Allt að tveir tugir fyrirtækja farið á tveimur áratugum

Ísb-Eiðistorgi

Íslandsbanki er eitt af mörgum fyrirtækjum sem flutt hafa af Nesinu á síðustu árum.

Allt að tveir tugir fyrirtækja hafa flutt starfsemi sína af Seltjarnarnesi á undanförnum árum. Af þeim má nefna Íslandsbanka en útibúi hans á Eiðistorgi var lokað á dögunum og starfsemin flutt út á Fiskislóð í Örfirsey.

Landsbankinn lokaði starfsstöð sinni á sínum tíma og þegar SPRON rann saman við Arionbanka var starfsstöðinni á Seltjarnarnesi lokað. Bónus flutti einnig á sínum tíma af Hrólfsskálamelnum í Örfirsey og Nesdekk og Aðalskoðun eru einnig horfin af Nesinu. Af öðrum fyrirtækjum sem horfið hafa af sjónarsviði Nesbúa má nefna verslunina Hjólið, Hlölla Báta, Gilla Grill, Söluturninn á Eiðistorgi, Tröllavídeo, Nesval, Wilson Pizza, Pizzahöllina, Málningarbúðina á Austurströnd og Blómahúsið. Þessi listi er alls ekki tæmandi. Iðnfyrirtæki hafa horfið úr Bygggörðum vegna skipulags svæðisins fyrir íbúðabyggð og stöðugt eru laus verslunar- og þjónustupláss á Eiðistorgi. Efri hæði verslunar- og þjónustumiðstöðvarinnar mun vera nýtt sem stendur en nú eru tvö rúmgóð pláss laus á neðri hæðinni. Á sama tíma og verslunar- og þjónustusvæðið í Örfirsey hefur stöðugt vaxið hefur atvinnu- og þjónustustarfsemi verið að hverfa frá Seltjarnarnesi með tilheyrandi samdrætti í þjónustu og óhagræði fyrir íbúana. Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi Samfylkingar gerði þetta mál að umtalsefni á bæjarstjórnarfundi nýverið og skoraði einnig á fulltrúa Seltirninga í stjórn Strætó BS til að taka þetta mál upp á vettvangi stjórnar og bæta þannig grunnþjónustu við íbúa á Seltjarnarnesi en engar beinar ferðir almenningssamganga eru af Seltjarnarnesi út í Örfirsey.

You may also like...