Munum að kjósa í hverfiskosningum

Bjarni BrynjólfssonBW 1

Bjarni Brynjólfsson.

Framundan eru árlegar hverfakosningar í Reykjavík, Betri hverfi 2015, en þær hefjast í næstu viku, þriðjudaginn 17. febrúar og standa yfir til 24. febrúar.

Kosið er á milli verkefna í hverfum borgarinnar á slóðinni https://kjosa.betrireykjavik.is Á undanförnum árum hafa fjölmargar góðar hugmyndir íbúa orðið að veruleika í Vesturbænum en framkvæmt hefur verið fyrir 112 milljónir króna í hverfinu, samkvæmt niðurstöðum kosninga frá 2012-2014. Öll verkefnin gagnast íbúum hverfisins vel enda snúast þau um það að bæta umhverfið – leiksvæði, útivistaraðstöðu, gönguleiðir, umferðaröryggi, gróðursetningu og fleira sem gerir hverfið miklu betra og meira aðlaðandi til búsetu. Ég hvet íbúa í Vesturbæ til að kynna þér hugmyndirnar sem kosið verður um í hverfinu og dreifa þeim sem víðast. Hægt er að sjá hugmyndirnar fyrir Vesturbæ hér: http://reykjavik.is/betri-hverfi-vesturbaer

Það er mikilvægt fyrir íbúalýðræðið í borginni að sem flestir taki þátt í kosningunum sem nú eru haldnar rafrænt í fjórða sinn. Notast er við Íslykil eða rafræn skilríki til auðkenningar í kosningunum. Ég vil einnig vekja athygli þína á því að aldurstakmark í kosningunum er 16 ár. Kosningarnar eru góð æfing fyrir ungt fólk að læra að nýta kosningarétt sinn.

Munum að kjósa

Bjarni Brynjólfsson

Upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar

You may also like...