Í íþróttastarfinu myndast tengsl og traust sem endast út lífið

Þrainn-Fjolskyldumynd

Þórdís og Þráinn ásamt dætrum sínum Helgu og Hönnu við Skógarfoss.

Íþróttafræðingarnir og hjónin Þórdís Gísladóttir og Þráinn Hafsteinsson spjalla við Breiðholtsblaðið að þessu sinni. Þótt þau búi í Hvömmunum í Hafnarfirði tengjast þau Breiðholtinu með ýmsum hætti bæði fyrr og nú.

Þau hafa starfað mikið fyrir ÍR í gegnum tíðina. Þráinn starfaði einnig um tíma hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts en er nú íþróttastjóri ÍR. Þórdís er komin til starfa hjá Þjónustumiðstöðinni og mun meðal annars að hafa umsjón með nýju verkefni á vegum Reykjavíkurborgar sem miðar að því að efla Breiðholtið sem heilsueflandi hverfi. Þórdís er Snæfellingur að uppruna en Þráinn er uppalinn á Selfossi sonur Hafsteins Þorvaldssonar félagsmálafrömuðar sem lengi var formaður Ungmennafélags Íslands. En hvernig kynntust þau Breiðholtinu og festust með ýmsum hætti við þessa byggð.

„Það er saga að segja frá fyrstu kynnum mínum af Breiðholtinu,“ segir Þórdís. „Hún er þannig að Guðmundur Þórarinsson frjálsíþróttafrömuður var þjálfari minn hjá ÍR í æsku. Einhverju sinni á leið heim af æfingu bauð hann mér í bíltúr til að skoða framtíðar íþróttasvæði ÍR en þetta var árið 1975 þegar ég var að byrja að æfa hjá félaginu. Hann tók stefnuna upp í Breiðholt sem mér fannst vera út í sveit og upp til fjalla. Hann ók framhjá óbyggðum svæðum og benti mér á framtíðarsvæði mitt í íþróttunum því hér ætti að byggja félagssvæði fyrir Íþróttafélag Reykjavíkur eða ÍR. Mér leist ekkert of vel á þetta og sérstaklega hvernig ég ætti að komast alla þess leið á æfingar. Ég ræddi þetta við pabba sem sagði mér að hafa ekki miklar áhyggjur því bráðum yrði Breiðholtið í alfara leið og ég trúlega komin með bílpróf þegar frjálsíþróttavöllurinn yrði tilbúinn á ÍR svæðinu. Hann reyndist að sjálfsögðu sannspár enda loksins nú sem hyllir undir frjálsíþróttavöll í Mjóddinni og ég löngu komin með bílpróf.“

Breytt tveimur áratugum síðar

Eftir háskólanám í Bandaríkjunum og áratuga afreksferil í íþróttum gerðust þau kennarar við Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni og létu að sér kveða í þjálfun á Suðurlandi. Að lokinni dvöl í Svíþjóð við æfingar og þjálfun komu þau Þráinn og Þórdís bæði til ÍR árið 1994. Þráinn sem yfirþjálfari og Þórdís tók að sér að þjálfa yngri flokkanna auk þess sem þau störfuðu við kennslu. „Við vorum komin til starfa í Mjóddinni sem mér hafði fundist 20 árum áður ótrúlegt að yrði nokkru sinni að íþróttasvæði. Fyrsta árið okkar þar kom Guðmundur Þórarinsson gamli þjálfarinn minn með afabarn sitt á æfingar. Hann var þá hættur að þjálfa sjálfur en hafði mikinn áhuga á að afabarnið tæki þátt í frjálsíþrótta æfingum. Þau komu í strætó úr Hlíðunum og þá snérist dæmið við. Hann sem ók mér upp í Mjódd forðum og sýndi mér móana fékk far með mér til baka eftir æfingarnar, segir Þórdís“

