Ég er alltaf sami bókaunnandinn
— segir Bryndís Loftsdóttir sem ólst upp í Fellunum —
Nafn Bryndísar Loftsdóttur er tengt bókum enda titlar hún sig bókaunnanda í símaskránni. Segir núverandi starfstitil sinn óþjálan fyrir lesendur símaskrárinnar sem reyndar er nú einungis til á rafrænu formi. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda sem eru samtök bókaútgefenda á Íslandi. Þau voru stofnað 1889 eru því 130 ára gömul. Félagið er hagsmunasamtök bókaútgefenda og vinnur að eflingu bókmennta og bóklesturs hér á landi. Á meðal verkefna þess eru árleg veiting Íslensku bókmenntaverðlaunanna sem fóru fram á Bessastöðum undir lok janúar mánaðar og Stóri bókamarkaðurinn sem er árlegur bókamarkaður og verður haldinn á Laugardalsvelli dagana 22. febrúar til 10. mars næst komandi. Þá má geta þess að Bókatíðindi koma út í nóvember á hverju ári og er dreift til allra heimila á Íslandi.
Bryndís er Fellabarn. Ólst upp í Fellunum í Breiðholti og hóf feril sinn á meðal bóka í bókabúðinni í FB. “Já – ég er úr Fellunum og þótt nafn mitt sé tengt bókum þá ólst ég upp með klukkum og úrum. Faðir minn Loftur Ágústsson var úrsmiður. Hann rak ekki úrabúð eða verkstæði í Miðborginni heldur sinnti vinnu sinni heima fyrir. Notaði forstofuherbergið fyrir vinnustofu og tók að sér viðgerðir og ýmis verkefni tengt klukkum og úrum fyrir aðra úrsmiði og verslanir. Ég ólst upp á heimili sem var undirlagt af klukkum og úrum. Þær héngu oft á öllum veggjum heima. Hann var að prufa sumar en aðrar biðu þess að hljóta lagfæringu í forstofuherberginu eða að vera afhentar eigendum sínum að nýju. Ég man vel að stundum kom fólk utan af landi og gisti hjá okkur því foreldrar mínir voru sitt af hvorum stað á landsbyggðinni og áttu ættingja þar. Þá fannst sumum óþægilegt að sofa við klukknatifið og ég tala nú ekki um þegar þær fór að slá því sumar gerðu það á klukkustundar fresti og allt niður í á korters fresti. Við vöndumst þessu hins vegar og klukkurnar héldu engri vöku fyrir okkur. Móðir mín, Kristjana Petrína Jensdóttir vann aftur á móti niður í bæ. Á Laugavegi 78. Það er bara örfáum skrefum frá þeim stað þar sem ég starfa nú á horninu á Barónstígs og Hverfisgötu. Hún vann á skrifstofunni fyrir Þorbjörn í Kjötbúðinni Borg. Hann rak vel þekkta kjöt- og matvöruverslun í áratugi. Þorbjörn var með mikinn rekstur á þeirra tíma mælikvarða. Stórt eldhús var á hæðinni fyrir ofan verslunina og hann framleiddi tilbúinn mat sem fólk gat komið, keypt og tekið með sér. Margir nýttu sér þessa þjónustu í hádeginu og síðdegis kom fólk og tók mat með sér heim fyrir kvöldið. Þetta hentaði ágætlega fyrir þá sem bjuggu einir og þurftu þá ekki að hafa fyrr eldamennsku. Ég man eftir konu sem orðin var ríflega sjötug og hafði þann starfa í eldhúsinu í Borg að skræla kartöflur. Hún sat og skrældi allan daginn. Þetta er nú eitt af því sem mörgu fólki leiðist en það var aldrei á henni að sjá að hún kynni þessu illa. Mér verður stundum hugsað til hennar við heimilisstörfin.“
Þú reddar þér Bryndís mín
