Velferðarþjónusta fyrir alla

Sverrir B 1

Sverrir Bollason.

Velferð er leiðarstef í allri vinnu meirihlutans í Reykjavík enda stór hluti af þeirri þjónustu sem borgin veitir.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar er næststærsta svið borgarinnar og veltir tæpum 20 milljörðum króna árlega. Það segir sína sögu um hvaða áhrif borgarstjórn hefur á þennan málaflokk að þar fer annað stærsta svið borgarinnar. Skóla- og frístundasviðið er þó tvöfalt stærra að umfangi og kalla mætti almennan skóla og frístundastarf mikilvægustu velferðarþjónustuna því þar er öllum veitt tækifæri til að leggja grunn að velferð sinni til framtíðar. Af umræðunni að dæma mætti þó stundum halda að eina verkefni Borgarstjórnar væri skipulag borgarinnar og gatnaframkvæmdir. Á síðastliðnu kjörtímabili átti ég sæti í velferðarráði Reykjavíkurborgar þar sem helstu ákvarðanir eru teknar og stefnan er mörkuð um velferðarmál borgarinnar. Óhjákvæmilega bera þá velferðarmál á góma á mannamótum, fólk er forvitið um störfin og vill vita hvað þau fela í sér. Af þeirri reynslu varð ég þess áskynja að þessi stóri málaflokkur er ekki endilega svo vel kynntur og inniber svo breiða og fjölþætta þjónustu að mjög erfitt reynist að hafa góða yfirsýn. Margir hafa reynslu af velferðarþjónustunni en þekkja hana ekki endilega undir því nafni heldur frekar sem heimaþjónustu eða húsaleigubætur svo algeng þjónusta sé nefnd. Nafnið velferðarþjónustu tengja fleiri, að minni reynslu, við fjárhagsaðstoð og félagslegan stuðning við þá sem standa höllum fæti í samfélaginu. En þjónustan sem boðið er upp á er miklu fjölbreyttari og snertir mikinn fjölda, sér í lagi njóta fleiri þjónustunnar eftir því sem þeir eldast.

Hvað er velferð og fyrir hvern er hún?

Hugtakið velferð hefur í raun litast af sömu fordómum og lýst er að framan. Merking þess og skírskotun er þá orðin svo víð að upphafleg merking eða kjarni merkingarinnar er líklega ekki mjög skýr í hugum fólks. Hvað meinum við líka með “velferð”? Í þeim stjórnmálaflokki þar sem ég starfa, Samfylkingunni verður fólki tíðrætt um velferðarmál, það má segja að það sé kjarninn í öllu starfi flokksfólks. Ef það miðar ekki að almennri velferð með beinum eða óbeinum hætti er líklega betur heima setið en af stað farið. Og því er ég hjartanlega sammála og starfa því glaður með því góða fólki sem starfar í flokknum mínum. Ég hef þó stundum bent á að líklega sé erfitt að klifa á því að við berjumst fyrir velferð í okkar pólitík þegar fólk ýmist skilur ekki hugtakið eða hefur á því skilning sem er frábrugðinn því sem við meinum í lesefni Samfylkingarinnar.

Velferðarþjónusta fyrir alla

Velferðarþjónustan í Reykjavík er ekki eingöngu afmörkuð fyrir einn hóp á grundvelli tekna eða félagslegrar stöðu, henni er ætlað að hjálpa öllum sem þess þurfa til að auka og viðhalda lífsgæðum. Fötlun eða öldrun spyr ekki að félagslegri stöðu eða hagsæld fyrir fram, en því miður hafa bæði fötlun og öldrun mikil neikvæð áhrif á efnahag og félagslega þátttöku. Eitt mikilvægasta hlutverk velferðarþjónustu að mínu mati er að sjá til þess að þau áhrif verði sem minnst; að allir geti haft sjálfstæðan fjárhag, tækifæri til að eiga samskipti og hafa áhrif á umhverfi sitt. Því miður er sá fjárhagsrammi sem ríkið setur velferðarþjónustu og almannatryggingum svo þröngur að oft þykir manni skömm að. En umræðan um það hversu miklu við viljum kosta til sem samfélag er æði oft yfirborðsleg og gjarnan fá önnur viðfangsefni ríkisrekstursins meiri athygli. Það væri vel þess virði að lyfta þeirri umræðu og leyfa kjósendum að spreyta sig á að ræða þessi mál við Alþingismenn með kostnað og ábata fyrir hugununum. Af hverju veljum við eins og við gerum?

