Búseti byggir við Árskóga, Keilugranda og víðar
Gert er ráð fyrir að byggðar verði 450 búseturéttaríbúðir í Reykjavík á næstunni. Markmiðið með því er að auka framboð smærri íbúða.
Stefnt er að uppbyggingu við Árskóga í Breiðholti, við Keilugranda í Vesturbænum, við Skógarveg og víðar. Gert er ráð fyrir talsverðri fjölbreytni hvað íbúastærð varðar og verða þær allt frá stúdíóíbúðum til allt að sex herbergja fjölskylduíbúða. Nýlega skrifuðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Gísli Örn Bjarnhéðinsson framkvæmdastjóri Búseta undir viljayfirlýsingu þess efnis að Búseti fái byggingarrétt fyrir 226 íbúðir á nokkrum stöðum í borginni. Þetta er til viðbótar við þær 225 íbúðir sem Búseti er með í undirbúningi eða smíðum. Alls er því gert ráð fyrir að um 450 búseturéttaríbúðir verði byggðar í Reykjavík af Búseta á næstu þremur árum. Undirskriftin fór fram við Árskóga í Suður-Mjódd, en þar er gert ráð fyrir að Búseti byggi 50 íbúðir. Auk þeirra er í viljayfirlýsingunni með fyrirvörum um endanlegt deiliskipulag gert ráð fyrir 60 íbúðum að Keilugranda 1, 20 íbúðum við Skógarveg 16 og síðan allt að 100 íbúðum á smærri þéttingarreitum.