Alþjóðasetur flytur í Breiðholtið
Alþjóðasetur er fjölskyldufyrirtæki sem hefur sérhæft sig í samfélagstúlkun frá árinu 2001 og er í dag orðin stærsta túlkaþjónusta landsins.
Í janúar síðastliðinn flutti fyrirtækið starfsemi sína í Breiðholtið en félagið hafði þá áður verið til húsa í 101 RVK, fyrst við Hverfisgötu og síðar við Laugaveg. Breiðholtsblaðið náði tali af Alexander Dungal, framkvæmdastjóra Alþjóðaseturs og ræddi við hann um húsnæðið, félagið og nýja ímynd þess. Alþjóðasetur hóf starfsemi sína árið 2001 sem þekkingar- og þjónustufyrirtæki á sviði fjölmenningar og mannréttinda undir nafninu Alþjóðahús. Upphaflega var félagið einkahlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kópavogsbæjar og Seltjarnarneskaupstaðar en starfsemi þess kom þá í stað Miðstöðvar nýbúa, sem hafði heyrt undir Íþrótta- og tómstundaráð borgarinnar. Meginhlutverk Alþjóðahúss sneri að því að auðvelda aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi og að auðvelda þeim sem fyrir væru að aðlagast breyttri samfélagsmynd á sama tíma. Alþjóðahúsið starfaði þá bæði sem upplýsingamiðstöð fyrir innflytjendur og innfædda um málefni innflytjenda og bauð upp á almenna félags- og lögfræðiráðgjöf að kostnaðarlausu. Þar var einnig boðið upp á fræðslu, íslenskukennslu og önnur fjölbreytt námskeið af ýmsu tagi. Eftir efnahagshrunið var félagsþjónusta Alþjóðahússins síðan innleidd í starfsemi þjónustumiðstöðvanna og upplýsingamiðstöðin flutt yfir til Fjölmenningarseturs á Ísafirði á meðan að túlka- og þýðendaþjónustan fékk að hefja göngu sína á frjálsum markaði undir nafninu Alþjóðasetur. „Fólk er ennþá að kalla okkur Alþjóðahúsið en það pirrar okkur ekki neitt. Við erum stolt af sögu félagsins og þykir bara vænt um það hversu rótgróið gamla nafnið er í hugum fólks,“ segir Alexander.
Sérfræðingar í túlkaþjónustu
Í dag starfa hátt í 250 túlkar hjá Alþjóðasetri sem túlka samanlagt á milli 65 ólíkra tungumála og íslensku. Félagið sinnir daglega tugum verkefna á höfuðborgarsvæðinu m.a. í réttarkerfinu, hjá lögreglu, fyrir dómi, hjá sýslumanni, Útlendingastofnun, í heilbrigðiskerfinu á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum, einnig í menntakerfinu á foreldrafundum, leik- og grunnskóla og í félagslega kerfinu hjá félagsþjónustum, Barnavernd, Reykjalundi, VIRK o.fl. stofnunum. Þá sinnir félagið einnig öðrum verkefnum s.s. túlkaþjónustu fyrir ráðstefnur fyrirtækja, ökupróf, starfsmannaviðtöl o.fl. Alexandrer segir að samfélagstúlkun sé ólík dóm- og táknmálstúlkun að því leytinu til að það hefur ekki verið í boði fyrir samfélagstúlka hér á landi að verða sér úti um neins konar formlega menntun og/eða viðurkenningu á starfshæfni sinni. „Við höfum því þurft að finna, ráða, þjálfa og votta túlkana okkar að miklu leyti upp á eigin spýtur. Við höfum unnið hörðum höndum að því að þróa og bæta þá þjónustu sem við bjóðum upp á og árangurinn leynir sér ekki. Við erum mjög stolt af því að vera í dag eina túlkaþjónusta landsins með samninga við Reykjavíkurborg, Ríkiskaup og Landspítalann og lítum á það sem mikla viðurkenningu að stærstu stofnanir landsins kjósi að veita skjólstæðingum sínum túlkaþjónustu í gegnum okkur.“
Nýsköpun í rekstri
Ein af sérstöðum Alþjóðaseturs er rafrænt verkbókhald sem heldur utan um öll verkefni og alla vinnutíma félagsins með aðstoð sérstaks verkskráningar-apps. „Eftir hrun fannst okkur að túlkaþjónustan hér á landi hafði dregist töluvert aftur úr öðrum samskiptalausnum hvað tæknivæðingu varðar og ákváðum við að reyna að vinna upp þann mun. Bara núna á síðastliðnum tveimur árum hefur okkur tekist að gjörbylta umfangi þjónustunnar með því að rafvæða allt pantanaferlið frá A til Ö. Í dag getum við tekið á móti pöntunum í gegnum netið og hýst verkbeiðnirnar í skýinu okkar sem tilkynnir túlkunum samstundis að þeim hafi verið úthlutað verki. Túlkarnir geta síðan nálgast verk-upplýsingarnar í gegnum þar til gert app sem síðan sér um að telja lengd þjónustunnar, GPS merkja staðsetningu hennar og bjóða viðskiptavininum að staðfesta móttöku með undirskrift. Sú undirskrift prentast síðan rafrænt á reikninginn þegar við sendum hann til greiðanda þjónustunnar – rafrænt að sjálfsögðu“. Appið er sannkallað snjall-forrit og skráir hvaða tíma dags tímatalningin er sett í gang þannig að hvort sem um er að ræða túlkun um miðja nótt eða hábjartan dag skráist réttur taxti á verkið. Það heldur einnig utan um allan tilfallandi kostnað eins og til dæmis akstur, símboðanir og/eða símtúlkanir tengdar hverju verkefni og gerir líka greinarmun á því hvort um neyðarútkall sé að ræða, en slíkt getur einnig haft áhrif á verð þjónustunnar. Appið gerir því Alþjóðasetri kleift að halda mjög nákvæma skrá um rauntímatalningu allra túlkaverkefna á vegum félagsins.
Nýtt húsnæði – Ný ímynd
Nýja skrifstofan stendur við Álfabakka 14, beint fyrir ofan Augnlæknastofuna og Sjúkraþjálfunina í Mjódd. Stórir gluggar og há lofthæð skapa þar fallega birtu sem endurkastast af hvítum veggjunum og drapplituðu gólfinu. Nýstárlegt díóðuskilti prýðir einnig vesturhlið hússins þar sem þrjú andlit horfa yfir Reykjanesbrautina. „Eftir að öll félagsaðstoð var endanlega færð yfir til þjónustumiðstöðvanna þá fannst okkur gamla lógóið ekki endurspegla starfsemi félagsins nægilega vel lengur. Nýja lógóið er bæði tákn fyrir túlkaþjónustu, þar sem túlkur stendur á milli tveggja einstaklinga og miðlar samskiptum þeirra á milli, og einnig fyrir fjölmenningu og fjölbreytileika fólks með því að sýna þrjú andlit, öll í sitthvorum litnum.“ Alexander kveðst vera hinn ánægðasti með allar breytingarnar. „Okkur líður mjög vel með að vera flutt hingað í Breiðholtið og erum að upplifa okkur mun meira miðsvæðis í Mjóddinni heldur en nokkurn tímann á Laugaveginum. Við vonumst til þess að geta verið hér til frambúðar.“