„Ég er alin upp með föður heima á heimilinu en útivinnandi móður. Nokkuð sem ekki var algengt. Faðir minn vildi hafa þetta svona og hann hafði alltaf nóg að gera. Með þessu sparaði hann sér að leigja húsnæði fyrir klukku- og rafverkstæði. Hann sinnti mér hins vegar ekki mikið. Hann var til staðar en það var engin þjónusta í boði. Þú reddar þér Bryndís mín var oft viðkvæði hjá honum þar sem hann grúfði sig niður í úrverkin. Ég ól mig því talsvert upp sjálf. Ég hafði líka oft þann sið að taka strætó niður á Hlemm eftir skóla og hitta mömmu. Ég varð svo samferða henni heim þegar hún var búin að vinna. Þorbjörn var yndislegur maður. Hann var mér alltaf góður og ég man líka vel hversu oft hann rétti matarbita til fólks sem gekk utan alfara leiðar í lífinu og hafði lítið fyrir sig að leggja. Mamma var kersin á fisk enda alin upp fyrir vestan á Þingeyri þar sem soðningin kom nánast beint úr sjónum. Ég fór stundum hjá mér þegar hún lét fisksala sýna sér ótal fiskflök áður en hún valdi það rétta. Hún vildi ekki hvað sem var og því kom sér vel fyrir hana að vera innanbúðar í verslun þar sem gæði hráefnis var haft í fyrirrúmi.“
Flottar séreignaíbúðir í Asparfelli
Pabbi og mamma búa enn á sama stað og mér þykir alltaf notalegt að koma í heimsókn og setjast inn í gamla herbergið mitt sem nú gegnir hlutverki leik- og gistiaðstöðu fyrir barnabörnin. Út um gluggann blasir gamla Aspar- og Æsufellsblokkin við, hún var svona mitt bæjarfjall, það fyrsta sem ég sá þegar ég dró gardínurnar frá á morgnanna. Mér þykir vænt um þessa blokk enda er hún merkileg fyrir margar sakir. Þarna voru póstkassar á hverri hæð, húsvörður sá um þrif og ruslatunnur, í Asparfellsblokkinni voru töff íbúðir á tveimur hæðum og svo var þarna rekin kapalstöð sem sýndi ótextaðar amerískar bíómyndir í massavís. Krakkarnir sem bjuggu í blokkinni voru þess vegna margir hverjir miklu betri en við hin í ensku. Mér fannst þetta flottasta blokkin á landinu. Það fer því alltaf í taugarnar á mér að blokkin skuli sífellt vera notuð sem einhvers konar táknmynd fyrir félagslegar íbúðir í Reykjavík af fjölmiðlum. Ég bara mótmæli því hér og nú. Þetta voru flottar séreignaríbúðir á sínum tíma og eðlilegra fyrir fjölmiðlafólk að birta til dæmis mynd af fjölbýlishúsinu á Meistaravöllum 19 til 23 í Vesturbænum ef það er nauðsynlegt að myndskreyta slíkar fréttir með ákveðnum húsum úr bænum.”
Borgin þarf að sinna Breiðholtinu betur
“Það fer líka fyrir brjóstið á mér hversu litla áherslu borgaryfirvöld hafa sýnt hverfinu gegnum tíðina. Þetta kristallast kannski best í nafngiftinni; þegar ég var lítil hétu hverfin Breiðholt I, II og III. Andleysið algjört, ekkert gert til að grafa upp og viðhalda gömlum örnefnum eða nefna staði nýjum nöfnum. Ég held að óbyggða svæðið milli efra og neðra Breiðholts heiti til dæmis ekki neitt enn þá. Þarna hefur frá árinu 1984 verið mikil trjárækt og svæðið gæti verið dýrmætt og skemmtilegt ef það fengi virðingarvert nafn og viðeigandi umhirðu. Því miður er það svo að það er ekki einu sinni hirt um að klippa greinar sem skara fram á göngustígana á sumrin, hvað þá grisja tréin eða týna rusl. Svo ekur maður Hofsvallagötuna á leiðinni heim frá foreldrunum og sér að það er miklu meiri áhugi á þeim bæjarhluta af hálfu yfirvalda. Sú gata er nú skilgreind sem “borgargata” og þar hangir jólaskraut í öllum ljósastaurum í desember.
