sér og þarna var um 200 dýra hópur. Aðrir veiðimenn voru búnir að veiða úr hjörðinni þegar við komum. Við eltum hópinn sem stoppaði á miðjum víðáttumiklum rennisléttum mel. Það var ómögulegt að komast að dýrunum óséður. Önnur skytta sem var með mér átti að skjóta fyrst. Loks fóru dýrin af stað og hin skyttan náði tarfi. Við eltum dýrin enn lengra og þar greiddist úr hjörðinni. Ég var búinn að koma mér fyrir og fékk færi á einum af stóru törfunum og felldi hann. Það er flottasti tarfur sem ég hef fellt. Algjört naut og sannkallaður höfðingi sem eflaust var búinn að gegna sínu hlutverki svo um munaði. Þegar við komum aftur í bílinn var ég búinn að ganga eina 15 km þennan dag.“

Full bók af ævintýrum

Í bókinni segja menn væntanlega einnig frá ævintýrum á fjöllum?„Bókin er full af ævintýrum,“ segir Guðni. „Í hópi viðmælenda minna eru veiðimenn sem stunduðu hreindýraveiðar á annarri öld, í fleiri en einni merkingu. Aðalsteinn Aðalsteinsson frá Vaðbrekku hóf sínar hreindýraveiðar á fermingarárinu, 1946, og er enn að. Hann segir frá því þegar veiðimenn fóru á hestum eða fótgangandi upp á heiðar, gistu í gangnakofum og veiddu hreindýr út á kvóta sem úthlutað var á bæina. Aflinn var fluttur til byggða á hestum. Sigrún systir hans varð líklega fyrst íslenskra kvenna til að veiða hreindýr og hún segir frá því ævintýri. Gunnar A. Guttormsson og Guttormur Sigbjarnarson tóku þátt í veiðunum 1954 en þá var fyrsta stóra veiðileyfaúthlutunin á 20. öldinni og veiddu þeir upp í kvóta síns sveitarfélags. Þorgils Gunnlaugsson, frá Sökku í Svarfaðardal, fór ásamt félögum sínum frá Dalvík á hreindýraveiðar 1959. Þeir fengu veiðileyfi til að kynna sér nýtingu hreindýra. Það þótti svo fréttnæmt að menn færu úr Svarfaðardal austur að veiða hreindýr að það birtist frétt um veiðiferðina á baksíðu Morgunblaðsins. Axel Kristjánsson fór í sína fyrstu hreindýraveiðiferð 1963 og hann fór með sínum mönnum á veiðar á liðnu hausti. Er enn að. Axel á örugglega lengstan feril íslenskra sportveiðimanna á hreindýr og er búinn að fella yfir 50 dýr. Fyrstu veiðiferðir hans og veiðifélaga hans voru einnig farnar á hestum. Þetta voru miklir leiðangrar. Mér fannst mikilvægt að varðveita veiðisögur þessa fólks sem kynntist hreindýraveiðum sem voru gjörólíkar því sem við þekkjum í dag. Sigurður Aðalsteinsson tók mikinn þátt í því sem ég kalla atvinnuveiðar, þegar menn veiddu mörg dýr í hverri veiðiferð út á leyfi sveitabæja eða sveitarfélaga. Hann er búinn að veiða hreindýr í 40 ár og hefur verið leiðsögumaður hreindýraveiðimanna frá því að það kerfi var tekið upp 1992. Sigurður gengur undir viðurnefninu Veiðimeistarinn og það ekki að ástæðulausu. Aðrir viðmælendur mínir, þau María, Pálmi og Sæunn byrjuðu að veiða hreindýr á þessari öld. Þau segja fjölbreyttar sögur frá veiðum hér á landi og Grænlandi, þar sem þær María og Sæunn hafa báðar veitt. Mér finnst það koma vel fram að engar tvær veiðiferðir eru eins og hver veiðimaður upplifir þetta á sinn hátt.“

