Klassíski listdansskólinn í Dance World Cup

Nemendur Klassíska listdansskólans á Spáni.

Nemendur úr Klassíska list­dans­­skólanum tóku þátt í Dance World Cup á Spáni í sumar. Krakkar á aldrinum fjögurra til tuttugu og sex ára tóku þátt í þessu heimsmeistaramóti og dansarar úr 10 íslenskum dansskólum tóku þátt í keppninni í ár, alls 208 krakkar.

„Klassíski listdansskólinn fór í fyrsta skipti í lokakeppnina en síðasta ár sendu nemendur inn upptöku af dönsunum sínum vegna Covid svo þetta var því svo­lítil óvissuferð fyrir skólann. Við höfum ekki mikið verið að taka þátt í danskeppnum og fókusinn hjá okkur hefur alltaf frekar verið að setja upp sýningar fyrir nemendur og finna tækifæri fyrir þau til að koma fram. En við teljum að það sé mjög mikilvægur partur af náminu. Dance World Cup á Íslandi hefur bæst í dans flóruna og þá fá krakkarnir tæki­færi til að fara á stóra sviðið í Borgarleikhúsinu, og geta unnið sér inn keppnisrétt í lokakeppnina erlendis. Við nýtum öll tækifæri sem bjóðast fyrir krakkana að koma fram svo við höfum tekið þátt í keppninni hér heima frá upphafi.“ Ellen Harpa Kristinsdóttir er ein af stjórnendum skólans. Tveir hópar fóru með nútímadans atriði, fjórir nemendur kepptu einnig með sóló atriði, tveir klassískir sólóar og tveir nútímadans. 

Þegar farið að huga að næstu keppni

Stelpurnar nutu þess að sýna sig og sjá aðra dansara frá mismunandi löndum í keppninni. Og það gerði þessa ferð þess virði, á Íslandi eru ekki mörg tækifæri þar sem maður getur séð mismunandi stíla og mátað sig við dansara frá öðrum löndum. Ferðin heppnaðist alla vegna það vel að það er nú þegar farið að huga að næstu keppni að ári sem verður í Portúgal.

Klassíski listdans­skólinn (KLS) er faglegur listdansskóli sem leggur sérstaka áherslu á þjálfun ein­staklingsins, hann fái að þróa hæfileika sína frá upphafi, undir gæða leiðsögn. Klassíski listdansskólinn býður upp á klassíska listdanskennslu, nútíma­dans, samtímadans og skapandi dans fyrir nemendur frá þriggja ára aldri. Skólinn starfar samkvæmt aðalnámskrá sem er samþykkt af ráðu­neytinu, sem gefur nemendum skólans tækifæri til að fá nám sitt metið sem hluta af framhaldsnámi þeirra. Starfsemi Klassíska list­dans­skólans er að Álfabakka 14a og Grensásvegi 14. Skólinn vinnur í nánu samstarfi við dansskólann Óskandi sem er staðsettur á Eiðistorgi.

You may also like...