Bílveik í bókabílnum
„Þótt ég væri alin upp með klukkum og úrum hafði ég alltaf áhuga á bókum. Ég fór mikið í bókabílinn þegar hann kom í Fellin. Ég hafði tilhneigingu til þess að vera bílveik og gamli bókabíllinn var alltaf hafður í gangi þegar hann var á stæðinu. Ég veit ekki af hverju. Ef til vill til þess að halda hita í bókarýminu. Það gat verið þungt loft inn í honum þegar fólk var í blautum úlpum en ég lét mig alveg hafa það þótt mér væri stundum óglatt. Ég var svo mikill bókaormur. Eftir Fellaskóla fór ég á fjölmiðlabrautina í FB. Þar fór að vinna í bóksölunni með náminu og gerðist bóksölustjóri. Þar byrjaði bóksalan þótt leiðin með bókunum sé þó ekki alveg samfelld. Ég var á fjölmiðlabraut í FB og sótti um starf við blaðamennsku eftir útskrift. Fór í viðtal hjá Styrmi Gunnarssyni. Við áttum ágætar samræður en ekki tókst mér að heilla hann og ég fór aldrei til starfa hjá Morgunblaðinu. Kannski munaði ekki miklu að ég færi í fjölmiðlastörf. Þess í stað fékk ég vinnu í félagsmiðstöð í Árbæ.“
Hvíslari og leikstjóri
„Ég hafði líka mikinn áhuga á leiklist og fór tvítug til London til náms í ALRA – The Academy and Live and Recorded Arts, þaðan sem ég útskrifaðist 1994. Þetta var góður skóli og gaman að kynnast breskum leikbókmenntum. Í skólanum var lögð mikil áhersla á sjónvarps- og útvarpsleik sem auðvitað tengdist svolítið gömlu fjölmiðla-framadraumunum. Meðan á dvölinni í London stóð kom ég jafnan heim í fríum og fékk þá vinnu í Mál og menningu, fyrst í Síðumúla og svo á Laugaveginum. Eftir heimkomuna var ég þar með annan fótinn en var líka aðeins að daðra við leikhúsið. Ég fékk meðal annars vinnu sem hvíslari í Þjóðleikhúsinu sem var frábært starf. Ég leikstýrði líka áhugaleikfélagssýningum, meðal annars Ys og þys útaf engu hjá Leiklistarfélagi Fjölbrautaskólans í Breiðholti árið 1995. Það var ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt. Ég flutti mig svo um set, hætti hjá Máli og menningu og fór að vinna í Eymundsson í Austurstræti sem síðar var Penninn Eymundsson, stórkostleg búð sem opin var langt fram á kvöld. Á einhverjum tímapunkti vantaði verslunarstjóra í búðina og ég fullyrti kokhraust að það fyndist aldrei neinn nógu vitlaus til að taka starfið að sér. Þremur dögum síðar var ég auðvitað orðin verslunarstjóri. Svona lærist manni að éta ofan í sig stóru orðin. Ég vann í nær tvo áratugi í bókabúðum eða frá 1994 til 2013 og leiddist aldrei. Ég man eftir yndislegri konu, Pálínu Eggertsdóttur, sem vann í Mál og menningu í Síðumúla. Hún sagði við mig þessi spöku orð: „Ef þú þarft að vinna í verslun, fáðu þér þá vinnu í bókaverslun“.
Loforð um framtíðarlestur
Hefurðu nóg af bókum í vinnunni eða er allt fullt af bókum heima. „Við erum með mikið af bókum heima. Maðurinn minn, Arnbjörn Ólafsson, er líka mikið fyrir bækur, mikill lestrarhestur þótt hann starfi á öðru sviði þannig að við erum nokkuð samhent í þessu. Nei – ég hef ekki lesið allar bækurnar sem eru heima. Nokkrar á ég eftir að lesa, þær sitja þarna í hillunum, loforð um framtíðarlestur eins og ein vinkona mín kallar þær. En til að taka af allan vafa þá er ég bókaunnandi en ekki bókmenntafræðingur. Ég hef ekki stundað bókmenntafræði sem fræðigrein eða tekið próf í henni. Bókaáhuginn er miklu eldri en hugmyndir um háskólanám enda fór ég aðra leið í því efni.“
Ekki pólitísk í augnablikinu
Þú komst nálægt pólitík. Ertu enn þá pólitísk. „Ekki í augnablikinu. Ég er búin að fara allan hringinn í því efni. Ég byrjaði í gamla Aðþýðubanda-laginu en endaði sem varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Nú er ég ekki á neinum pólitískum lista og er ekkert að íhuga að fara aftur af stað að því leyti. Alla vega ekki sem stendur.“
Fyrrverandi og verðandi bólfélagar
Hvað er Bryndís að gera þessa dagana. Hún lítur út um gluggann á skrifstofu sinni á Bræðraborgarstígnum. Yfir Hverfisgötuna eins og í átt til þess staðar sem Kjörbúðin Borg var. “Núna er ég að undirbúa stóra bókamarkaðinn sem ég hef séð um undanfarin fimm ár. Hann var lengi haldinn í Perlunni en hefur verið í Laugardalnum að undanförnu. Hann fjármagnar rekstur Félags bókaútgefenda og vonandi stuðlar hann að auknum bóklestri. Margir leggja leið sína á bókamarkaðinn og finna þar efni fyrir bæði fyrrverandi og verðandi bólfélaga. Að minnsta kosti þeir sem lesa í rúminu.”