Veiðimennska er ekki sama og drápseðli

Þú ert trúaður og tekur þátt í kirkjulegu starfi. Faðir þinn, sá nafnkunni maður Einar í Betel í Vestmannaeyjum og síðar í Fíladelfíu í Reykjavík, hefur væntanlega haft þar sitt að segja. Skarast trúin og „drápseðlið“ ekkert? „Veiðimennska er ekki sama og drápseðli,“ svarar Guðni. „Mér finnst spænski heimspekingurinn José Ortega y Gasset útskýra það vel í hugleiðingum sínum um veiðar. Hann sagði eitthvað í þá veru að hann veiddi ekki til þess að drepa en yrði að drepa til að hafa veitt. Ég veit að sumir veiðimenn upplifa ákveðna sorg þegar dýrið deyr, eins og kemur fram í bók minni. Maður gleðst yfir góðum afla en kætist ekki yfir að hafa tekið líf. Það má heldur ekki gleyma því að t.d. hreindýraveiðar eru liður í því að stýra stærð hreindýrastofnsins. Ákveðinn fjöldi hreindýra er felldur á hverju ári til þess að tryggja velferð þeirra sem eftir lifa og viðgang stofnsins.“ Guðni kvaðst ekki gera neinn greinarmun á því að veiða dýr með heitt eða kalt blóð. Hann benti á að Íslendingar séu veiðiþjóð og hér búi margar þúsundir veiðimanna, langflestir þeirra séu fiskimenn. „Dettur einhverjum í hug að það sé drápseðli sem knýr sjómenn á sjó dag eftir dag, ár eftir ár,“ spyr Guðni. „Menn gleðjast yfir góðum afla en syrgja ekki þá milljarða lífa sem t.d. ein makrílvertíð kostar. Faðir minn heitinn og eins föðurafi minn, Gísli Jónsson, voru fiskimenn og frístundabændur. Pabbi átti lengi byssu. Fjárhúsin voru á lóðinni hjá okkur á Arnarhóli í Vestmannaeyjum. Kindurnar voru félagar okkar og vinir og við þekktum þær allar með nafni. Engu að síður var hluta þeirra lógað á hverju hausti. Það gladdist enginn yfir því að þurfa að fella kindurnar en afurðirnar af þeim voru nýttar til heimilisins. Það var bara gangur lífsins. Móðurafi minn, Sigurmundur Einarsson, var mikill bjargveiðimaður og veiddi lunda og stundaði eggjatöku. Hann gerðist síðar trúboði. Ég hef líklega erft veiðieðlið úr báðum ættum. Trú mín bannar mér ekki að stunda veiðar en hún kennir mér að bera virðingu fyrir lífinu. Þess vegna deyði ég ekki dýr að óþörfu og nýti vel þá bráð sem ég veiði. Svo má minna á það að þegar Jesús Kristur valdi sér lærisveina þá valdi hann ekki síst veiðimenn – fiskimenn – og kvaðst mundi gera úr þeim mannaveiðara. Veiðarnar kenna manni margt sem kemur sér vel í lífinu, ekki síst í trúarlífinu!“

Að láta gott af sér leiða

Ekki er hægt að skilja við þig á þessum árstíma án þess að biðja þig um stutta sögu sem tengist jólunum. „Bernskujólin á Arnarhóli koma fyrst í hugann. Þótt jólahaldið væri með fábrotnara sniði þá en nú þá voru jólin stórkostleg hátíð líkt og þau eru enn. Jólahaldið hófst með því að við fórum til kirkju. Áður en við borðuðum á aðfangadagskvöld las pabbi jólaguðspjallið úr gamalli Vajsenhús-Biblíu, sem prentuð var 1747. Hjá okkur voru alltaf svið á aðfangadagskvöld og hangikjöt á jóladag. Þetta var allt verkað heima. Svo voru pakkarnir opnaðir. Við fengum bæði mjúka og harða pakka. Það tilheyrði að fá bók í jólagjöf. Eftir að við fluttum suður og pabbi tók við Fíladelfíu voru jólin mikill annatími, bæði heima og í kirkjunni. Heima voru gestir í mat alla jóladagana. Þetta voru ekki fjölskylduboð í hefðbundnum skilningi heldur var leitast við að bjóða einstæðingum og fólki sem var fjarri sínum nánustu á jólunum. Þessir gestir fengu líka jólagjafir. Það var einnig reynt að hjálpa þeim sem bjuggu við þröngan kost, voru sjúkir og syrgjandi. Jólin eru hátíð ljóss og friðar en ekki græðgi og eigingirni. Það tilheyrir sönnu jólahaldi að láta gott af sér leiða.“

You may also like...