Frjálsíþróttadeildin í öldudal með nokkra tugi iðkenda

Þráinn segir að þegar þau komu til ÍR hafi starfsemi frjálsíþróttadeildarinnar verið í lægð. „Við tókum við um 15 manna meistaraflokki sem var fallinn niður í aðra deild í frjálsíþróttunum og því var ljóst að okkar beið stórt verkefni að byggja starfið upp að nýju. Við byrjuðum að starfa eftir ákveðinni hugmyndafræði og okkur tókst fljótlega að fjölga í hópnum. Í fyrstu lögðum við megináherslu á að byggja upp yngri flokkana. Við gerðum okkur grein fyrir að þetta starf yrði ekki tekið í einu stökki heldur þyrfti að gefa því tíma og byggja það upp skref fyrir skref. Við lögðum líka áherslu á að ef ætti að koma upp meistaraflokki að nýju yrði að byggja hann upp innan frá. Að ala ungt fólk upp og þjálfa það en ekki að kaupa fólk að enda hefur það aldrei tíðkast hjá ÍR né samrýmst stefnu félagsins.“ Þráinn segir nauðsynlegt að byrja á því að byggja grunninn en ekki að reyna að glerja húsið fyrst svo notað sé líkingamál úr húsasmíðinni. „Fólk sem elst upp með félaginu sínu hefur taugar og tilfinningar til þess og hleypur ekki burt við fyrsta gylliboð annarsstaðar frá. Með þessu starfi verður grunnurinn ekki tekinn frá félaginu og fluttur eitthvað annað. Þótt frjálsar íþróttir teljist til einstaklingsíþrótta en ekki hópíþrótta eins og boltaíþróttirnar þá tengist fólk innan félagsins og myndar ákveðna heild þótt það sé að keppa hvert við annað á mótum. Maður áttar sig ekki alveg á þessu nema að taka þátt í starfinu og upplifa sjálfur hvernig þetta tengist og binst saman. Tengslin sem myndast og vinnuaðferðirnar sem þátttakendur tileinka sér í svona íþróttastarfi nýtist fólki á öllum sviðum lífsins og alla ævi. Þegar stefnan í félaginu hefur verið mörkuð þá veit fólk í hvaða anda er unnið og treystir þeim sem leiða starfið. Þetta hefur gegnið vel hjá okkur.“

Nú eru 700 iðkendur

Þráinn segir að meistaraflokkurinn eins og hann er í dag sé byggður upp af íþróttafólki sem flest hefur komið til ÍR á bernskuárum og alist upp með félaginu og notið leiðsagnar þar. „Við höfum líka verið svo lánsöm í ÍR-starfinu að fjöldi fólks hefur komið að þessu í hreinni sjálfboðavinnu. Í þeim stóra hóp er bæði fólk sem komið hefur að þjálfun og einnig þeirri umfangsmiklu vinnu sem mótahald krefst. Við eru með um 700 iðkendur í dag og það gefur auga leið að við þurfum marga stuðningsmenn og konur til þess að halda utan um slíkan fjölda svo vel fari. Án sjálfboðaliðanna væri starfið óframkvæmanlegt. Ég er sjálfur alinn upp við ungmennafélagshugsjónina og ég hef nýtt mér það uppeldi í störfum mínum hjá ÍR .“ Þórdís segir frábært að hafa fengið tækifæri til þess að fást við þetta verkefni nær óslitið í tvo áratugi. „Við höfum kynnst miklum fjölda af ágætu fólki. Margt af því er mjög tryggt félaginu og fólk sem við vorum að þjálfa fyrst eftir að við tókum við er nú farið að þjálfa yngri flokkana með okkur. Þetta er auðvitað frábært að upplifa og finna að fólkið þekkir stefnuna og er tilbúið að vinna í þeim áhuga- og félagsanda sem okkur tókst að leggja upp með í byrjun.“

Íþróttanámsskrár fyrir alla aldursflokka

Þráinn tók við starfi íþróttastjóra ÍR á liðnu ári sem snýst einkum um að aðstoða þjálfara þess við stefnumótun og dagleg störf. Nú er unnið að gerð sérhæfðra íþróttanámskráa í öllum deildum og öllum aldursflokkum félagsins „Ég hef aldrei verið í fullu starfi sem frjálsíþrótta þjálfari og þannig er það enn. Þjálfunin hefur alltaf verið aukavinna. Ég er menntaður íþróttafræðingur og lengst af unnið sem kennari á því sviði. Einnig starfaði ég sem forvarna- og frístundaráðgjafi í Grafarvogi en flutti mig yfir í Þjónustumiðstöð Breiðholts árið 2005 þegar Ragnar Þorsteinsson tók við sem framkvæmdastjóri. Á þessum tíma kynntist ég mörgum Breiðhyltingum og hverfinu frá aðeins öðru sjónarhorni en frá ÍR og nýt þess í dag.“

Breiðholtið heilsueflandi hverfi

Og nú er Þórdís komin í gamla starf eiginmannsins ef svo má segja. „Já – það má auðvitað tengja þetta saman,“ segir hún. „Mitt hlutverk hjá Þjónustumiðstöðinni verður einkum að innleiða og stýra nýju tilraunaverkefni á vegum Reykjavíkurborgar. Hugmyndin er að efla Breiðholtið sem heilsueflandi hverfi í Reykjavík. Breiðholtið hentar ágætlega til þess að leiða starf af þessum toga í borginni. Það er afmarkað og með sterka félagslega innviði. Ætlunin er að fá stofnanir og félagasamtök í hverfinu til liðs við þetta verkefni og vinna að auki með landlæknisembættinu að framgangi málsins. Hugmyndin byggir á því að íbúar hverfisins á öllum aldri taki þátt og tileinki sér heilbrigðan lífstíl, einstaklingunum og samfélaginu til framdráttar. Mér lýst mjög vel á þetta verkefni og vona að hægt verði að keyra það áfram. Undirtektirnar eru góðar og held að þetta geti orðið mjög skemmtilegt og árangursríkt verkefni.“

You may also like...