Þjónustan batnar heima

Undanfarin ár hefur ýmis þjónusta sem ríkið veitti komið yfir til sveitarfélaganna. Grunnskólarnir sem áður voru undir Menntamálaráðuneytinu voru fluttir til sveitarfélaganna árið 1996. Þjónusta við fatlað fólk var flutt frá Ríki til sveitarfélaga 2011 og til umræðu hefur verið að þjónusta við aldraða flytjist til sveitarfélaganna en þar hefur þó að líkindum strandað á fullvissu um að þjónustan sem ríkið geri kröfu um sé veitt nú þegar og þar af leiðandi að fé til rekstrarins fylgi flutningi ábyrgðarinnar. Það má skilja reynslu þeirra sem til þekkja og betur en ég að þjónusta við fatlað fólk hafi í reynd kostað mun meira en látið var uppi þegar þjónustan var flutt og sveitarfélögin séu enn að borga brúsann af þeim viðskiptum við ríkið. Kannski er því ekki skrýtið að illa gangi með flutning á þjónustu við eldri borgara. Almennt er samt reynslan sú eftir því sem ég fæ best séð að sveitarfélögin séu í betri tengslum við þarfir fólksins og veiti því betri þjónustu. Til dæmis myndu sveitarfélögin tæpast fara að bjóða upp á tvísetna skóla í dag.

Frá borgarstjórn til hverfamiðstöðva

En ef þjónustan batnar og kemst í betri tengsl við notendur þegar hún er flutt niður um stjórnsýsluþrep frá ríki til sveitarfélaga, er þá ekki líklegt að flutningur þjónustunnar frá borgarstjórn til hverfismiðstöðvar og hverfisráðs hefði sömu áhrif? Myndi það ekki auka enn á nálægðina og gefa sérfræðingum þjónustumiðstöðvarinnar fleiri tækifæri til að samþætta þjónustu og skipuleggja svo vel henti. Myndi það ekki gefa þverfaglegum hóp betri tækifæri til að fylgjast með og aðstoða skjólstæðinga velferðarþjónustunnar? Eða myndi það þýða að stærðahagkvæmninni sé fórnað og að minni einingar verði óburðugri til að takast á við flókin verkefni? Hvert hverfi Reykjavíkur að Kjalarnesi undanskildu myndi vera meðal stærstu sveitarfélaga landsins enda búa frá 9.000 í fámennustu hverfunum og allt að 20.000 í þeim fjölmennustu. Maður skyldi ætla að sveitarfélög sem um 10.000 íbúa geti vel sinnt skyldum sínum hví skyldu þá ekki hverfi af slíkri stærð ná að sinna þeim líka? En hugsanlega er myndin í þessum málum einnig skekkt því það er þekkt að til dæmis þjónusta við fatlaða er hlutfallslega miklu meiri í Reykjavík en annars staðar, þeir sem þurfa á sérhæfðri þjónustu að halda leita til höfuðborgarinnar til að fá þá úrlausn sinna mála. Hugsanlega ætti því að taka eitt skref í öfuga átt og binda sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins sterkari böndum um að veita tiltekna þjónustu án tillits til sveitarfélagamarka eða þarf einhverja blöndu af hverfavæðingu og samræmdri stjórnun á öllu höfuðborgarsvæðinu? Hvað sem verður er nauðsynlegt að taka ítarlega umræðu fyrir fram um hvernig við teljum að við getum best aukið velferð okkar með sem hagkvæmustum og skilvirkustum hætti án þess að fórna nánd og áhrifum nærumhverfisins.

Sverrir Bollason.

Formaður hverfisráðs Vesturbæjar.

You may also like...